Fara í efni

ÞURFUM BETRI FRÉTTAMENNSKU

Sæll Ögmundur.
Ég sá ekki viðtalið við Valgerði á dögunum þar sem hún sat ein fyrir svörum, en ... Kristján Kristjánsson er ekki nógu góður fréttamaður. Honum tekst stundum ágætlega upp, en oftar en ekki er það fremur fyrir tilviljun en fagmennsku. Um daginn var Geir Haarde í viðtali hjá Kristjáni. Skömmu áður hafði Jóhanna Vilhjálmsdóttir fréttamaður tekið þrætuna um skattbyrði síðasta áratugar og komið henni á hreint. Það var dæmi um góða fréttamennsku. Samt segir Kristján félagi hennar í viðtalinu við Geir eitthvað á þá leið að enginn viti nú lengur upp né niður í umræðunni um skattbyrðina. Ekki þarf að taka fram að það hýrnaði heldur betur yfir forsætisráðherranum við þessa játningu fréttamannsins. Svipað er uppi á teningnum á NFS, þar sem fréttamaður spyr ekki út í málsatvik og rök viðmælenda sinna, heldur kemur eitthvert stefnulaust bull líkt og: "Eruð þið ekki bara að reyna finna eitthvað upp til að tefja fyrir fyllingu Hálslóns." Mér finnst vanta á fagmennsku í íslenskri fjölmiðlun. Rás 1 ber þó af og Jóhanna kastljóska hefur gert góða hluti.
Hjörtur Hjartarson