Fara í efni

Tímabær umræða um verktakagreiðslur

Nú þyrfti að gera úttekt á verkatakagreiðslum á íslenskum vinnumarkaði. Kanna þyrfti hvort slíkt fyrirkomulag sé að færast í vöxt eða hvort ástandið sé óbreytt. Varla er það að batna – því miður er það mín tilfinning að svo geti það ekki verið. Að vísu gerðu heildarsamtök opinberra starfsmanna gangskör að því að útrýma verktöku hjá hinu opinbera fyrir rúmum áratug og var árangurinn af þeirri viðleitni verulegur. ASÍ hefur líka látið sig þessi mál mjög varða þótt hvorki ASÍ né BSRB hafi beitt sér sérstaklega í þessu máli, svo tekið hafi verið eftir, í seinni tíð. Nú þarf að kanna að nýju hversu ástatt er. Ekki má sofna á verðinum því hér er um mjög mikilvægt hagsmunamál að ræða.

Hvatning til umræðu af þessu tagi kom nýlega fram í Morgunpósti VG (http://www.vg.is/postur). Þar kom fram ákall um að verkalýðshreyfingin taki það föstum tökum þegar launafólki er þröngvað inn í slíkt verktakafyrirkomulag. Á það var bent að ungt fólk láti stundum glepjast af  "verktakatilboðum" atvinnurekenda enda eru launin gjarnan örlítið hærri en kveðið er á um í almennum launatöxtum en á móti kemur að réttindi eru nánast engin. Þegar einstaklingurinn t.d. veikist er hann réttlaus. Þegar dæmið er gert upp eru kjörin miklu lakari hjá verktakanum en launamanninum. Því miður er það ekki svo gott að fólk standi frammi fyrir vali að þessu leyti. Yfirleitt á fólk hreinlega ekki annarra kosta völ en gerast verktakar. Þetta er einfaldlega aðferð óprúttinna atvinnurekenda til að hafa réttindi af fólki og jafnframt treysta sín eigin völd. Með því að ráða fólk ekki til starfa með tilheyrandi réttindum og skyldum en gera þess í stað tímabundna verkatakasamninga er launamanninum haldið á tánum gagnvart atvinnurekandanum. Þetta er því spurning um kjör og mannréttindi. Það var Grímur Atlason sem reið á vaðið í umræðunni og svaraði ég honum enda beindi hann gagnrýni til samtaka launafólks þar sem ég er í forsvari. Hann kom inn á ýmsa þætti í verkalýðsbaráttunni sem vert er að íhuga. Í kjölfarið svaraði ég Grími á sama vettvangi.

Hér eru netslóðirnar en jafnframt fylgja skrifin hér á eftir.
Grímur Atlason skrifaði þennan morgunpóst :

<http://www.vg.is/postur/?t=obj&oid=344>

Ögmundur svaraði honum með þessum       :

<http://www.vg.is/postur/?t=obj&oid=348>

Grímur Atlason: Hver á verkalýðshreyfinguna?
Fyrir 70 árum slógust menn við Gúttóhúsið í Reykjavík. Hannibal Valdimarsson átti í hatrömmum átökum við Grím Jónsson í Súðavík og atvinnuforkólfa á Vestfjörðum. Það var harka í loftinu enda mikið atvinnuleysi og gríðarleg fátækt.

Nútíma verkalýðsbarátta ber enn keim af afrekum kempnanna frá síðustu öld. Það er auðvitað ágætt að þekkja uppruna sinn en verra er þegar slíkt er ekki notað sem grunnur til að byggja ofan á.

Verkalýðshreyfingin er um of föst í gömlum kreddum. Karpað er um gamlar lummur en lykilatriðin gleymast. Lykilatriði verkalýðshreyfingarinnar er að endurnýjast og komast inn í 21. öldina. Baráttan á að snúast um unga fólkið. Þeirra kjör og réttindi hafa gleymst á kleinufundunum í Karphúsinu sl. áratugi. Steingeldar samningaviðræður þar sem áhyggjur um 1-2 launaflokka taka of mikið af tíma samningamanna.

