Fara í efni

Tyggigúmmíkenningin

Því hefur verið fleygt að eitthvað kunni að vera að slettast upp á vinskapinn milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn og að þau tíðindi gætu jafnvel gerst að upp úr slitnaði í samstarfinu. Til marks um þetta hefur verið bent á nokkur dæmi um að Sjálfstæðisflokkurinn léti hugðarefni Framsóknar ekki ná fram að ganga og gerði ráðherra flokksins jafnvel ómerka orða sinna. Þar er sérstaklega bent á samning Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra við Öryrkjabandalag Íslands. Auðvitað var tímasetning þess samnings fullkomlega siðlaus svona rétt fyrir kosningar. Engu að síður var þetta mikilvægur áfangi í réttindabaráttu öryrkja, og samningurinn þannig úr garði gerður, að menn stigu upp úr hinum pólitísku skotgröfum og hældu samningnum á hvert reipi. Ég var í þeim hópi. Nú hins vegar kemur á daginn að ríkisstjórnin ætlar að hunsa samkomulagið og gera heilbrigðisráðherrann að ómerkingi í augum viðsemjenda sinna.
Önnur vísbending um hugsanleg stjórnarskipti kom úr annarri átt. Menn hafa nefnilega velt því fyrir sér hvað vakað hafi fyrir Samfylkingunni með daðri sínu við markaðsvæðingu innan heilbrigðiskerfisins. Gæti verið að hún sé að gera hosur sínar grænar fyrir Íhaldinu? Þannig hafa menn spurt. En þá kemur að tyggjókenningunni. Kenningin gengur út á eftirfarandi: Eðli Framsóknarlokksins er í ætt við vel tuggða tyggjóplötu sem lendir á stétt og þaðan á skósóla. Hún hangir föst og er varla viðlit að losa hana eftir að búið er að ganga hana upp í sólann nema með sérstökum áhöldum. Ekki hafa menn komið auga á að Sjálfstæðisflokkurinn búi yfir slíkum tólum.