Fara í efni

UM JARÐSAMBAND FORSETA, HELBLÁTT ÍHALD OG MANNRÉTTINDI Í KÍNA

Nú vil ég vita frá þér Ögmundur sem oft hefur gagnrýnt forseta vorn hr. Ólaf Ragnar nokkuð fast hvað þú segir um hans dygga stuðning við landsliðið okkar. Er það ekki einmitt svona sem okkar landsfeður eiga að vera? Vera með sínu fólki og það er nú eitthvað annað en ólánskrákan hún Þorgerður Katrín sem fór akkúrat heim þegar Ólafur kom út. Þau geta kannski ekki einu sinni verið á sama tíma í Kína þó þar búi ellefu hundruð milljónir eða meira. Það er nú meira inngróna hatrið sem þetta íhaldslið hefur á forsetanum. Hann er auðvitað ekki gallalaus en á sína parta, eða hvað? Mér hefur fundist ágætt að þú gagnrýnir forsetan fyrir að vera að dandalast með þessum auðmönnum út og suður en hann er þó ekki jarðsambandslaus við þjóðina eins og þetta erki- helbláa íhald sem þykist eiga landið. Mér finnst að þú og forsetinn eigið að semja vopnahlé og snúa bökum saman af því að þið og Skallagrímur okkar og Jóhanna eruð eina fólkið sem almenningur horfir núna til þegar allt peningamannaliðið er búið að klúðra málum landsins.
Jón frá Læk

Þakka bréfið Jón. Um margt er ég þér sammála. Það er stórkostlegt að fylgjast með okkar mönnum í Peking. Og gott að forseti vor samfagni. Það á hann hins vegar að gera á Íslandi.Ég er í hópi þeirra sem var þeirrar skoðunar  - og er enn - að hvorki forseti né ráðherrar ættu að fara til Kína á leikana og svara þannig kalli mannréttindasamtaka sem vildu að við sýndum þannig í verki stðuning við mannréttindi í Kína. Íþróttafólkið og þess fylgilið á að sjálfsögðu að vera í Kína. Og ég segi bara, vegni því og þar með okkur, sem best!
Ögmundur