Fara í efni

Um bjartsýni og samábyrgð

Birtist í DV
Það er gott að vera bjartsýnn og það er gott til þess að vita að Íslendingar líti björtum augum til afkomu sinnar á næstu árum. Skoðanakönnun DV færir manni nú heim sanninn um að þeim hafi fjölgað sem trú hafa á framtíðina en hinum fækkað sem óttast að nú muni halla undan fæti. Samanburðartölur eru sóttar til samsvarandi kannana í janúar árið 2000 og október árið 2001. Bjartsýni er bæði notaleg kennd og afl sem getur fengið ótrúlegum hlutum áorkað. En  hún má ekki verða til þess að svæfa samkennd okkar með þeim sem verr standa og hafa litlar ástæður til bjartsýni.

Batnandi hagtölur vekja bjartsýni.

Þegar kaupmáttur þjóðarinnar rýrnar vegna gengislækkunar dregur úr viðskiptahalla.

Viðskiptahallann var orðinn svo geigvænlegur að öll breyting í til batnaðar hlaut að vekja bjartsýni. Fólk hreinlega varpar öndinni léttar við þær fréttir að dragi úr viðskiptahalla sem á árinu 2000 var kominn í rúm 10% af vergri landsframleiðslu og hafði ekki áður verið meiri. Ástæður fyrir minnkandi viðskiptahalla, bæði varðandi vöruviðskipti og þjónustu, eru að dregið hefur úr innlendri eftirspurn og innfluttar vörur hafa hækkað í verði í kjölfar gengislækkunar krónunnar. Slæmar fréttir kalla þannig á góðar fréttir.

Auðvitað þurfti ekki gengislækkun til að sýna okkur fram á að þjóðin eyddi um efni fram. Skuldir heimilanna nema nú á áttunda hundrað milljarða króna. En hvað um það, þegar dregur úr viðskiptahallanum fyllast menn bjartsýni.

Vaxtakjör og vísitala

Lítum þá á vextina. Það er aðeins eitt orð til um vaxtakjörin á Íslandi og það er okur. Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú 8,8%. Nú hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti sína um 1,3% frá 1. apríl sl. og um 2,1% frá því í nóvember. Og sagt að þeir muni lækka enn frekar, lækki verðbólgan.  Þetta mun ekki breyta því að Íslendingar búa við okurvexti – en þeir eru á niðurleið og það veldur bjartsýni.

Gengi gjaldmiðilsins olli að sjálfsögðu áhyggjum. Á árinu 2001 rýrnaði íslenska krónan um 15 %. Hún hefur nú styrkst um 7,5% frá áramótum og vekur það að sjálfsögðu bjartsýni.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,9%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitalan hins vegar hækkað aðeins um 0,4%, sem jafngildir 1,6% verðbólgu á ári. Um síðastliðin áramót var tólf mánaða verðbólga 9,4% og hefur því lækkað um 3,5%. Þessar tölur vekja bjartsýni.

Þrátt fyrir allar áherslubreytingar í efnahagsífinu á undanförnum árum og áratugum er sjávarútvegurinn eftir sem áður undirstaða velsældar þjóðarinnar. En við höfum verið heppin. Ytri skilyrði og náttúrulegar aðstæður hafa vegið upp það sem neikvætt er. Þannig höfum við búið við metafla á síðustu árum og þegar á heildana er litið hefur markaðsverð verið hagstætt. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs aflaðist meira en dæmi eru um í sögunni og í fyrra var sömu sögu að segja. Fréttir um að heimild sé gefin fyrir auknum heildarafla um 2,4% í þorskígíldum er enn eitt atriði sem vekur bjartsýni.

Hvað skýrir aukna bjartsýni?

