Fara í efni

UM SNAUTLEG LAUN

Sæll Ögmundur.
Friðrik heiti ég og hef nýlega hafið störf sem unglæknir hér á Íslandi. Mig langar að senda þér örstutta spurningu sem ætti að vera hægt að svara með örstuttu svari varðandi kjör lækna. Þau hafa verið nokkuð til umræðu upp á síðkastið, nú þegar enginn ríkisstarfsmaður má hafa hærri laun en forsætisráðherra (!). Þykir mér sú umræða í fjölmiðlum hafa verið illa upplýst, svo og óljós og ómarkviss þar sem aldrei hefur verið skýrt hvort um sé að ræða grunnlaun eða laun eftir að yfirvinnu og öðrum greiddum verkum er bætt við. Þótti mér því rétt að spyrja þig um þetta þar sem að endingu getur þú einn svarað. Sjálfum þykir mér rúmar 900 þús. krónur í heildartekjur snautleg laun fyrir t.d. lækni sem stendur vaktina hvern sólarhring mánaðarins, líkt og sumir læknar landsbyggðarinnar gera. Einnig þykir mér ólíklegt að inn í þessar rúmu 900þús. krónur forsætisráðherra sé reiknaður bílakostnaður, dagpeningar og ýmis hlunnindi sem honum eru réttilega veitt. Er eðlilegt að bera saman laun hjá jafn ólíkum stöðugildum og forsætisráðherrastarfið er annars vegar og læknisstaða hins vegar? Er ekki rétt að gjalda lækni það sem læknis er en ekki lækni í mesta lagi það sem forsætisráðherrans er?

Sæll Friðrik og þakka þér fyrir bréfið. Því er til að svara að launahámarkið snýr einvörðungu að föstum launum en ekki heildarkjörum. Hvað telja megi "snautlegt" og hvað ekki þegar kjörin eru annars vegar, þá eru á því fleiri en ein hlið. Þegar við  við erum að kaupa í matinn úti í fiskbúð, greiða fyrir píanótíma fyrir barnið okkar eða borga húsleiguna skiptir ekki máli hvort við erum sjúkraliðar, ráðherrar, læknar eða strætóbílstjórar heldur hitt hvort við getum yfirleitt borgað. Þegar kreppir að eins mikið og nú er raunin skiptir máli að deila byrðunum á réttlátan hátt. Ég held að við séum líka flest sammála um að reyna að láta efnahagsþrengingarnar ekki leiða til félagslegrar mismununar. Út á þetta gengur viðleitni stjórnvalda.
Það breytir því ekki að það fólk sem þarf að standa erfiðar vaktir eins og heilbrigðisstarfsfólk þarf að gera verður að fá greitt í samræmi við erfiði sitt.
Varðandi þann hlýja hug sem ég ber til læknastéttarinnar leyfi ég mér að vekja athygli á nýlegu viðtali við mig í Læknablaðinu sem ég birti hér á síðunni undir fyrirsögninni "Læknar yfirgefa ekki þjóð sína."
Kv.
Ögmundur