Krakkarnir á kössunum í Bónus og annars staðar, þar sem verktakagreiðslur eru ekki undantekning heldur regla, ættu að vera forgangsatriði verkalýðshreyfingarinnar. Fjölgun þeirra sem engan veikinda- eða orlofsrétt hafa er uggvænleg. Ungmenni, sem halda að þau séu ósigrandi með 250.000 kr. á mánuði í vasanum, og lifa eins og kóngar án þess að greiða opinber gjöld eða í lífeyrissjóð, eru lýsandi fyrir ástandið. Þessir krakkar koma síðan á ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna með fjármálin í klessu og ekkert nema gjaldþrotið blasir við. Hér er verðugt verkefni fyrir verkalýðshreyfinguna.

Hörð andstaða verkalýðsforkólfa í opinbera geiranum við frumvarp fjármálaráðherra um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna veldur líka heilabrotum. Kerfið eins og það lítur út í dag lamar heilu og hálfu ríkisstofnanirnar. Líklega er frumvarpið gallað að einhverju leyti en fyrr mega nú vera viðbrögðin. Vissulega er hætta á því að vanhæfir forstöðumenn komi til með að nýta sér breytingarnar til þess að skýla sér á bakvið þær – en upp í slík göt má vel fylla með markvissum breytingartillögum.

Hvers vegna eru ungir kennarar, þroskaþjálfar og aðrir yngri starfsmenn ríkis og bæja óánægðir með kjör sín? Hvernig stendur á því að launaleynd viðgengst á sama tíma og hver könnunin á fætur annarri sýnir fram á gríðarlegan kynbundinn launamun? Hér eru verðug verkefni fyrir verkalýðshreyfinguna.

Verkalýðshreyfing sem ekki horfist í augu við breytingar á samfélagsgerðinni, lifnaðarháttum og daglegum veruleika fólks er lítils virði. Við erum nú að fá heilu flotana af fólki út á vinnumarkaðinn sem hefur enga hugmynd um hlutverk verkalýðsfélaga. Hefur verkalýðsforystan sofnað á verðinum?

 

Ögmundur Jónasson: Verkalýðsbarátta fyrr og nú
Grímur Atlason skrifar nýlega prýðilegan pistil í Morgunpóst VG um verkalýðsbaráttuna og verkalýðshreyfinguna. Hann lýsir áhyggjum yfir andvaraleysi ungu kynslóðarinnar sem hugsi ekki til langs tíma og sé auðveld bráð óprúttnum atvinnurekendum sem setji „kassafólkið“ í Bónus og víðar á verktakagreiðslur, réttindalaust. En hann beinir líka spjótum sínum að verkalýðshreyfingunni. Hvar er þín fornaldarfrægð og hver á þig eiginlega verkalýðshreyfing? Í þessa veru spyr Grímur Atlason. Og hann hvetur til framfara, að við byggjum á fortíðinni, en lögum okkur að nútíðinni. Þetta er boðskapurinn og höfundur tekur dæmi um kredduafstöðu sem „valdi heilabrotum“ en það eru viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar í opinbera geiranum gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um skýringarlausar uppsagnir: „Kerfið eins og það lítur út í dag lamar heilu og hálfu ríkisstofnanirnar. Líklega er frumvarpið gallað að einhverju leyti en fyrr mega nú vera viðbrögðin. Vissulega er hætta á því að vanhæfir forstöðumenn komi til með að nýta sér breytingarnar til þess að skýla sér á bakvið þær – en upp í slík göt má vel fylla með markvissum breytingartillögum“.

Hvar skal byrja að svara og bregðast við ádrepu Gríms Atlasonar því málið er mér skylt sem formanni annarra stærstu heildarsamtaka launafólks í landinu, BSRB og þá einnig þeirra samtaka sem eru gagnrýnd fyrir óbilgirni varðandi uppsagnarfrumvarpið?

