Fara í efni

FASISMINN 100 ÁRA - HAR ER HANN NÚ?

Í þessum mánuði eru 100 ár liðin frá því ítalskir fasistar fóru „Gönguna til Rómar“ sem endaði á því að konungur Ítalíu skipaði Mússólíni forsætisráðherra 29. október 1922. Árin 1919-1921 á Ítalíu voru eftir á nefnd Bennio Rosso „Tvö árin rauðu“. Þau einkenndust af efnahagslegri og pólitískri kreppu, upplausn og mjög róttækri verkalýðshreyfingu sem skoraði kapítalismann á hólm. Víðtæk verkföll skóku Norður-Ítalíu, sums staðar fóru fram verksmiðjutökur og stofnun verkamannaráða (sem gerðu þó ekki tilraun til valdatöku). En á  hinum væng stjórnmálanna óx hreyfing fasista sem pólitísk viðbrögð auðstéttarinnar við Bennio Rosso. Sú hreyfing treysti einkum á beitingu ofbeldis gegn verkfallsbaráttu verkalýðs og hafði afar ríkulegan búnað og frelsi til þess, enda var þá stórkapítalið farið að dæla í fasista fjármunum. Síðasta allsherjarverkfall verkalýðsins um langt skeið var haustið 1922. Þá fóru léttvopnaðar ofbeldissveitir fasista milli bæja á Norður-Ítalíu og gátu kylfubarið verkföllin niður, með þátttöku eða samþykki lögreglu. Í beinu framhaldi af því skipulögðu fasistar „Gönguna til Rómar“ þar sem fasistum voru afhent völdin í landinu. Þetta var fyrsti stóri sigur fasismans á heimsvísu. Það má halda því fram að hann eigi nú 100 afmæli. Sjá hér: https://en.wikipedia.org/wiki/March_on_Rome

Þeir sem nutu góðs af valdatökunni voru ríkjandi öfl í ítölsku efnahagslífi, einkum bankavaldið á Norður-Ítalíu og landeigendastéttin á Suður-Ítalíu. Verkföll voru bönnuð. Eftir 4 ára samstjórn fasista og annarra borgaraflokka var þingræðið afnumið á Ítalíu, sem og stjórnmálaflokkar, árið 1926. Fasistar höfðu full völd. Í atvinnulífinu skyldu atvinnurekendur og „þjóðnýtt“ verkalýðsfélög (önnur verkalýðsfélög bönnuð) skipulögð ofan frá í „korpóratíf sambönd“ og vera undirsett hið fasíska ríkisvald. Í stað stéttabaráttu kom lögskipuð stéttasamvinna.

Baráttan við fasismann/alræðið er mikilvæg, bæði í ljósi sögunnar og í ljósi líðandi stundar. Alþýðan hefur oft farið flatt á að vanmeta fyrirbærið. Og nú um stundir sjáum við víða glitta í komandi alræði, valdboðsstjórnarfar sem ritskoðar og leitast við að koma á einstefnu í orðræðunni, auk þess sem harðir hægriflokkar styrkja stöðu sína víða, sumir með rætur í fasisma, eins og forustuflokkur splunkunýrrar ríkisstjórnar á Ítalíu.

Þá vaknar spurningin: Hvaðan kemur alræðið og fasismahættan nú um stundir? Ég nota hugtökin „fasismi“ og „alræði“ (sem þá er þýðing orðsins tótalítarismi) hvort um annað þó að þau merki ekki alveg það sama. Ég vil síðan nefna þrjár mikilvægar greinar eða rætur þess alræðis.

 (1) Af Hitlersgerðinni

Fyrst nefni ég gamaldags fasisma af hitlersgerðinni. Dæmi Gullin dögun í Grikklandi, Jobbik í Ungverjalandi, og ekki síður Azov hreyfingin í Úkraínu eða fasistaflokkurinn Svobda og fleiri hreyfingar í Austur Evrópu – sem tengja sig opinskátt við fasismann á 4. áratug síðustu aldar og fram til 1945. Meðal einkenna slíkra flokka eru andlýðræði, harkaleg andúð á verkalýðshreyfingu og sósíalisma, andfrjálslyndi, rasismi og ofbeldishneigð – ásamt heimsvaldastefnu og hernaðarhyggju. Slíkar hreyfingar eru að jafnaði smáar og áhrifalitlar nema þegar fjármála- og stórkapítalið og heimsvaldasinnar hafa þörf fyrir þær til skítverka og þörf á að undiroka verkalýð og alþýðu á opinskáan hátt, eða til hernaðar.

