Fara í efni

Upp úr hjólförunum

Margt fólk er mjög vanafast, líka í stjórnmálum. Það kýs sinn flokk án þess að hugleiða nánar stefnu hans og markmið eða leggja dóm á þau verk sem hann hefur unnið að á undangengnu kjörtímabili.

Við sem stöndum að framboði G-listanna um land allt leggjum hins vegar áherslu á að fólk ræði stefnu og taki afstöðu á grundvelli málefna. Þannig höfum við viljað ræða við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins um hugmyndir þeirra um einkavæðingu í heilbrigðis- og skólakerfinu. Við höfum viljað ræða þær breytingar sem gerðar hafa verið í húsnæðismálum og skattamálum fjölskyldufólki í óhag. En við höfum ekki látið þar staðar numið. Við höfum sett fram hugmyndir til úrbóta í öllum þessum málaflokkum. Við höfum bent á hvernig útrýma megi atvinnuleysi sem er nú meira á Íslandi en verið hefur frá stríðslokum. Vonandi hefur þessi umræða náð eyrum sem flestra, þó óneitanlega hafi verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að kæfa hana með auglýsingaskrumi í sjónvarpi og á flettiskiltum.

Við erum sannfærð um að í alþingiskosningunum nú liggja fyrir tveir valkostir. Annars vegar geta menn kosið hægri stefnu frjálshyggju og einkavæðingar. Hins vegar geta menn kosið mótaðar tillögur Alþýðubandalagsins og óháðra, tillögur sem settar eru fram undir merkjum félagshyggjunnar, tillögur um það hvernig stuðla megi að jöfnuði og verðmætasköpun og útrýma atvinnuleysi.

Þetta eru valkostirnir sem fyrir liggja. Við biðjum kjósendur að draga ályktanir af stjórnarstefnu síðustu ára og kynna sér rækilega tillögur okkar um breytingar. Nú þarf hver og einn að hugleiða hvers konar samfélag hann kýs sér og sínum á næsta kjörtímabili og taka afstöðu að vandlega yfirveguðu máli.