Fara í efni

Þriðji heimurinn og við

Út er komið tímarit stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands og nefnist ritið Íslenska leiðin. Undirritaður var beðinn að svara nokkrum spurningum í greinarstúf sem hér birtist:

Það viðfangsefni sem ég hef verið beðinn um að velta vöngum yfir í þessu greinarkorni lýtur að þeirri togstreitu og ójöfnuði sem ríkir á milli norðurs og suðurs og hvernig hægt sé að bæta stöðu þeirra landa sem teljast til „suðurs“. Þá er spurt hvort frjáls viðskipti séu allra meina bót og hvort alþjóðastofnanir, hugsanlega yfirþjóðlegar, eigi að stýra viðskiptum. Einnig er spurt hvort ég telji að vestrænum vel stæðum ríkjum beri að fella niður skuldir þriðja heims landanna. Allt eru þetta áleitnar spurningar og mikilvægt að þær séu ræddar, ekki síður hér á landi en annars staðar. En hvers vegna?

 Aðkoma Íslendinga

Íslendingar eru ekki fjölmenn þjóð en engu að síður getum við haft áhrif á alþjóðavettvangi. Við eigum aðild að alþjóðasamtökum og stofnunum, meðal annars þeim sem setja reglur um gangverk heimsviðskiptanna. Í þessu samhengi eru mikilvægastar Alþjóðaviðskiptastofnunuin (World Trade Organization) Alþjóðabankinn (International Bank for Reconstruction and Development eða World Bank eins og hann oftast er nefndur) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (International Monetary Fund). Norðurlöndin hafa mikið samstarf sín á milli í þessum stofnunum og hafa þær leitast við að tala einni röddu. Reglulega hefur það komið í hlut Íslands að koma sjónarmiðum Norðurlandanna á framfæri. Þannig er augljóst að Íslendingar láta að sér kveða í umræðunni um efnahagskerfi heimsins, og þar með um hlutskipti ríkra þjóða og snauðra, og fyrir hönd okkar Íslendinga hafa verið settar fram hugmyndir og tillögur um hvernig tekið skuli á skuldavandanum. Að mínu mati hefur farið fram of lítil umræða um okkar áherslur í þessum efnum og er þar komin skýringin á því hvers vegna ég tel þessa umræðu vera mikilvæga og brýna.

Hvernig birtist vandinn?