Þau teikn sem eru á himni efnahagslífsins eru vissulega hagstæðari nú en á samanburðartímanum. Þegar allt er vegið saman, lækkandi verðbólga, hagstæðari viðskiptajöfnuður við útlönd, styrking gjaldmiðilsins og lækkandi vextir, þá fyllast menn bjartsýni. Það segir hins vegar ekkert um efnahagsstjórnina. Allt þetta er að gerast þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem situr í landinu og hefur klúðrað nánast öllu sem klúðra má. Og í ofanálag er hún að veikja sóknarmöguleika þjóðarinnar þegar til framtíðar er litið með því að selja frá okkur mjólkurkýrnar í glórulausri einkavæðingu. Þá hefur hún með skattkerfisbreytingum sínum aukið ójöfnuð í landinu og þannig veikt stoðir þess velferðaþjóðfélags sem fyrri kynslóðir hafa verið að byggja upp í heila öld. Og þar er ég komin að umhugsunarefni sem ég tel vera verðugt fyrir okkur öll og það snýr að samfélagslegri ábyrgð okkar. Hvað þarf til svo nýta megi þessar bættu efnahagslegu aðstæður til að jafna kjörin milli hinna misjöfnu tekjuhópa í landinu?

Samfélagsleg ábyrgð

Þegar það nú gerist að pólitískir flokkar spyrja um það eitt hvað meirihlutanum finnst- en þessi hugsun er að verða áberandi hjá sumum stjórnmálaflokkanna hér á landi -  þá er hætta á ferðum. Ekki síst ef þessi meirihluti áttar sig ekki á því að hann hefur siðferðislegar skyldur gagnvart þjóðfélaginu öllu. Þess vegna vil ég beina orðum mínum sérstaklega til hinnar bjartsýnu íslensku þjóðar og spyrja hvort hún geri sér grein fyrir hlutskipti þeirra sem búa við lökust kjörin og þeirri staðreynd að nú um stundir fer þeim fjölgandi. Lítum til dæmis á atvinnulausa en þeir búa óumdeilanlega við afarkjör.

Atvinnuleysi eykst um 63% milli ára

Skyldi fólk almennt gera sér grein fyrir því að atvinnuleysi er að stóraukast? Ég held að sú staðreynd að atvinnuleysi er ekki eins mikið og það var á samdráttartímum fyrri hluta tíunda áratugarins, en það er sá samaburðartími sem er mönnum ofarlega í sinni í þessum efnum, valdi því að fólk hefur ekki af þessu ýkja miklar áhyggjur. En ég spyr, skyldu menn vita að í aprílmánuði nam atvinnuleysið 2,6%, en það eru 3.692 einstaklingar af holdi og blóði? Og þessum tengdum er enn fleira fólk. Það sem er uggvænlegt er að þessi fjöldi er á uppleið, hefur vaxið um 63,4% frá því í fyrra. Atvinnuleysi í apríl í fyrra var 1,6% eða 2.260 manns og í nóvember árið 2001 var það 1,5% eða 2.119 manns. Þetta er alvarleg þróun. Og skyldu hinir bjartsýnu Íslendingar gera sér grein fyrir því hvaða kjör hinum atvinnulausu eru búin?

Atvinnulaus maður fær 73.765 kr. Skattleysismörkin liggja núna í rúmum sjötíu þúsund og fær hinn atvinnulausi því eftir skatta 72.475 kr. Gera menn sér grein fyrir því hvað það kostar að leigja íbúið, kaupa mat og standa straum af öðrum lágmarkskostnaði sér til lífsviðurværis? Sömu sögu er að segja af öryrkjum sem reiða sig einvörðungu á framfærslu almannatrygginga og sömu sögu er einnig að segja af lægstlaunaða fólkinu. Það getur ekki lifað með reisn af sínum tekjum.

Íslendingar vilja öflugt velferðarkerfi. Nú þegar betur árar í efnahagslífinu, þá þarf að tryggja að tekjudreifing og afkoma hinna ýmsu hópa verði sem jöfnust. Vonandi getum við öll litið til þeirrar framtíðarsýnar með bjartsýni í huga.