Eftir 1945 héldu fasistar áfram að vera mikilvæg verkfæri auðvalds og heimsvaldasinna. Breski herinn og leyniþjónustan MI6, ásamt grískri borgarastétt, beitti blygðunarlaust grísku fasistunum – samverkamönnum nasista frá hernámsárunum – í gríska borgarstríðinu strax í styrjaldarlok til að berja niður hina rauðu og róttæku andspyrnuhreyfingu. Uppvakning nýfasisma í Grikklandi í gervi Gullinnar dögunar í seinni tíð, og áður valdarán grísku herforingjanna 1967, eru beintengd þessari fortíð þegar hreinsun ríkisstofnana af fasistum í stríðslok var alveg vanrækt í þágu nýrra „öryggishagsmuna” (The Guardian, 2014)  . Á áttunda áratugnum voru fasistar verkfæri afturhalds gegn róttækri verkalýðshreyfingu og alþýðu, meðal annars á Ítalíu (Operation Gladio) og í Síle (í valdaráninu 1973), í báðum tilfellum í leynilegum en nánum tengslum við CIA (á Ítalíu einnig í nánum tengslum við NATO).

Fasismi af gömlu gerðinni í Evrópu samtímans er mest áberandi í Úkraínu. Stór hluti úkraínskra þjóðernisafla hafa lengi skipað sér á ysta hægri væng, m.a. í fasíska og nasíska hópa. Hinn ofurþjóðernissinnaði flokkur OUN (Organisation of Ukrainian Nationalists) gegndi þar stærra hlutverki en aðrir á styrjaldarárunum síðari, undir forustu Bandera og síðar Stetsko. Flokkurinn tók fullan þátt í Barbarossa og fjöldamorðum Þjóðverja í Sovétríkjunum frá 1941. Við stríðslok sneri bandarísk leyniþjónusta skjótt við blaðinu og hóf samstarf við fasísk uppreisnarsamtök í Úkraínu. Strax eftir stofnun CIA 1947 hófst náið samstarf við OUN í leynilegri fjölhliða baráttu gegn Sovétríkjunum. Samvinna CIA og breska MI6 við úkraínska fasista hefur veið órofa síðan. Not heimsvaldasinna af hægriöfgahópum Úkraínu færðust á nýtt stig 2014 þegar þeir gegndu lykilhlutverki í CIA-skipulögðu Maidanvaldaráninu og síðan í hernaðinum gegn aðskilnaðarhéruðunum í Donbass frá 2015. Fæðingardagur Bandera hefur nú verið gerður að þjóðlegum minningardegi, fjölmargar styttur af honum reistar og frímerki prentuð . Gerald Sussman fer yfir sögu þessara tengsla hér. Vestrænir heimsvaldasinnar hafa m.ö.o. séð það, bæði fyrr og síðar, að úkraínsk hægriþjóðernishyggja myndi nýtast vel í baráttunni gegn Rússlandi/Sovétríkjunum.

Fasískir hópar sem tól í vopnabúri heimsvaldasinna á sér hliðstæðu í öfgahópum og hryðjuverkasamtökum starfandi á trúarlegum grunni frekar en þjóðernislegum, sbr. hlutverk ýmissa íslamskra hópa undanfarna 2-3 áratugi, en sú hliðstæða verður ekki útlistuð hér.

 (2) Hægripopúlismi

Hægripopúlismi á eitt og annað sammerkt með fasisma en annað er ólíkt. Það sem einkennir hægripopúlíska flokka er m.a. and-hnattvæðingarhyggja, andfrjálslyndi, og  andsósíalismi og þeir beita gjarnan þjóðrembu og rasisma í stjórnmálum, í mismiklum mæli. Sameiginlegt með fasísku hefðinni er menningarleg íhaldssemi. Ólíkt fasisma er hins vegar ofbeldishneigð þar ekki áberandi. Og andlýðræði er ekki einkenni þessara flokka, þeir halda einmitt helst fram málum sem höfða til almennings, hafa enda oft verulegt fjöldafylgi. Í samræmi við það eru þeir gjarnan andelítískir (sem gamli fasisminn var ekki) og vilja að almenningur taki pólitískar ákvarðanir frekar en elítan eða skrifræðið (t.d. í ESB-samhengi), og þeir halda á loft þjóðlegu fullveldi. Í seinni tíð hafa popúlistar einnig tekið upp þá stefnu að vilja efla velferðarríkið.