Á tuttugustu öldinni var það viðhorf ríkjandi að allt stefndi fram á við og til betri vegar. Það var tekið sem gefið að þegar fram liðu stundir yrði heimurinn öllum jarðarbúum betri íverustaður; með aukinni tækni, stórvirkari framleiðsluháttum og víðtækari viðskiptum myndu lífskjör jarðarbúa batna jafnt og þétt. Þetta hefur hins vegar ekki orðið raunin. Þrátt fyrir þau framfaratækifæri sem tæknin býður upp á hefur þróunin orðið á annan veg. Bilið á milli ríkustu þjóða heimsins og hinna snauðustu hefur breikkað, þeim jarðarbúum hefur fjölgað sem búa við örbirgð og þegar á heildina er litið hefur hlutur þriðja heimsins, eins og iðulega er skírskotað til fátækari hluta mannkyns, ekki batnað nema síður sé. Á níunda áratugnum varð talsverð umræða um gildi hjálparstarfs í vestrænum fjölmiðlum í tengslum við matvælasendingar til hungursvæða í Eþíópíu og víðar. Í þeirri umræðu gætti oft nokkurs hroka af hálfu íbúa hinna þróuðu iðnríkja í garð þriðja heimsins og spurðu menn stundum með nokkrum þjósti hvort engin takmörk væru fyrir því hve mikið fjárstreymið ætti að verða frá norðri til suðurs; hvort virkilega væri ekki kominn tími til að fólk í þróunarríkjunum stæði á eigin fótum? Ég fylgdist grannt með þessari umræðu sem fréttamaður á Ríkissjónvarpinu á þessum tíma. Og ég man hve mikil áhrif það hafði á mig þegar ég fyrst gerði mér grein fyrir því hve fráleit þessi umræða var og á hve miklum ranghugmyndum hún hvíldi. Staðreyndin var sú að fjárstreymið var í reynd aldrei frá hinum ríku til hinna snauðu heldur öfugt: Vextir og afborganir af lánum fátækra ríkja hafa oftast nær numið miklu hærri upphæðum en lánveitingarnar til þeirra. Í bók sem Alþjóðasamband launamannna í efna- og orkugeiranum, Federation of Chemical, Energy and General Workers´ Unions (ICEF), gaf út árið 1992 eftir Jeffrey Harrod er ítarlega rætt um þetta efni. Þar er m.a. byggt á tölum frá OECD og Alþjóðabankanum. Spurt er hvað myndi gerast ef í senn yrði hætt allri aðstoð við þriðja heims ríki og þau ekki lengur knúin til að borga vexti af lánum sínum til ríkra þróunarríkja. Jeffrey Harrod segir að ef  þetta hefði gerst á árinu 1990 hefðu þróunarríkin hagnast um 71 milljarð Bandaríkjadala en á því ári námu vextir og gjöld af lánum þriðja heimsins 112 milljörðum dala en bein þróunaraðstoð 41 milljarði. [1] Hafa ber í huga að þessi tölfræði getur aldrei verið mjög nákvæm en sérfræðingum sem hafa kannað málin frá þessu sjónarhorni ber saman um að greiðsluflæðið sé úr Suðri til Norðurs og séu afborganirnar þrisvar sinnum hærri en þróunarstoð. 2 Í ræðum sem talsmenn þriðja heimsins flytja á alþjóðavettvangi er iðulega vakin athygli á þessu. Kvartað er yfir því að ríki séu að kikna undan vaxtabyrðunum og ekki sé fjármagn fyrir hendi til uppbyggingar í stoðkerfum og velferðarþjónustu samfélagsins. Dandi Mwakawago fulltrúi Tanzaníu sem talaði fyrir hönd þróunarríkjanna og Kína (G-77) á ársfundi Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf árið 1997 benti á að um þriðjungur útflutningstekna Afríkuríkja færi í afborganir af lánum. 3 Í framhaldinu má geta þess að í mjög fróðlegri grein sem birtist í Morgunblaðinu í árslok árið 2000 um skuldabyrði snauðra ríkja er Tanzanía einmitt tekin sem dæmi um ríki sem er gert ókleift að fjárfesta í uppbyggingu vegna þungrar skuldabyrði. Í greininni segir frá því að árið 1999 hafi erlendar skuldir Tanzaníu numið 6,4 milljörðum dala. 162 milljónir hafi farið í afborganir af þessum lánum en á sama tíma aðeins 154 milljónir  til menntakerfisins og 87 milljónir til heilbrigðisþjónustunnar. 4 Í þessu samhengi vekur athygli að á sama tíma og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn hafa beitt hörðum þvingunum til að kreista út úr fátækum þróunarríkjum á borð við Tanzaníu afborganir af lánum á okurkjörum og sett strangar reglur til að greiða götu markaðsviðskipta, m.a. með því að láta afnema niðurgreiðslu á matvælum og draga úr hvers kyns réttindum launafólks sem hafa í för með sér útgjöld, þá hefur mildilega verið tekið á útgjöldum til hernaðar. Skýringin er að sjálfsögðu sú að aukin hernaðarútgjöld þýða aukna sölu á hergögnum suður á bóginn. Á þessari sölu makar heimsauðvaldið krókinn. Þá er hitt einnig alræmt hvernig þeir sem þjóna auðugustu ríkjum heims fá sérmeðhöndlun. Þegar Mobutu Sese Seko fyrrum forseti Zaire lést árið 1998, er talið að hann hafi átt á bilinu 4-10 milljarða Bandaríkjadala á erlendum bankareikningum. Það sama ár námu heildarskuldir Zaire um 5 milljörðum dala. Allt frá árinu 1974 var vitað að stór hluti lána til Zaire færi beint í vasa ráðamanna. 5 Það létu fulltrúar Bandaríkjastjórnar í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hins vegar sem vind um eyru þjóta enda var einræðisherrann í Zaire dyggur þjónn hennar. Þess vegna var haldið áfram að ausa í hann fé.

