Fara í efni

Um eftirlitsþjóðfélagið á 1. maí

Sæll Ögmundur.
Mig langar til að þakka þér hugleiðingar þínar í 1. maí ræðunni sem þú fluttir á Höfn í Hornafirði. Ég las eða heyrði einhverja fréttafrásögn af ræðunni þar sem fyrst og fremst var vitnað í skammir út í ríkisstjórnina. Kannski er þetta eðlilegt fréttamat. Fyrir minn smekk voru hugleiðingar þínar um eftirlitsþjóðfélagið og afleiðingar þeirra kerfisbreytinga sem nú eiga sér stað, miklu merkilegri. Mín tilfinning er sú að þarna sért þú að greina breytingar sem mjög fáir hafa komið auga á. Ég vil hvetja sem flesta til að lesa þessa ræðu hér á síðunni.
Með kveðju,
Sverrir

Sæll Sverrir og þakka þér kærlega vinsamleg orð um vangaveltur mínar um eftirlitsþjóðfélagið. Grundvallarspurningin var þessi: "Hafa menn velt því fyrir sér, að skiptin sem boðið er upp á, er annars vegar samfélag, sem rekið er á forsendum lýðræðislegrar þátttöku og lýðræðislegs aðhalds og hins vegar samfélag sem reist er á forsendum fjármagns en með tilheyrandi og stöðugt fleiri eftirlitsstofnunum. Annars vegar almannasamfélagið með opnu lýðræðislegu aðhaldi og umræðu sem öllum er opin og hins vegar eftirlitssamfélagið, samfélag fjármagnsins þar sem kostnaðarsamt skrifræði gegnir hlutverki sýndarréttlætis".
Ræðuna alla er að finna hér og tek ég undir með þér að finnst mjög mikilvægt að stuðla að opinni og kröftugri umræðu um þær breytingar sem nú eiga sér stað í  samfélaginu og afleiðingarnar.
Kveðja,
Ögmundur