Fara í efni

UM R-LISTA, PRÓFKJÖR OG LEIÐTOGA

Sæll Ögmundur. Þú hefur verið þögull sem gröfin um komandi borgarstjórnarkosningar. Öðru vísi mér áður brá. Ég man ekki betur en þú værir gagnrýninn mjög á R-listann fyrr á tíð. Er allt nú fallið í ljúfa löð? Ég var á sínum tíma félagi í Alþýðubandalaginu og minnist ég þess að í aðdraganda stofnunar Samfylkingarinnar skrifaðir þú eitt sinn dreifibréf þar sem þú sagðist ekki fylgjandi því að fólk með mjög mismunandi viðhorf gengi í eina pólitíska sæng. Þér fyndist hins vegar sjálfsagt að flokkar gerðu með sér samkomulag um samstarf eftir kosningar. Á þessari forsendu gagnrýndir þú bæði hugmyndirnar að baki R-listanum og síðar Samfylkingunni. Hefurðu skipt um skoðun? Og hvað með opið prófkjör? Á kannski að kjósa borgarstjórann beint – hafa "leiðtogaprófkjör" eins og heyrst hefur innan úr Samfylkingunni?
Hafsteinn

Þakka þér bréfið Hafsteinn. Þetta er allt hárrétt hjá þér. Samstarf flokka er mér meira að skapi en að stefna fólki með mjög mismunandi viðhorf í "eina pólitíska sæng" eins og þú orðar það ágætlega. Flokkar sem telja markmið sín vera skyld geta hins vegar fyrir kosningar bundist fastmælum um að starfa saman að loknum kosningum. Slíkt fyrirkomulag er kraftmkið, býður upp á breytanleika og sveigjanleika. Flokkarnir safna þá liði um sínar pólitísku áherslur, geta stækkað og minnkað innan stjórnarsamstarfsins eftir því sem fram líða stundir gagnstætt þunglamalegu tveggja flokka kerfi sem í ofanálag hefur víðast hvar reynst mjög ólýðræðislegt. Um það mætti hafa mörg orð. R-listinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru vísir að slíku tveggja flokka kerfi. Hvað formið snertir hefur R-listinn að mínu mati hins vegar verið að þróast í rétta átt á síðasta kjörtímabili. Hann er að verða lýðræðislegri, því hann er orðinn opnari fyrir skoðunum fólks utan Ráðhússins en áður var. Hér þarf þó að ganga miklu lengra í lýðræðisátt og þróa þetta starf áfram. Enn er R-listinn allt of líkur lokuðu flokksræðiskerfi Sjálfstæðisflokksins.
Ég hef haft um það efasemdir að flokkarnir sem aðild eiga að R-listanum væru reiðubúnir að heita því fyrir kosningar að vinna saman að þeim loknum ef R-listinn dytti upp fyrir. Í ljósi þessarar staðreyndar og fyrrnefndrar þróunar í lýðræðisátt  hef ég verið því fylgjandi að byggja á R-listafyrirkomulaginu í næstu kosningum. Þú segir mig réttilega hafa gagnrýnt R-listann. Það hef ég gert. En ég hef líka hrósað honum þegar svo hefur borið undir. Þótt ég hafi gagnrýnt R-listann er ekki þar með sagt að ég vilji Sjálfstæðisflokkinn í staðinn! Ég er fyrst og fremst fylgismaður félagslegra sjónarmiða.
Hvað prófkjör snertir þá hlýtur hver flokkur um sig að ákveða hvaða hátt hann vill hafa á í því efni. VG ætlar að efna til prófkjörs innan sinna raða og fer það fram um mánaðamót september og október. Hinir flokkarnir komast að niðurstöðu fyrir sig. Samningaviðræður flokkanna snúast,auk málefnasamnings, um hvernig skipað skuli á listana. Einnig hverjir skuli hafa verkstjórn með hendi á komandi kjörtímabili. Það er eðlilegt að þetta taki allt sinn tíma. Ástæðan fyrir þögn minni er einfaldlega sú að ég er fullkomlega sáttur við gang þessara viðræðna og ber traust til þess fólks sem annast þær. Okkar fulltrúar hafa leitað eftir sjónarmiðum á tíðum samráðsfundum og fjölmennum félagsfundum hjá VG og njóta óskoraðs stuðnings.

Á hinu hef ég furðað mig nokkuð og það er hve sumir Samfylkingarmenn þrástagast á því á opinberum vettvangi, að í anda sanngirni eigi að viðurkenna að Samfylkingin sé stærri en hinir samstarfsflokkarnir og beri því stærri hlutur í samstarfinu. Þetta yrði fráhvarf frá þeirri jafnræðisreglu sem R-listinn byggir á og er daður við þá hugsun að samstarfinu verði slitið. Því eina leiðin til að mæla stærð flokkanna í borgarmálum í Reykjavík er í beinum kosningum. Það verður ekki gert í skoðankönnunum. Þetta er hins vegar vissulega sjónarmið og vert að íhuga ef Samfylkingunni er alvara að vilja láta slíka mælingu fara fram í kosningum. En væru flokkarnir þá reiðubúnir að heita því að starfa saman að loknum kosningum? Væri Samfylkingin reiðubúin til slíks? Ekki var hún reiðubúin til að gefa slíkar yfirlýsingar fyrir síðustu alþingiskosningar. Þessu þurfa þeir stjórnmálamenn úr hennar röðum sem vilja nú hverfa frá jafnræðisreglunni að svara. Varðandi tal sem heyrst hefur um "leiðtogaprófkjör" verð ég að segja að í mínum eyrum hljómar það eins og kall aftan úr fornöld, úr hálsi þeirra sem vilja foringjaræði. Krafa um leiðtogaprófkjör er krafa um foringjaræði: Kjósum foringjann, hlýðum honum svo! Þetta er þröng og í raun mjög andlýðræðisleg hugsun. Lýðræði 21. aldarinnar á að byggja á opinni og breiðri ákvarðanatöku allt kjörtímabilið, ekki þröngri persónupólitík eins og mér sýnist hér lagt upp með. "Leiðtogaprófkjör" er leið til að taka völd og áhrif frá fjöldanum og færa þau í hendur hins útvalda foringja. Seint myndi ég skrifa upp á slíkt.
Ögmundur