Spennitreyja fátæktarinnar

Þau brögð sem lánadrottnarnir og fjölþjóðleg stórfyrirtæki beita fátækar þjóðir eru ekki til fyrirmyndar en mynstrið er augljóst og er eftirfarandi: Fátæk þjóð leitar eftir fjármagni til uppbyggingar. Iðulega vill hún færast mikið í fang og á stundum sést hún ekki fyrir. Lánskjörin reynast erfið og fyrr en varir blasir við greiðsluvandi. Sótt er um skuldbreytingar og enn meiri lán til þess að reyna að freista þess að ná upp framleiðslu og greiðslugetu. Þetta eru viðbrögð sem margir þekkja úr eigin lífi. Smám saman vill þó fara svo að landið sekkur dýpra og dýpra í skuldafen. Lánadrottnarnir og aðrir handhafar auðmagnsins eru ekki af baki dottnir þegar þessar aðstæður koma upp. Nú bjóða þeir hinum fátæka skuldunaut eftirfarandi: Ef þið opnið fyrir okkur þær auðlindir sem þið kunnið að búa yfir; verðmæt jarðefni, fallvötnin sem má virkja og aðgang að almannaþjónustunni þá munum við festa kaup á öllu þessu og þjóðin verður hólpin. Fyrir þessu hafa snauðar og skuldsettar þjóðir ekki verið ginnkeyptar og jafnan hefur farið svo þegar þessum hugmyndum hefur verið hreyft að hitnað hefur í kolunum, fréttir hafa borist af mótmælum og uppþotum (þótt allt of lítið hafi farið fyrir þeim í íslenskum fjölmiðlum). Nú kemur til kasta fyrrnefndra alþjóðastofnana.

Sagan

Í lok heimsstyrjaldarinnar síðari kom hinn kapitalíski heimur á fót stofnunum sem áttu að hafa það hlutverk að stuðla að markaðsvæðingu, alþjóðaviðskiptum og langtímafjárfestingum. Þetta voru Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Byggt var á samkomulagi sem gert var í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum árið 1944 og eru þessar stofnanir oft kenndar við þennan stað. Þær veittu í senn lán og fylgdust með því að samkomulagið frá Bretton Woods um markaðsvæðingu væri virt. Á þessum tíma lutu mörg fátæk ríki enn nýlendustjórn og komu lítið að stefnumótun þessara stofnana og enn er það svo að snauðar þjóðir hafa þar lítil áhrif. Innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ræður umfang efnhagsstarfsemi aðildarríkjanna atkvæðamagni þeirra. Bandaríkin hafa svo dæmi sé tekið 18 prósent atkvæðavægi en Mósambik 0,06 prósent.  Lengi vel voru þessar stofnanir varfærnar þótt markmiðin um markaðsvæðingu væru aldrei dulin. Framan af var höfuðáherslan á gengismál en þau ríki sem áttu aðild að Bretton Woods - stofnununum höfðu fallist á að binda gjaldeyri sinn Bandaríkjadollar sem síðan var tengdur gullfæti. Á þessu verður breyting í byrjun áttunda áratugarins. Í ágúst árið 1971 tilkynnti Richard Nixon Bandaríkjaforseti að hér eftir væri ekki hægt að ganga að því vísu að Bandaríkjadollar væri hægt að skipta í gull. Frá þessum tíma tóku gjaldmiðlar að fljóta sem kallað er og var samþykktum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins breytt árið 1976 til samræmis við þessa þróun. 6 Á næstu árum fór Thatcherismi og Reaganismi – harðlínukapitalismi - að ryðja sér til rúms vestan hafs og austan og var þess skammt að bíða að áhrifanna færi að gæta innan Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það var þó ekki fyrr en leið á níunda áratuginn - og þó sérstaklega hinn tíunda - að menn tóku almennt að gera sér grein fyrir því hve markvisst þessum stofnunum var beitt í þágu alþjóðaauðmagnsins. Eftir að Alþjóðaviðskiptastofnunin var sett á fót 1995 til að knýja á um einkavæðingu og markaðsvæðingu, jafnt í þriðja heiminum sem í þróuðum iðnríkjum, rann það upp fyrir öllum hugsandi mönnum að til harðvítugra átaka hlyti að koma um hlutverk þessara stofnana. Þau átök hafa ekki látið á sér standa: Um það bera vitni fjöldamótmæli í Seattle, Washington, Prag og víðar. Harðvítug og tilfinningaþrungin mótmæli í þessum borgum á undanförnum árum hafa öll verið tengd fundum þessara stofnana. Það var engin tilviljun að síðasti fundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar skyldi haldinn í eyðimörk Arabíuskagans, í Doha í Quatar. Ekki er nóg með að þangað sé erfitt að komast heldur var verkalýðssamtökum og öðrum fjöldasamtökum sem láta sig alþjóðavæðinguna varða beinlínis meinað að senda fleiri en einn fulltrúa á fund stofnunarinnar. Þetta átti einnig við um samtök sem hafa tugi milljóna félagsmanna innan sinna vébanda. Ræða aðalframkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á fundi í Genf í febrúar síðastliðnum frammi fyrir fulltrúum alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar þar sem hann fjallaði sérstaklega um Doha - fundinn var ótrúlega bíræfin. Þessi sami maður, Mike Moore, sem hafði látið hafa sig í að meina verkalýðshreyfingunni að senda fulltrúa til Doha hélt nú ræðu yfir sömu aðilum og vitnaði þá sérstaklega í viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna með velþóknun og sagði að loksins hefði tekist að þvo af Alþjóðaviðskiptastofnuninni blettinn frá Seattle (We have “removed the stain from Seattle”). 7 Það má til sanns vegar færa að alla vega við fyrstu sýn féll ekki kusk á nokkurs manns flibba í Doha, hvað þá að á mannskapinn kæmi blettur, einfaldlega vegna þess að þangað var engum hleypt sem vildi sýna Alþjóðaviðskiptastofnuninni og þeirri stefnu sem hún beitir sér fyrir andúð sína.