Í fyrsta lagi fagna ég skrifum Gríms og er sammála honum í grundvallaratriðum. Grein hans er herhvöt og hvatning til allra þeirra sem sýna andvaraleysi, hvort sem það er ungt fólk á leið á vinnumarkað eða værukærir forsvarsmenn verkalýðsfélaga. Auðvitað þarf miklu kröftugri baráttu gegn verktakaforminu þótt ekki verði sagt að verkalýðshreyfingin hafi setið auðum höndum hvað það varðar. Það er hins vegar hárrétt að okkur sem sinnum verkalýðsmálum ber skylda til að beita okkur af alefli í þessu máli. Ungt fólk er iðulega kappsamt og hugsar bara um núið, gerir sér ekki grein fyrir muninum á því að vera launamaður og verktaki. Þarna er þörf á upplýsingu og áróðri. Svo er hinn napri veruleiki náttúrlega sá, að mörgu ungu fólki býðst einfaldlega ekki annað. Það á ekki annarra kosta völ en að gerast verktaki. Því miður er málið ekki svo einfalt að það verði leyst í einu vetfangi með pennastrikum við samningaborð. Þetta kallar á stöðuga umræðu í þjóðfélaginu á borð við þá sem Grímur efnir hér til. Tökum hann á orðinu og hefjum, eða öllu heldur endurvekjum umræðuna um þetta málefni. Ekki veitir af.

Í öðru lagi og að hinu leytinu til vil ég draga í efa þá skoðun að allt hafi verið betra fyrr á tíð. Þessi alhæfing á engan veginn rétt á sér. Ég hef horft upp á fólk sýna óeigingjarnan stórhug í verkalýðsbaráttunni; stórhug sem stenst hvaða samanburð sem er í tíma og rúmi. Það er ekki endilega að í hlut eigi fólk sem er öllum kunnugt en það stendur ekki að baki fyrri tíðar mönnum sem hafa verið stimplaðir inn í Íslandssöguna. Ég þarf í rauninni ekkert að fara lengra aftur en í deiluna um heimahjúkrun fyrir fáeinum mánuðum til þess að finna dæmi um einstaklinga máli mínu til stuðnings. Ég ætla hins vegar ekki að nefna nein nöfn – alla vega að sinni.

Varðandi þá afstöðu að frumvarp Geirs H. Haarde sé framfaramál sem fráleitt sé að standa gegn, enda valdi slíkt „heilabrotum“ og óbreytt ástand lami „heilu og hálfu ríkisstofnanirnar“ þá vil ég segja eftirfarandi: Hvað er eiginlega verið að gefa í skyn hér? Telur Grímur Atlason að það standi opinberri þjónustu fyrir þrifum að ekki sé hægt að reka starfsfólk fyrirvaralaust og án skýringa? Er hann virkilega að taka undir með slakasta hluta forstjóraveldisins, þeim forstöðumönnum sem hvorki hafa kjark né getu til að færa málefnaleg rök fyrir ákvörðunum sínum um uppsagnir? Ekkert stendur í vegi fyrir því að fólk sem ekki rækir starf sitt af alúð sé sagt upp störfum. Geðþóttaákvarðanir misviturra forstjóra standast hins vegar ekki. Gegn slíku stendur verkalýðshreyfingin og vonandi VG einnig. Allir þar innanborðs. Líka Grímur Atlason. Um það hef ég reyndar engar efasemdir og kann vel að meta góðgjarna ádrepu hans þótt ekki sé ég honum sammála um allt.

En að lokum varðandi eignarhaldið á verkalýðshreyfingunni. Enginn getur gert tilkall til þess. Það á enginn verkalýðshreyfinguna. Verkalýðshreyfingin er hins vegar allra þeirra sem vilja vinna að réttindum launafólks og jöfnuði í samfélaginu. Og sú ábyrgð hvílir hjá okkur öllum að beita okkur fyrir því að verkalýðshreyfingin sé sterkt, réttsýnt og róttækt þjóðfélagsafl.