Fara í efni

ÞÖRF Á AÐ STANDA VAKTINA

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 18.01.15.
Ég er einn þeirra sem gladdist mikið við lok læknaverkfallsins. Við rekum ekki spítala án lækna. Og góða spitala viljum við hafa með færustu læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki,  sem völ er á. Ég trúi því að hefði ekki samist á forsendum sem læknar töldu ásættanlegar hefði straumur þeirra legið úr landi.

Læknar höfðu þjóðina með sér. Eða eigum við að segja að  heilbrigðiskerfið hafi haft þjóðina með sér. Og þannig held ég að það verði áfram svo lengi sem okkur tekst að varðveita hér heilbrigðiskerfi á forsendum sem þjóðin telur ásættanlegar. Slíkt kerfi mismunar ekki eftir efnahag og er greiðendum hagstætt. Margoft hefur komið fram í alþjóðlegum samanburðarskýrslum að íslenska almannakerfið nýtir hverja skattkrónu betur en gerist víðast hvar annars staðar. Ekki býr sú skattkróna aðeins til fjárhagslega hagstætt kerfi heldur einnig gæðakerfi sem rís undir nafni.

Þess vegna stöldruðum við án efa mörg við þegar það fylgdi samningslokunum í yfirlýsingum samningsaðila, að nú færi í hönd uppstokkun á heilbrigðiskerfinu: „Opnað yrði fyrir nýrekstrrarform." Hvað þýðir það? Þýðir það aukin einkavæðing? Sagt er að hið sama eigi að gilda utan spítala og innan. Hvað þýðir það? Hið sama fyrir sjúklinginn? Hið sama fyrir lækninn? Hið sama fyrir greiðandann? Á hann nú að borga það sama á spítalanum og hann gerir í Orkuhúsinu? Við þekkjum hvert er keppikefli núverandi stjórnvalda!

Allt þetta þarf að ræða. Þetta er ekki einkamál þeirra sem sitja við samningaborð fjármálaráðuneytisins og lækna.

Í þjóðfélaginu sjáum við nú víða gömul mynstur taka á sig gamalkunn form. Kjarakúrvan er þannig á hraðskreiðri uppleið í fjarmálakerfinu. Efri lögin þar að nýju komin með helmingi betri kjör en efstu lög heilbrigðiskerfisins. Gamalkunnur hroki einnig að taka sig upp: „Við eigum þetta, við megum þetta."

Kannski er ekki það alversta hve miklum auði er safnað í vasa einstaklinga til skamms tíma. Slæmt er það vissulega því minna er þá til skiptanna. En það eru kerfisbreytingar til langframa  sem eruverstar. Þegar auðlindirnar, orkan, vatnið, náttúrperlurnar  - og svo einnig velferðarþjónustan er tekin undan handarjaðri almennings og undirseld markaðslögmálunum.

Frá þeim stað er stutt i þjóðfélag misréttis.

Mönnum bregður við að sjá hvaða einstaklinga ríkisstjórnin velur til að hafa fyrir okkar hönd  umsjón og eftirlit með fjármálakerfinu. þar eru á ferðinni aðilar sem sjálfir eru á kafi í þessu sama kerfi með alla sína prívathagsmuni. Í heilbrigðiskerfinu gildir hið sama að því leyti að valdir eru eftirlitsaðilar - varðmenn fyrir okkar hönd - sem kunnir eru af daðri við markaðshyggju - hin „nýju rekstrarform" einsog einkavæðingin er kölluð á dulmáli.

Það er vegna alls  þessa að almenningur verðurallar stundir að standa sína vakt.