En það sem klárlega mest hefur gert hægripopúlista að andstöðuafli er andstaða þeirra við hnattvæðingarstefnuna sem ríkt hefur frá ca 1990. Hnattvæðingin inniber sívaxandi umsvif og vald auðhringa og fjármálarisa í heimi sem þeir vilja gera að einu opnu fjárfestingasvæði, og tilsvarandi skerðing á fullveldi ríkja, einnig útvistun á framleiðslunni og störfum verkalýðs til lágkostnaðarlanda - sem og flæði vinnuafls milli landa. Meðal helstu samfélagslegu áhrifa sem hnattvæðingin leiðir af sér innan einstakra landa er ekki aðeins af-reglun og einkavæðing heldur einnig veiking skipulegrar verkalýðshreyfingar.

„Þjóðfélagslegt hlutverk“ gamalfasista og hægripopúlista er þess vegna nokkuð ólíkt. Á meðan gamli fasisminn var fyrst og fremst viðbrögð við stéttabaráttu, skipulegri verkalýðshreyfingu og sósíalisma er hægripopúlisminn í samtímanum einkum viðbrögð við hnattvæðingunni. Þetta kemur fram í þjóðernishyggju trumpismans, „America first, not  globalism), og kemur fram í andstöðu gegn markaðsfrjálshyggju og frjálsu flæði og stofnanaveldi ESB. Hægripopúlistar geta beint spjótum að umsvifum fjölþjóðlegra auðhringa í efnahagslífinu – en þeir eru samt líklegri til að ráðast að innflytjendum, eins og þeir álykti að innflytjendurnir beri ábyrgð á samfélagslegri eymd glóbalismans.

Það er óhætt að fullyrða að stórfelldur klofningur sé innan auðstéttarinnar og auðvaldsafla á milli hnattvæðingarsinna og hnattvæðingarandstæðinga. Í okkar heimshluta eru hnattvæðingaröflin ríkjandi hluti auðstéttarinnar. Ófrjálslynda, popúlíska hægrið er að svo stöddu alls ekki þóknanlegt þessum ríkjandi hluta auðvaldsins. Hnattvæðingaröfl eiga flesta voldugustu fjölmiðla og fréttastofur hins vestræna heims. Þeim er tamt – enda samræmist það þeirra málstað – að setja „öfgahægri“ stimpil á  alla þá sem ekki vilja fylgja hnattvæðingarreglunum. Það samræmist einnig þeirra málstað að setja samasemmerki á milli hvers konar þjóðernishyggju og fasisma. Og þá kemur röðin að þriðju rót/grein alræðisins.

„Frjálslynt“ alræði?

Þriðja grein alræðisins vex beint úr herbúðum vestrænu billjóneraklíkunnar og „djúpríkisins“ (The deep state). Það er „klíkan“ sem á bæði hermálaiðnaðinn og fjölmiðlana, plús tæknirisana, lyfjaiðnaðinn... Það er „klíkan“ sem Alþjóðaefnahagsráðið, WEF, er öðrum fremur sýnilegur fulltrúi fyrir, góbalistarnir sem hittast í Davos. Þessi „klíka“ klæðir sig í föt menningarlegs frjálslyndis, fjölmenningar, umhverfisverndar m.m. og segist vera að berjast við heimsfaraldur og „alræðið í austri“ (og hatursáróður og rasisma m.m.). En samtímis rekur hún iðnað „gegn falsfréttum“ og gerir út heri af „staðreyndalögreglu“ sem vinna ákaft að því að kom á einstefnu í orðræðunni, koma á skipulegu og víðtæku kerfi ritskoðunar. „Staðreyndalögreglan“ fór á flug í kóvídi (sjá neðar) og magnast enn margfaldlega í Úkraínustríðinu og sker úr um „rétt“ og „rangt“ í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Facebook og Twitter loka á efni og einstaklinga sem ganga gegn ráðandi línu í Úkraínudeilu og höfðu áður gert það gagnvart kóvídpólitík. Leitarvél Google stjórnar upplýsingamiðluninni meira en nokkur annar aðili og stýrir því hvað milljarðir notenda sjá og sjá ekki. Við það starfa hjá fyrirtækinu herskarar CIA-manna. Sjá hér. . Aðeins eitt dæmi, en lýsandi á sinn hátt, um vald þessara miðla birtist í ársbyrjun 2021 þegar sitjandi en fráfarandi forseti Bandaríkjanna var skyndilega útilokaður frá öllum helstu samskiptamiðlum (og um leið stærstu fjölmiðlum) netheima, Facebook, Instagram, Twitter, Google, YouTube og reyndar miklu fleiri. Þá er þeim augljóslega hægur leikur að útiloka aðra lægra setta.

