Fara í efni

UM VONINA OG SAMSTÖÐUNA

Alltaf er gott að heyra í þeim sem kunna að spinna saman þræði réttindabaráttu og sögu og menningar. Það kann Ragnhildur G. Guðmundsdóttir flestum fremur og þykir mér vænt um að hún skyldi senda mér ræðu sem hún flutti 8. mars sl. á baráttudegi kvenna. Ragnhildur gaf mér leyfi til að birta ræðuna hér á heimasíðunni og set ég hana hér til birtingar á baráttudegi verkalýðsins. Þykir mér það vel til fundið.
Ragnhildur var um langt árabil í forystu fyrir íslenskt launafólk, sem formaður Félags íslenskra símamanna og sem varaformaður BSRB. Í þessum hlutverkum var hún ein nánasta samstarfskona mín og ekki spillti samstarfinu að með okkur tókst góð vinátta. Á undanförnum árum hefur Ragnhildur beitt sér í baráttu fyrir réttindum kvenna auk þess sem hún hefur starfað fyrir Mæðrastyrksnefnd.
Ragnhildur hittir naglann á höfuðið þegar hún bendir á mikilvægi hins huglæga í tilverunni. Sá á líf sem á von, segir hún. Þetta er rétt. Og áfram má spinna, sá á von sem býr yfir vilja til að berjast fyrir lífsbjörginni. Á baráttudegi verkalýðsins eflum við baráttuandann og þar með lífsviljann - og vonina. Þegar við finnum til samstöðunnar finnum við að við getum þetta saman. Þess vegna er 1. maí, dagur baráttu og samstöðu, jafnframt dagur vonarinnar.