Fara í efni

TÍMAMÓT MEÐ FANGELSI Á HÓLMSHEIÐI

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 19.04.13
Fangelsisbygging á Hólmsheiði er nú komin af stað. Nú er lokið fimm áratuga ferli um vangaveltur, athuganir, skýrslur og úttektir án þess að nokkuð annað hafi gerst. Nú er komið að framkvæmdum og við sjáum fram á gjörbreytingu í fangelsismálum á Íslandi þegar nýja byggingin verður komin í gagnið. Hún markar tímamót í sögu fangelsismála.
Fátt er um mikla eða merkilega áfanga í sögu fangelsismála á Íslandi síðustu áratugina. Vissulega hefur aðstaða fanga og starfsmanna verið endurbætt. Einnig hefur refsivist dæmdra manna breyst á þann veg að þeim er hjálpað til að endurmeta stöðu sína og komast út í þjóðfélagið aftur. Einnig hefur föngum í vissum tilvikum verið gert kleift að stunda samfélagsþjónustu og hefur það gefið góða raun. Fangar geta stundað vinnu og nám og refsivistin hefur ekki aðeins þann tilgang að útiloka menn um skeið frá þjóðfélaginu vegna misgjörða heldur einnig að gera þeim kleift að takast á við vandamál sín og verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Með góðri aðstöðu og sérhæfðri hjálp tekst það þegar best lætur þótt vissulega séu dæmi um undantekningar þar sem eru til dæmis síbrotamenn.
Í meira en fimm áratugi hefur staðið til að reisa fangelsi á höfuðborgarsvæðinu en fyrstu athuganir fóru fram árið 1960 þegar Valdimar Stefánssyni yfirsakadómara var falið að leggja fram tillögur. Þá var horft til svæðis við Úlfarsá. Eftir hinar fjölmörgu athuganir síðustu áratuga varð niðurstaðan lóð á Hólmsheiði ekki langt frá miðborg Reykjavíkur. Staðurinn er talinn henta vel og með því að vera nær miðborginni fæst hagræðing og tímasparnaður vegna samskipta við gæsluvarðhaldsfanga.
Enn má nefna að í sambandi við bygginguna að efnt hefur verið til hugmyndasamkeppni um listskreytingu en samkvæmt lögum ber að verja 1% af byggingarkostnaði opinberra bygginga til listskreytinga. Var valin sú leið að efna til opinnar samkeppni og er skilafrestur til 17. maí. Er óskað eftir tillögum að listaverkum á lóð fangelsisins, í útigarði og innigarði, alls þremur verkum.

Starfsemi í úreltum byggingum lögð niður
En lítum aðeins á söguna. Við getum ekki verið stolt af því að nota ennþá Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík sem fangelsi, hús sem reist var árið 1874. Það er löngu orðið úrelt sem fangelsi og þar sem stór hluti hússins er friðaður er erfitt að bæta aðstöðu þar. Síðustu árin hafa fangar verið vistaðir þar í stuttan tíma og hefur aðallega verið notað sem móttökufangelsi fyrir fanga sem eru að hefja afplánun refsingar. Það verður aflagt sem fangelsi þegar hið nýja fangelsi á Hólmsheiði verður tilbúið. Í því sambandi má geta þess að ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu mína um að efnt verði til hugmyndasamkeppni um framtíðarnotkun hússins og verður blásið til hennar á allra næstu dögum.
Fangelsið í Kópavogi var tekið í notkun sem slíkt árið 1979 en þar var áður unglingaheimili ríkisins. Þar eru kvenfangar vistaðir en þar sem konur eru yfirleitt fáar hefur fangelsinu verið skipt í kvennagang og karlagang. Aðstaða til að afplána þar margra ára refsivist er ekki talin viðunandi lengur. Þetta fangelsi verður einnig lagt niður með tilkomu nýja fangelsisins.
Fangelsið að Litla-Hrauni var tekið í notkun árið 1929 eftir breytingar en það var byggt sem sjúkrahús en aldrei notað sem slíkt. Það hefur í áratugi verið aðal gæsluvarðhalds- og afplánunarfangelsi landsins. Fangelsið hefur yfir að ráða 9 byggingum fyrir hina ýmsu starfsemi og er aðstaða þar skapleg. Með tilkomu nýja fangelsisins verður gæsluvarðhaldsdeildin á Litla-Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun. Gefur það um leið tækifæri til nokkurra umbóta.
Önnur fangelsi landsins eru á Akureyri, Kvíabryggju og Sogni og má segja að aðstaðan á þeim stöðum sé með ágætum.
Með tilkomu fangelsis á Hólmsheiði verður unnt að leggja niður starfsemi í úreltum byggingum sem geta ekki lengur þjónað markmiðum starfseminnar.
Á Litla-Hrauni verður áfram þungamiðjan í fangelsiskerfinu og er nauðsynlegt að ráðast þar í endurnýjun á húsnæði og uppbyggingu á komandi árum eins og fangelsismálastjóri hefur margoft bent á.

Gjörbreyting
Nýtt fangelsi á Hólmsheiði getur tekið 56 fanga. Þar verður sérdeild fyrir konur og hugað sérstaklega að þörfum þeirra. Aðstaða og aðbúnaður verður þannig að unnt verður að tryggja föngum örugga og vel skipulagða afplánun. Þar verða mannleg og virðingarverð samskipti látin sitja í fyrirrúmi og þar verður skapað umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við vandamál sín. Fangelsisdómur er harkaleg aðgerð og þvingun stjórnvalds til að koma hinum dæmda á réttan veg.
Nú þegar framkvæmdir eru að hefjast vil ég þakka þeim sem undirbúið hafa verkið. Þar fer fremst meðal jafningja Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, sem hefur leitt hópinn og mun veita byggingarnefndinni forystu. Ég vil einnig minnast Stefáns heitins Eggertssonar verkfræðings, sem starfaði með verkefnastjórninni og hafði um árabil verið ráðgjafi Fangelsismálastofnunar og ráðuneytisins í málaflokknum en hann lést langt fyrir aldur fram í byrjun þessa árs. 
Með góðum aðbúnaði, sérhæfðu starfsfólki og stuðningi er leitast við að refsivist nái þeim tilgangi sínum að snúa föngum til betri vegar. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að draga úr líkum á endurkomu fanga vegna nýrra afbrota. Fangelsi á Hólmsheiði er stórt skref í þá átt.

(Niðurlag greinarinnar féll niður í birtingu í gær en var leiðrétt í dag)