Fara í efni

UM FÓLKSFÆLNI OG FLISS

Kæri Ögmundur,

Var að lesa pistilinn um hinn glaðbeitta flissandi ÞÁTTASTJÓRNANDA í pólitík á Íslandi. Er skrítið að fólk missi áhugann á pólitískri umræðu, finnist hún þreytandi og innihaldslaus? Ég er sammála því að heilbrigðisráðherrann með sinn ótrúlega hroka talar fyrir sig sjálfur. Hann verður dæmdur af verkum sínum. Valdastrákarnir styðja hvor annan, og leitt að Björgvin ætli að spila með í þessari ótrúlegu umræðu um heilbrigðismál. Rétt eins og Katrín benti á hafa þjónustugjöld í heilbrigðismálum þjóðarinnar hækkað úr hófi fram á síðustu árum, en þeir strákarnir í stjórninni kalla eftir fordómalausri umræðu um kostnaðargreiningu Landspítala. Sem starfsmaður Landspítala hefur um fátt annað verið rætt á síðustu árum innan veggja spítalans. Ég veit ekki betur en að fv. forstjóri spítalans, Magnús Pétursson, sem leiddi farsællega sársaukafulla sameiningu stóru spítalanna í krafti kostnaðargreiningar og sparnaðar, hafi á nútímalegan hátt innleitt kostnaðarvitund í starf spítalans. Guðlaugur Þór rak þennan forstjóra sem talaði um kostnaðarvitund og kostnaðargreiningu. Guðlaugur Þór hafði ekki geð í sér að tala við forstjóra Landspítalans, honum fannst það tímaeyðsla. Er það ekki kaldhæðnislegt að það sé einmitt ríkisstjórn sem kennir sig við samræðustjórnmál sem fellur í prófinu í mannlegum samskiptum. Var það ekki einmitt vandinn í deilu skurð-og svæfingahjúkrunarfræðinga að það var ekki talað við þær og því náðist ekki samkomulag um ásættanlegan vinnutíma sjúklingum til heilla. Var það sigur heilbrigðisráðherra að koma þrjár mínútur fyrir miðnætti og landa samningi sem í sér felur "óbreytt ástand". Er það ekki líka vandamál vörubílstjóra, hvað svo sem sagt verður um innihald þeirra deilu, að stjórnvöld hafa ekki haft geð í sér að tala við fólk? Er það kannski hluti af vandanum að þessi ríkisstjórn glímir við fólksfælni og samráðsleysi? Fólkið í landinu kemur henni ekki við?
Haltu áfram á sömu braut Ögmundur í baráttu þinni fyrir heilbrigðisþjónustu öllum til handa, óháð efnahag. Við fólkið í landinu þurfum á fólki eins og þér að halda. Takk fyrir þína baráttu,
Bestu kveðjur
S.A., starfsmaður Landspítala