Vinnubrögðin

Hvaða vinnubrögð eru það af hálfu þessara alþjóðastofnana sem vekja slíka ólgu og reiði og raun ber vitni? Framan af Reagan-árunum fylgdu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn þeirri stefnu að kreista skuldnautana með því að krefjast aðhaldskúra, „austerity programmes“ eins og enskumælandi þjóðir kölluðu þá. Á árunum 1980 til 1985 tvöfölduðust vaxtaafborganir fátækra ríkja  til auðugra lánardrottna þeirra. 8 En þrátt fyrir þennan „árangur“ varð fulltrúum auðmagnsins smám saman ljóst að þetta gengi ekki til frambúðar. Það sýndi sig einfaldlega að sú aðferð að blóðmjólka snauðustu þjóðir heims hefði sín takmörk og myndi ekki skila tilætluðum árangri til frambúðar. Að því myndi koma fyrr eða síðar að skuldugar þjóðir hættu að geta staðið við skuldbindingar sínar og peningaflæðið í pyngju hins ríka manns myndi stöðvast. James Baker fjármálaráðherra Bandaríkjanna var á meðal þeirra manna sem um miðjan níunda áratuginn tók að mæla fyrir nýrri stefnu, langtíma stefnu sem byggði á kröfu um víðtækar kerfisbreytingar: „structural adjustments programmes“. Þau ein ríki skyldu nú fá lán sem féllust á að bylta þjóðfélagsskipan sinni, markaðsvæða og einkavæða þjónustu og eignir sem áður höfðu verið á forræði almennings. Nú fór í hönd tímabil sem fól í sér að að skipta á skuldum og eignum. Skuldug og fátæk ríki skuldbundu sig til að einkavæða almannaeignir og iðulega létu þær eignir sínar ganga upp í skuldir. Enda þótt ígildi 60 milljarða Bandaríkjadollara af eignum fátækra ríkja hefðu runnið til lánardrottnanna samkvæmt þessari stefnu  þegar komið var fram á árið 1991 sá ekki högg á vatni hvað varðar skuldastöðuna. 9 En fjölþjóða auðhringirnir voru ánægðir. Skuldir þriðja heims ríkja héldu áfram að hlaðast upp en nú var búið svo um hnúta að eignir þeirra  féllu fjölþjóðarisunum í skaut. Nýlegt dæmi um fórnarlamb þessarar þróunar er Argentína. Það fór ekki fram hjá heimsbyggðinni þegar efnahagslíf þess lands bókstaflega hrundi fyrir fáeinum mánuðum. Argentína hafði í einu og öllu farið að tilmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans; nánast öll almannaþjónusta hafði verið einkavædd, vatnið með hörmulegum afleiðingum, samgöngur, velferðarþjónusta, flestir þættir grunnþjónustunnar. Í þessu samhengi má geta þess að á árinu 1990 „losuðu“ Argentínumenn sig við 11% af skuldum sínum með því að selja almannaeignir á borð við flugfélög og símafyrirtæki í hendur fjölþjóðlegum fyrirtækjum. Á þessum sama tíma var hið sama að gerast í stórum stíl í Chile, Mexíkó og á Filippseyjum. 10 Einnig í þessum löndum hafa afleiðingarnar ekki látið á sér standa þótt þær hafi orðið sýnilegri í Argentínu. Dæmin um ofbeldið sem fátæk ríki hafa verið beitt af heimsauðvaldinu eru nær óþrjótandi. Svo farið sé frá einni heimsálfu til annarrar var Afríkuríkinu Senegal til dæmis árið 1987 þröngvað af hálfu Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til að setja 17 ríkisfyrirtæki á söluskrá til að afla tekna upp í skuldir. Þarlend stjórnvöld kváðust vonast til þess að unnt væri að halda innlendu eignarhaldi á fyrirtækjunum. Samkvæmt fyrirmælum lánardrottnanna voru hins vegar samþykkt lög sem heimiluðu 100% erlent eignarhald.11 Sú varð og raunin enda leikurinn til þess gerður.