Ritskoðunin takmarkast ekki við ritmiðlana. Greiðsluveitan PayPal, hinn voldugi fjártæknirisi í nethagkerfinu hefur að undanförnu lokað á og sektað fólk og vefmiðla sem hann segir láta „villandi upplýsingar“ á netið (varð að vísu að bakka með síðasta sektaráhlaup eftir uppreisn meðal notenda).

Stríðinu „gegn falsfréttum“ og gegn „upplýsingaóreiðu“, ritskoðun í nafni frelsisins, er auðvitað ætlað að koma á einstefnu og valdboðsstefnu í orðræðunni í netheimum og síðan væntanlega á öllum öðrum vettvangi. Tjáðu þig „rétt“ eða þú ert þaggaður niður! Í raun er það hryðjuverk gegn tjáningarfrelsinu. Það vekur nokkrar eðlilegar spurningar: Hverjir eiga þau fyrirtæki sem standa að mestu ritskoðun og þöggun nútímans? Hverjir eiga PayPal eða Visa? Hverjir eiga helstu tæknirisana, Facebook, Twitter eða Alphabet/Google. Ef að er gáð sést að í öllum tilfellum eru 3-4 fjármálasjóðir – BlackRock, State Street, Vanguard og Fidelity – meðal 5 stærstu eigenda þeirra. Eignarhald á stærstu fjölmiðlum og fréttastofum segir sömu sögu, skv. bandarískri rannsókn kemur um 90% af fjölmiðlun Bandaríkjanna frá 5 stöðvum, sem eru þær voldugustu á Vesturlöndum. Og stærstu eigendur þeirra eru sömu fjármálasjóðir. Það er sem sé fjármálaauðvald Vestursins sem sker niður tjáningarfrelsið og skammtar lýðnum það síðan í sneiðum.

Fjármálaauðvaldið hefur ríkjandi stöðu í síðkapítalismanum (ríkir yfir iðnaðarauðvaldi, verslunarauðvaldi..). Hnattrænt fjármálaauðvald hefur þjappast gríðarlega saman í stöðugt færri einingar og er samtengt gegnum fáeinar banka- og fjármálasamsteypur sem eiga hver aðra – sem eiga ekki aðeins bankana sjálfa heldur einnig hermálaiðnaðinn, stafrænu tæknirisana, fjölmiðlana, lyfjaiðnaðinn.. (voldugastir eru áðurnefndir BlackRock, State Street, Vanguard og Fidelity, sem eru samtengdir og geta því virkað sem ein ofureining)    Nú gengur þetta auðhringavald hins vestræna heims stöðugt beinna fram á völlinn, undir merkjum „public-private partnership“ – glóbalistarnir eiga sinn helsta sameinandi vettvang í WEF. Hið ofursamþjappaða fjármálaauðvald hefur meira og beinna vald en nokkurt auðvald hefur áður haft í mannkynssögunni.

Þessi (hnattvæðingarsinnaða) fjármálaelíta er um leið efnahagslegur kjarni vestrænnar heimsvaldastefnu (þó að hernaðararmur hennar sé fyrst og fremst US Army). Og sú sama fjármálaelíta – sem stendur á bak við WEF, AGS, WTO m.m. – leitast við að viðhalda og festa í sessi sinn One World ­Order. Ein hnattræn stjórnun skal yfirkeyra hvers konar þjóðkjörið vald almennings einstakra landa sem og allar hugmyndir um þjóðlegt fullveldi. Fremsta markmið stefnunnar um hnattræna stjórnun er að viðhalda hinni „einpóla heimsskipan“ (unipolar world) gegn þeim ríkjum og þeim öflum sem leitast við að fjölga valdapólum heimsins.

Í þágu þess háleita markmiðs telst sérstaklega nauðsynlegt að stýra orðræðunni ofan frá og skammta tjáningarfrelsið. Og þegar valdið sjálft aðhyllist skerðingu lýðréttinda er það alvarlegra mál en þó að einhver klíka sérvitringa „úti í bæ” geri það. Þess vegna er þessi alræðisógn hættulegri en öll önnur.

