Fara í efni

TIL VARNAR LÝÐRÆÐINU

Birtist í Morgunblaðinu 06.12.07.
Til eru einræðisríki án einræðisherra. Það eru ríki þar sem rétttrúnaðurinn ríkir. Þegar honum er ógnað er brugðist við með offorsi og hótunum, stundum ofbeldi. Á Íslandi ógna þau sem tala fyrir kvenfrelsi nú ríkjandi einræðishugsun. Þá fullyrðingu dæmi ég af viðbrögðum við nánast öllu því sem slíkt baráttufólk hefur fram að færa. Þetta höfum við fengið að reyna að undanförnu. Beitt er háðsglósum og fyrirlitningartali, gamalkunnum vopnum þeirra sem ekki treysta sér til rökræðu. Það sem færri vita er að jafnvel er gengið enn lengra. Í frammi eru hafðar beinar og ofbeldisfullar hótanir. Ég set þessar línur á blað eftir að mér var bent á blog-skrif nokkurra ungra manna sem haft hafa í hótunum á sóðalegan og ofbeldisfullan hátt gegn einstaklingum sem hafa tjáð sig af einurð um kvenfrelsismál. Takist þessum mönnum – þessum útsendurum réttrúnaðarins – að kæfa málfrelsi með þessum hætti, þá verða fórnarlömbin fleiri en þau sem spjótalögunum er beint að. Atlaga að þeim er nefnilega atlaga að sjálfu lýðræðinu. Í tímans rás hefur fólk, sem kramið hefur verið undir einræðishæl, spurt hvernig það hafi getað átt sér stað. Það hefur spurt hvernig ofbeldi sem mannkynssagan síðar sameinaðist um að fordæma sem illvirki, hafi getað átt sér stað á sinni tíð. Hvernig gat þetta gerst, er spurt eftir á? Eflaust verða einræðisríki og einræðismenning til fyrir ásetning óprúttinna manna. Slík ómenning verður líka til fyrir andvaraleysi hinna sem í aðgerðaleysi sínu láta ofbeldi viðgangast. Ef við látum það viðgangast að hópur ofbeldismanna fótum troði einstaklinga sem með málfrelsið að vopni berjast fyrir mannréttindum, þá tökum við með afstöðuleysi okkar þátt í aðförinni að lýðræðinu. Samfélagið þarf nú allt að rísa upp til varnar kvenfrelsisbaráttu og þeim sem standa þar í fararbroddi. Barátta fyrir kvenfrelsi er barátta fyrir jafnrétti í þjóðfélaginu. Látum ekki þagga slíka baráttu niður með ofbeldishótunum. Öll þurfum við í sameiningu að rísa upp til varnar málfrelsi og mannréttindum – til varnar lýðræðinu.