Fara í efni

TÍMAMÓT Í FANGELSISMÁLUM

Frettablaðið
Frettablaðið

Fréttablaðið 6.6.12
Bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði mun marka tímamót í sögu fangelsismála á Íslandi. Síðasta sérsmíðaða fangelsið á Íslandi, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, var reist og tekið í gagnið árið 1875, fyrir tæplega 140 árum síðan. Fangelsið á Litla-Hrauni var upphaflega byggt sem sjúkrahús fyrir Suðurland en hætt var við þau áform. Landstjórnin keypti bygginguna árið 1929 og breytti í fangelsi eða "letigarð fyrir slæpingja og landshornamenn" eins og lesa má um í þingskjölum þess tíma.

Í ríflega hálfa öld hefur staðið til að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Um 1960 var Valdimar Stefánssyni sakadómara falið að gera tillögur að nýju fangelsi við Úlfarsá en þau áform dagaði uppi. Síðan hefur saga fangelsisbyggingarmála verið langdregin og einkennst af skýrslugerð, úttektum, athugunum og umræðum um ákjósanlega staðsetningu.

Staða fangelsismála á Íslandi hefur meðal annars verið gagnrýnd í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi en þar er nefnt að elstu fangelsi okkar standist ekki nútímakröfur, biðlisti eftir fangelsisvist sé of langur og að ekki sé hugað nógu vel að stöðu kvenfanga og ungra afbrotamanna innan fangelsiskerfisins.

Í gær kynnti dómnefnd, sem hafði það hlutverk að velja tillögu að undangenginni arkitektasamkeppni, niðurstöðu sína. Það var arkitektastofan Arkís sem hlaut fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína að nýju fangelsi. Byggingin er látlaus og einföld og skapar góð skilyrði til afplánunar refsinga. Nýja fangelsið leysir af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsið í Kópavogi en gert er ráð fyrir að 56 fangar geti verið í hinni nýju byggingu. Sérdeild verður fyrir konur og hugað sérstaklega að þörfum þeirra.

Framkvæmdir eiga að geta hafist fyrri hluta árs 2013 og fangelsið síðan tekið í notkun 2015. Á sama tíma verður lögð niður starfsemin í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og Kópavogsfangelsi.

Með byggingu þessa nýja fangelsis verður brotið blað í sögu fangelsismála á Íslandi og um leið og ég þakka dómnefnd fyrir vel unnin störf óska ég okkur öllum til hamingju með þennan áfanga.