Fasisminn hefur breytileg klæði

Fasisminn í Þýskalandi gerði út á hefnd fyrir auðmýkingu 1918, gerði út á gyðingahatur og rasískt stigveldi, sá ítalski gerði út á feðraveldi og gömul fjölskyldugildi, sterkt ríkisvald, endurreisn Rómaveldis o.fl., sá spænski gekk mjög fram í nafni og undir gildum kaþólsku kirkjunnar. Með öðrum orðum, fasistar 20. aldar notuðu ólík klæði, mjög mismunandi áróðurstákn og myndmál, breytilegt milli landa. En ef skilgreina skal INNIHALD fasismans er mikilvægast að spyrja um STÉTTARINNIHALD. Á Ítalíu þar sem fasisminn kom fyrst fram var innihaldið lögskipuð stéttasamvinna og „korpóratismi“ eins og komið hefur fram. Einhver frægasti andfasisti síns tíma var kommúnistinn Georgi Dimitrov. Á 7. heimsþingi Komintern 1935 lagði hann fram fræga greiningu á fasismanum, á grundvelli þeirrar reynslu sem komin var af helstu ríkjum undir fasískri stjórn, Ítalíu og Þýskalandi. Og ein meginniðurstaða hans var: „Fasisminn er ótakmarkað vald fjármálaauðvaldsins.“

Þannig er það: Milliliðalaust vald fjármálaauðvaldsins, lögskipuð stéttasamvinna, valdboðsstefna í orðræðunni. Þetta er kjarni og INNIHALD fasismans þar sem hann er við völd. FORM fasismans, tákn hans og fagurfræði, taka hins vegar mið af straumum og stemningum á ólíkum stöðum og breytilegum tímum. Fasistar á Íslandi nútímans sem myndu rita á fána sinn gyðingahatur, slagorð gegn „óæðri kynstofnum“, slagorð gegn opinberri samkynhneigð eða fóstureyðingum og getnaðarvörnum gætu e.t.v myndað flokk en næðu varla fjöldafylgi. Ég held reyndar að „kristinn fasismi“ af slíku tagi eigi litlar framavonir á hinu vantrúaða Íslandi eða Skandinavíu eða Vestur-Evrópu. Að því leyti er staðan önnur en hún er t.d. í Bandaríkjunum. En fasisminn/alræðið þarf ekkert að klæðast svo púkalegum fötum, hann getur klæðst fötum frjálslyndis ekkert síður en fötum feðraveldis eða kynþáttahyggju, ef það hentar honum betur.

 Alræðisskref tekin í kófinu

Og að mínu mati stafar alræðisógnin nú um stundir einmitt mest frá þriðju megingrein alræðis af þeim þremur sem nefndar voru hér að ofan. Það alræði nálgast okkur í áföngum. Það tók mörg skref fram á við undir yfirvarpi kórónuveirunnar. Aðaláhrif kórónuveirunnar voru ekki heilsufarsleg heldur samfélagsleg. Sóttvarnaraðgerðir voru notaðar sem sjokkmeðferð til að breyta samfélaginu – í allt  frá eftirlitssamfélagi til lögregluríkis – í krafti óttastjórnunar. Umræða um hina umdeildu sóttvarnapólitík og tilheyrandi fjarlægingu borgararéttinda var allt annað en opin, gagnrýnisraddir voru miskunnarlaust þaggaðar niður sem „falsfréttir“.

Víða um Vesturlönd var komið á „vegabréfaskyldu“ innanlands, þar sem frelsi og borgararéttindi fólks var skammtað út frá bólusetningarstöðu þess. Um það hefur mátt lesa greinar á Neistum undanfarin 3 ár. Sjá t.d. hér Samfélagslegar takmarkanir voru aflagðar sl. vor, í bili. En frelsisskerðingum er áfram þröngvað á samfélagið ofan frá. Frá því á síðasta ári hefur heilbrigðismálastofnunin WHO haft sem opinbera stefnu að setja á reglur um alþjóðlegan stafrænan bólusetningarpassa, en frumkvæði og kostun þess kemur frá fjármálaelítunni, Bill Gates og Rockefellar. Í framhaldi af því eru bæði í demókrata-stýrðum Bandaríkjunum og á yfirráðasvæði Brusselvaldsins lögleiddar heimildir til að framfylgja skyldubólusetningu. Í ljósi hinna ömurlegu „bóluefna“ – gagnslausra í því að draga úr smiti – getur tilgangur slíkra laga ekki verið heilsufarslegur. En áhrif þeirra eru mikil í því að koma á stafrænu manntali og tvískiptingu samfélagsins í „réttláta og rangláta“ og möguleikum valdsins til að deila og drottna.