Vitnað í utanríkisráðherra Íslands

Mótmæli undangenginna ára hafa haft sín áhrif þótt í grundvallaratriðum sé stefna alþjóðastofnana auðmagnsins óbreytt. Nafngiftinni á hinum illræmdu kerfisbreytingalánum, Structural adjustments loans, hefur verið breytt og heita þau nú Áætlanir um að draga úr fátækt, Poverty Reduction Programmes. Þetta hljómar vissulega betur og svo á að heita að ríkin sjálf hafi frumkvæði um þessa áætlanagerð. Í reynd eru hins vegar vinnubrögðin áþekk og verið hefur. Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans leggja á ráðin um hvernig skuli staðið að áætlunum um að draga úr fátækt og er ráðið gamalkunnugt: markaðsvæða og einkavæða, draga úr niðurgreiðslum og réttindum launafólks á vinnumarkaði. Hér að framan var vitnað í fund Efnahags- og Félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf árið 1997. Þar talaði fulltrúi Tanzaníu. Það gerði einnig einn af varaforsetum Alþjóðabankans, Jean–Francois Riscard. Í skýrslum utanríkisráðuneytisins,  þar sem greint er frá þessum fundi, segir frá því að fulltrúi Alþjóðabankans hafi talað um „myndun hagstæðs umhverfis fyrir þróun“. Mætti þar helst nefna „áætlanir til að styrkja þróun einkageirans, en alþjóðastofnanirnar leggja um fimm milljarða dollara á ári í slíkar áætlanir.“ 12 Hér kveður við svipaðan tón og hjá Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra Íslands í ræðum sem hann flutti fyrir hönd Norðurlandanna á fundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Hong Kong í september árið 1997 og Washington í apríl 1997. Á fyrri fundinum lýsti Halldór yfir fullum stuðningi „við  sérstakt átak Alþjóðabankans til að auka fjárfestingar einkaaðila í orkumálum, samgöngu- og fjarskiptakerfum þróunarríkjanna.“ Á sama fundi hvatti fjármálaráðherra Finnlands, Sauli Niinistö, fyrir hönd Norðurlandanna og þar með okkar til frekari dáða á sviði einkavæðingar ( „we encourage the Bank Group to continue to help countries in speeding up liberalization of national economies.“). Orðalagið er allt á þessa lund. Þannig talar Halldór Ásgrímsson í ræðum sínum um nauðsyn þess að skapa hvatningu („an enabling environment“) fyrir einkaaðila og nauðsyn að grípa til markvissra aðgerða til að auðvelda þeim að fjárfesta í stoðkerfum samfélagsins („action program to facilitate private involvement in infrastructure“).13 Þetta hlýtur að hafa hljómað vel í salarkynnum Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég leyfi mér hins vegar að efast um að Tanzaníumenn hafi fagnað þessum orðum eða Argentínumenn sem hlýtt hafa þessum ráðum. Vandinn er hins vegar sá að orð af þessu tagi berast ekki auðveldlega út af fundum þessara alþjóðastofnana. Það á við um Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ekki síst Alþjóðaviðskiptastofnunina. Á komandi misserum mun reyna á fjölmiðla, verkalýðssamtök og stjórnmálaöfl að færa þessa umræðu út í þjóðfélagið. Þar þarf að gefa gaum að sjónarmiðum þeirra sem vinna að þróunarmálum á öðrum forsendum en fjármagnsins. Í sameiginlegri skýrslu sem Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðavinnumálstofnunin (UNDP og ILO) gáfu út árið 1997 er því blákalt haldið fram að versnandi kjör fátækustu ríkjanna megi beinlínis rekja til áætlana Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar segir m.a. að „framkvæmdaáætlanir Alþjóðabankans og IMF eru byggðar á efnahagslegri mótsögn og geta af sér mikið atvinnuleysi og gífurlega fátækt“.14 Ekki neita ég því að með yfirlýsingar af þessu tagi í huga fór um mig hrollur þegar frá því var greint í fréttum síðsumars að þessar stofnanir hefðu ákveðið veita Brasilíu stærsta lán sem þær hefðu veitt til þessa, gegn því að Brasilíumenn hétu því að ráðast í umfangsmikla einkavæðingu á almannaeignum. 

