Fara í efni

Um framtíð Ríkisútvarpsins

Birtist í DV 14.07.2003
Sá háttur hefur verið tekinn upp að birta leiðara DV nafnlausa líkt og tíðkast á Morgunblaðinu. Þannig er sá tími runninn upp að blaðið hafi skoðun. Í leiðara um sl. helgi viðrar DV skoðanir sínar á ljósvakafjölmiðlunum auk þess sem blaðið skilgreinir sinn skilning á framförum í efnahagslífinu. Fyrirsögn leiðarans gefur tóninn: Ríkið ryður einkaaðilum út. Hvernig skyldi ríkið gera það? Væntanlega með því að halda uppteknum hætti og fjármagna Ríkisútvarpið með afnotagjöldum og auglýsingum einsog gert hefur verið í þau rúmu 70 ár sem Ríkisútvarpið hefur verið við lýði.
Leiðarahöfundur vekur athygli á núverandi þrengingum Útvarps Sögu þar sem umræðuþættir undir stjórn nokkurra valinkunnra fjölmiðlamanna hafa vakið verðskuldaða athygli og þarafleiðandi eftirsjá ef þeir leggjast af.

Útvarp Saga

Ég er í hópi þeirra sem hafa kunnað að meta Útvarp Sögu. Ég er einnig í hópi þeirra sem vilja hafa öflugt Ríkisútvarp. Upp í hugann koma minningar um vandað efni sem hefur verið á boðstólum hjá RÚV í tímans rás. Það er í þessu samhengi sem ég  les leiðara DV. Þar segir: "Á litlum markaði er langt frá því sjálfgefið að hægt sé að reka útvarpsstöð af þeim myndarbrag sem einkennt hefur Útvarp Sögu. Þegar hörð og ósanngjörn samkeppni við Ríkisútvarpið bætist við er slíkur rekstur nær útilokaður. Starfsemi Ríkisútvarpsins hefur því miður orðið til þess að ryðja úr vegi einkareknum ljósvakamiðlum – hefur komið í veg fyrir fjölskrúðugri flóru ljósvaka en raun ber vitni."
Þetta vekur ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi má snúa þessu upp á Ríkisútvarpið og spyrja hvort í litlu þjóðfélagi sé " sjálfgefið að hægt sé að reka útvarpsstöð af þeim myndarbrag sem einkennt hefur" Ríkisútvarpið. Í öðru lagi er ég því mjög ósammála að samkeppnin á ljósvakamarkaði, hvað svo sem um hana má annars segja, hafi fært okkur "fjölskrúðugri flóru". Með undantekningum hefur síbylja þvert á móti aukist og er hún keimlík í öllum stöðvum og er RÚV þar ekki undanskilið.
Ég er hins vegar leiðarahöfundi sammála um að mikilvægt er að tryggja fjölbreytni í efni og ég tek heilshugar undir gagnrýni hans á dekur Sjónvarpsins við "amerískt endurvarp" sem hann kallar svo. Þarna er þörf á meiri metnaði og þykir mér það reyndar eiga við víða í frétta- og dagskrárgerð RÚV. Það breytir ekki hinu að hjá RÚV er einnig margt mjög vel gert. Þá er spurninign hvernig megi betur gera og hvernig verja megi þá dagskrárgerð sem er verulega vönduð. Mænt á tilvonandi menntamálaráðherra Því fer fjarri að ég telji að allt verði lagað með peningum. Síður en svo. Það þarf hins vegar peninga til að búa til vandað dagskrárefni; efni sem ekki er spunnið nánast af fingrum fram, þess vegna af mjög hæfu og reynslumiklu fólki, einsog gerist á Útvarpi Sögu. Leiðarahöfundur DV bindur vonir við tilvonandi menntamálaráðherra: "Þorgerður Katrín Gunnarssdóttir, sem tekur við embætti menntamálaráðherra um komandi áramót, þekkir íslenska fjölmiðla ágætlega af eigin reynslu. Ætla má að hugur hennar standi til að ná fram raunverulegum breytingum í starfi Ríkisútvarpsins, en til þess þarf ekki aðeins pólitíska samstöðu innan ríkisstjórnarinnar heldur öflugan stuðning þeirra sem gera sér grein fyrir hversu mikilvægar breytingarnar eru. Sá stuðningur er til staðar."
En nú er mér spurn. Stuðningur við hvað? Þarf  leiðarahöfundur DV ekki að skýra það nánar fyrir okkur? Hvað vill hann? Vill hann skerða fjárhag Ríkisútvarpsins? Telur hann að það myndi  skapa "fjölskrúðugri flóru",  og ef svo er, horfir hann þá til þess að fleiri fjölmiðlar yrðu um hituna, þannig að fjölbreytnin kæmi fram í fyrirtækjaflóru, eða telur hann að dagskrárefnið yrði fjölbreyttara, vandaðra og betra?

Hvað eru framfarir?

Leiðarhöfundur gefur okkur reyndar innsýn í pólitískt sálarlíf  sitt undir lok leiðarans þar sem hann lofar og prísar Valgerði Sverrisdóttur ráðherra fyrir að hafa haft forgöngu um einkavæðingu ríkisfyrirtækja  og þannig lagt "styrkan grunn undir framfarasókn íslensks efnahagslífs á komandi árum og heilbrigða samkeppni."
Þessi viðhorf þekkjum við og koma þau ekki á óvart frá aðdáendum ríkisstjórnarinnar. En ofar mínum skilningi er að telja það sérstaklega heilbrigt að Valgerður Sverrisdóttir skuli hafa fært flokkshestum Framsóknarflokksins  þjóðbanka að gjöf. Ekki hef ég komið auga á að þetta stuðli að samkeppni og þá alls ekki heilbrigðri samkeppni. Ef leiðarahöfundi DV þykir virkilega hafa tekist vel til um hlutafélagavæðingu Landsímns og helmingaskipti þjóðbankanna þá leyfi ég mér að efast um dómgreind hans varðandi breytingar í heimi fjölmiðlanna.