Fara í efni

TJÁNINGARFRELSIÐ BER AÐ VIÐRA - EINNIG ÞEIRRA SEM HAFA RANGT FYRIR SÉR

Ég var að lesa pistil þinn undir fyrirsögninni “STAKSTEINAR, MÁLFRELSIÐ OG MEIÐYRÐALÖGGJÖFIN” og er fullkomlega sammála svari þínu.
Auðvitað kemur ekkert meiðyrðamál til greina því jafnvel þeir sem skrifuðu óhróðurinn í Stakasteinum, eiga að hafa tjáningarfrelsi!   Það er ekkert tjáningarfrelsi nema að fólk fái að hafa rangt fyrir sér. Jafnvel skammarlega rangt!
En það er nauðsynlegt að svara svona fólki fullum hálsum, því aldrei hafa verið mótmæli né kröfugöngur á Íslandi í þágu Sovétríkjanna og glæpamennsku þeirra. Enda hafa Sovétmnenn aldrei hersetið Ísland eða  gert íslensku þjóðinni nokkurt mein. Þvert á móti björguðu þeir þjóðinni úr mikilli neyð þegar “vinir vorir” Englendingar settu viðskiptabann á Íslendinga með leyfi Bandaríkjanna, vegna þess að við vorum að reyna að vernda fiskistofnana við Ísland.
Íslenska þjóðin var aldrei spurð hvort hún vildi leyfa erlenda hersetu í landinu eða ekki!
Það má ekki þakka núverandi íslenskum stjórnvöldum fyrir að losna við hersetuna, því þau hafa grátbeðið herra sína í Washington um að vera lengur og hafa jafnvel boðið að láta Íslenska skattgreiðendur borga fyrir ósómann.
Það voru Bandaríkjamen sjálfir sem voru orðnir þreyttir á að skaffa Íslendingum uppbótavinnu á vellinum á kostnað skattgreiðenda sinna, og að “greiða öðrum hvað sem það var,” sem engin þörf var lengur á fyrir Bandaríkin. Þeir voru fyrir löngu búnir að átta sig á að engin varnarþörf var af hersetunni á Íslandi fyrir sig.  Þeir gátu ekki notað Ísland og Íslendinga lengur, svo þeir bara fóru! Þeim kom ekkert við þótt einhverjir íslenskir álfar út úr hól teldu að það væru einhverjir heilagir samningar frá 1949 og 1951, eða hvað það nú var, sem tryggðu þeim hermangið, “og kannski eitthvað annað og meira gott!”
Ögmundur, eigum við þá í staðin að bera uppá Stakasteina-skriffinna, að það sé þeim að kenna þegar reynt var að svelta Íslendinga til hlýðni og eyðileggja hagkerfi þjóðarinnar með viðskiptabanni Englendinga, með leyfi Bandaríkjanna? Íslendingar voru orðnir háðir enska markaðinum þar sem þeir voru búnir að halda líftórunni í Englendingum í gegnum alla síðari heimstyrjöldina og höfðu þá ekki haft tíma til að afla annarra markaða. Það var þá að Rússar komu okkur til bjargar!
Eigum við að minna þá á að Bandaríkin og Ráðstjórnarríkin voru nánar samstarfsþjóðir í hræðilegasta stríði sem hefur verið háð á hnettinum og Bandaríkin afhentu Ráðstjórnarríkjunum þjóðir Austur Evrópu á silfurbakka?  
Eigum við að kenna þeim um hina langvarandi og andstyggilegu hersetu á Íslandi, sem við erum loksins nú að losna við? 
Eigum við að kenna þeim um nær óteljandi glæpi Bandaríkjamanna með innrásum og ofbeldi í garð varnarlaus fólks víðsvegar um heim, og að þeir séu með hersetulið í 130 þjóðum heims?
Eigum við að minna þá á að húsbændur þeirra séu þeir einu sem hafa myrt fólk með kjarnorkuvopnum og nota enn geislavirkan úrgang í skotvopnum og sprengjum, ásamt efna- og sýklavopnum til að valda langvarandi böli óbreyttra borgara?
Eigum við að minna þá á Dresden, Hamborg og fjölda annarra stórglæpa í Evrópu?  Eigum við að minnast t.d. innrásanna í Kóreu, Víetnam, Grenada, Panama, meðal fjölda annarra athæfa, og nú allra síðast siðlausa og ólöglega innrás og ofbeldishersetuna í Írak?
Ögmundur, eigum við að kenna þeim um morðin og ofbeldið á saklausu fólki ásamt pyntingabúðum víðsvegar um heim ásamt flugi með ódæmda fangana í íslenskri flughelgi? ... Nei Ögmundur, það gerum við ekki. Látum þá bara skammast sín ef þeir hafa einhvern manndóm til þess!  Hugsandi fólk sér í gegnum málatilbúnað þeirra!
En minnumst ætíð með þakklæti, þeirra góðu Íslendinga sem börðust fyrir herlausu og sjálfstæðu Íslandi!   Fyrir Íslandi án erlendrar hersetu!!   Fyrir Frjálsri þjóð!!!
Bestu kveðjur,
Helgi
P.S. Ögmundur, þú taldir upp mikið af góðu fólki sem hefur mótmælt hersetunni á Íslandi, og reyndar farið frammá að við gengjum úr NATO, en þú gleymdir Ólafi Ragnari Grímssyni og Kristjáni Eldjárn. Líklegast hefur þú talið að þeir tilheyrðu “öllum hinum”!

Heill og sæll og þakka þér bréfið. Ég nefndi aðeins fáein nöfn einstaklinga sem hafa beitt sér gegn hersetunni en vísaði eins og þú segir til "allra hinna" þar með þeirra sem þú nefnir.
Kv.
Ögmundur