Ég er sannfærður um að eftir því sem umræðan um þessi efni verður meiri þá mun hún taka stakkaskiptum. Í stað þess að spyrja hvort við eigum að gefa skuldunautum okkar eftir skuldirnar þá verður spurt hvort ekki sé kominn tími til að slaka á klónni gagnvart þjóðum sem eru búnar að margborga skuldir sínar. Og þegar spurt verður um frelsið þá verður svarið játandi. Að sjálfsögðu munu menn kjósa frelsi og þess vegna frjáls markaðsviðskipti en að því tilskildu að slíkt sé ákveðið á lýðræðislegan hátt, af fúsum og frjálsum vilja. Menn munu hins vegar hafna hvers kyns þvingunaraðgerðum sem knýja fátækar þjóðir til þess að afhenda allar dýrmætustu eigur sínar fjölþjóðlegum gróðaöflum. Og hér á landi verður þess krafist af utanríkisráðherrum okkar að þeir tali máli hinna snauðu en gangi ekki erinda hinna sem hafa auðinn og völdin á hendi.

Heimildir:
[1] Harrod, Jeffrey; Labour and Third World Debt , ICEF, Brussel, 1992, bls. 106.
2 The Debt Cutter’s Handbook; Ritstjóri: Ingrid Hanson, Jubilee 2000, bls. 12.
3 Ársfundur Efnahags- og Félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðuneytið, alþjóðaskrifstofa, 1997.
4 Hrund Gunnsteinsdóttir; „Góðgerðastarfsemi eða réttlæti?“ Morgunblaðið 31. desember 2000. bls. 12.
5 Ibid.
6 Michalos, Alex C.; Good Taxes. Dundurn Press, Toronto, Oxford, 1997, bls. 11.
7 Moore, Mike forstjóri WTO; ræða flutt 20. febrúar 2002 í Genf á fundi með fulltrúum Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga (ICFTU).
8 Harrod, Jeffrey; Labour and Third World Debt. Bls. 60.
9 Ibid. Bls. 61.
10 Ibid. Bls. 63.
11 Ibid. Bls. 71.
12 Ársfundur Efnahags- og Félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna.
13 Sjá fréttatilkynningar frá utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti frá 22. og 23. september 1997,  frá utanríkisráðuneytinu 29. apríl 1997 og  ræður.
14 Hrund Gunnsteinsdóttir; „Góðgerðastarfsemi eða réttlæti?“ Morgunblaðið 31. desember 2000. bls. 12.