Fara í efni

UM SAMFYLKINGU, FRAMSÓKN, SEÐLABANKA OG...

Ætlar Samfylkingin að drepa sig endanlega í bandalaginu við íhaldið Ögmundur? Ég hef nú frekar verið hallur undir að þið VG menn og Samfylkingin tækjuð við völdunum hér í landinu eins og þú veist og helst með Framsókn, en nú er mér að verða nokkuð mikið brugðið með þetta. Samfylkingin situr sem fastast í ríkisstjórninni og fellir það inn á þingi að þjóðin fái að kjósa um ástandið. Ég hef nú orðið af því áhyggjur að hún dugi ekki með ykkur í almennlegan meirihluta ef hún eyðileggur sig á því að halda Sjálfstæðisflokknum uppi og áfram hér við völd í landinu þegar næstum öll þjóðin vill breytingar. Er ekki hægt að koma vitinu fyrir þau þarna í Samfylkingunni svo þessi möguleiki tapist ekki að mynda annars konar ríkisstjórn? Svo er það eitt annað þarna með stóra lánið hjá gjaldeyrissjóðnum. Er það virkilega rétt að þau ætli að láta Davíð fá alla þessa peninga í Seðlabankann og svo eigi hann að spila úr því? Ég skil þetta nú ekki vel eins og þau tala um hann og líka að krónan sé alveg vonlaus og svoleiðis. Hvað ætli við endum með að þurfa að borga mikið fyrir þetta vesen og hvað verður mikið eftir hjá þjóðinni til að bjarga sér með spyr ég nú bara. Ég var nú ekki nógu ánægður með ykkur í Vinstrigrænum að krefjast þess ekki líka um leið og vantraustið að þjóðin fengi að ákveða stefnuna í sambandi við verðtryggingarmálin og að peningamennirnir yrðu látnir borga eitthvað inn í tapið á bankakreppumálunum. Er ekki hægt að selja undan þeim einkaþoturnar og svoleiðis til að fá eitthvað upp í þetta? Er ekki hægt að láta forsetann neita því að samþykkja þessar lántökur á landið eins og fjölmiðlamálið eða hvernig er þá hægt að stoppa þetta? En svo var nú dóttir mín að ganga í ykkur vinstrigræna í vikunni og þú ert örugglega ánægður með það en ég er nú ennþá svona gamall vinsti maður sem var í Framsóknarflokknum og ekki ákveðinn í hvað ég geri eftir að Guðni hætti. Valgerði kýs ég nú aldrei því hún vill fara með okkur inn i Evrópubandalagið. Af því er ég frekar ráðvilltur núna og er að skrifa þér um þetta eins og stundum áður og vita hvað þú stingur upp á.
Jón frá Læk 

Heill og sæll Jón og þakka þér fyrir bréfið. Ég er þér sammála að margt er nú skrýtið í kýrhausnum. Þú hugsar þinn gang. Um flest er ég sammála þér. Kannski ættir þú að fara að dæmi dóttur þinnar og koma til liðsinnis okkur Vinstrigrænum. Einhvern veginn finnst mér þín sjónarmið eigi þar heima. En hver og einn gerir upp sinn hug.
Ögmundur