Fara í efni

ÞÖRF Á BYLTINGU?

Þakka þér fyrir umfjöllun þína um starfslokasamninginn hjá forstjóra Straums Burðaráss uppá milljarð. Reyndar er ástæða til að þakka Blaðinu fyrir að segja okkur fréttir af þessu máli. Það segir sína sögu að það myndi taka láglaunamann 555 ár - eða frá fæðingu Kristófers Kólumbusar árið 1451 - að vinna fyrir þessum starfslokasamningi! Ef þessi samlíking þín opnar ekki augu manna fyrir misréttinu þá er samfélagið orðið blint. Síðan er hitt að nú talar ríkisstjórnin um aðhaldsaðgerðir. Hver skyldi eiga að sýna aðhald? Skyldu það vera milljarðamæringarnir sem hafa farið ránshendi um samfélagið? Nei, ríkisstjórninni kemur ekki til hugar að anda á þá vini sína. Þeir sem eiga að sýna aðhald eru þeir sem þyrftu 555 ár til að vinna upp í starfslokasamning eins milljarðamærings á Íslandi í dag. Síðan eru það Vestfirðingarnir og fólk á norð-austur horninu sem fær ekki vegaúrbætur sem lofað hafði verið. Þetta er fólkið sem þarf að blæða fyrir sukkarana og stóriðjudekur ríkisstjórnarinnar. Á meðal annarra orða, þarf ekki að fara að gera byltingu á Íslandi?
Sunna Sara