Fara í efni

TVÍSKINNUNGUR VG?

Finnst þér í lagi að byggja flugvöll á Hólmsheiði í næsta nágrenni við vatnsverndarsvæði okkar? Er þetta ekki tvískinnungur VG í hnotskurn? Væntanlega birtirðu ekki gagnrýnisbréf frá lesendum bara gagnrýni á aðra en ég sendi þér þetta samt.
Hljóðólfur

Mér finnst það vera góður kostur að kanna flutning á Reykjavíkurflugvelli á Hólmsheiði og heyri ég að það falli almennt í góðan jarðveg. Hins vegar er þetta mál eitt af þeim málum sem eru nokkuð þverpólitísk í eðli sínu. Ég get alveg játað fyrir þér Hljóðólfur að sjálfum finnst mér ekki liggja á flutningi vallarins nema síður sé. Ég held að flugvöllurinn komi til með að flytja sig sjálfur að einhverju og kannski verulegu leyti til Keflavíkur vegna millilandaflugsins. Fólki af landsbyggðinni þætti eflaust kostur að geta flogið beint á mililandaflugvöllinn á leið sinni til útlanda. Varðandi Vatnsmýrina þá finnst mér að við eigum að fara okkur hægt. Við ætlum að vera hér í nokkur hundruð ár enn ætla ég og okkar kynslóð á ekki að vera of frek á kostnað komandi kynslóða um landnýtingu.
En ég endurtek að hugmyndir VG í Reykjavík eru prýðilegar og er ég sannfærður um að margir vilja íhuga þann kost. Að sjálfsögðu þarf að hyggja að vatnsverndarsjónarmiðum gagnvart flugvelli eða annarri landnýtingu og er þá að því að hyggja að byggðin færist hraðfara í átt að Gvendarbrunnunum - vatnsbólum okkar Reykvíkinga. 
Að sjálfsögðu má ekki ráðast í neinar þær framkvæmdir sem spilla drykkjarvatninu, hvort sem það er með flugvelli eða byggð. 
Varðandi birtingu á gagnrýni í garð mín og minna þá hafa slík skrif margoft birst hér á síðunni.
Kveðja,
Ögmundur