Alræðið kemur ekki yfir okkur með snöggri valdatöku í líkingu við Ítalíu 1922 og Þýskaland 1933 (ef menn vilja telja Rússnesku byltinguna hliðstæða valdatöku mega þeir það mín vegna þó hún hafi verið annars eðlis og þjónað annarri stétt). Fjármálaauðvaldið hefur tjáningarfrelsið í hendi sér og þrengir að því með hverju misseri sem líður. Alræðið kemur í áföngum.

Tjáningarfrelsið og stríðið

Sú ofursamþjappaða vestræna fjármálaelíta sem áður var nefnd – kjarnaland hennar er Bandaríkin og hún á m.a. hermálaiðnaðinn – myndar hina efnahagslegu uppistöðu í vestrænni heimsvaldastefnu. Í samhengi við umræðuefni okkar er það afgerandi að sama auðmagn skuli einnig ráða yfir og hafa fulla stjórn á ríkjandi fjölmiðlum. Ekki síst þegar upp eru runnir tímar stríðs. Fjölmiðlavald er úrslitaatriði í sálfræðilegri vídd stríðsins.  Eftir fall Sovétríkjanna 1991 tóku Bandaríkin og NATO upp herskáa utanríkisstefnu: að tryggja stöðu Vesturblokkarinnar – með „einpóla heimsskipan“ (miðpunktur hennar er Washington). Lögð var fram Wolfowitz-kenningin um að halda yrði keppinautum niðri: tryggja að ekkert annað veldi yrði til sem ógnað gæti Bandarískum yfirráðum. Það var kaldhæðnislegt en við þessi miklu tímamótum 1991 gerðist tvennt samtímis: Annars vegar tóku vestrænir heimsvaldasinnar stefnu á heimsyfirráð, og hins vegar – einmitt þegar stjarna sósíalisma og marxisma lækkaði á himni – hættu flestir vinstri menn að tala um heimsvaldastefnuna.  

Eitt megináhlaup skv. hinni nýju strategíu heimsvaldasinna hófst 11. sept. 2001, og kallaðist „stríð gegn hryðjuverkum”. Því fylgdi annars vegar sería styrjalda í Austurlöndum nær og hins vegar lögin „Patriot Act” í Bandaríkjunum og önnur þróun til lögregluríkis í okkar heimshluta. Annar kafli strategíunnar hófst með stríðinu í Úkraínu og spennuuppbyggingu á Suður-Kínahafi. Sá nýi kafli felur í sér bein átök BNA/NATO við helstu keppinauta sína, Kína og Rússland.

Styrjaldirnar hafa komið eins og perlur á bandi. Eftir 11. september hafa heimsvaldasinnar þróað aðferðirnar til selja stríð sín. Til varð taktíkin „smart power“ sem gengur út á það að samþætta annars vegar hið hernaðarlega og hins vegar áróður fyrir framsæknum og húmanískum gildum. „Smart power“ taktíkin var alveg sérstaklega þróuð í stjórnartíð Obama og Hillary Clinton og felur í sér að tilreiða hernaðinn betur með hjálp fjölmiðla og selja hann sem „mannúðaríhlutanir“. Afganistan, Írak, Líbía, Sýrland, Úkraína spegla þróunina sem orðið hefur. Matreiðslan í fjölmiðlum verður sífellt vandaðari og útsmognari með hverju nýju stríði. Þetta hefur tekist svo vel að margyfirlýstir friðarsinnar og þekktir fyrrverandi NATO-andstæðingar í stórhópum hafa gerst herskáir og heimta nú meiri vígvæðingu og meira stríð í nafni mannúðar, mannréttinda og lýðræðis. Skýringin liggur annars vegar í hinum slóttuga „smart power“ áróðri og hins vegar í því að vinstrimenn hættu að greina og reikna með heimsvaldastefnu og tóku þar með andheimsvaldabaráttuna af dagskrá (og þá ætti maður líklega að setja gæsalappir á „vinstrimenn“).     

Hnattvæðingaröflin ráða för á Vesturlöndum. Þá bregður svo við að hinir frjálslyndu og „alþjóðasinnuðu“ eru jafnvel orðnir herskárri og íhlutunarsamari en hægrið. Þeir fáeinu bandarísku þingmenn sem greitt hafa atkvæði gegn hinum linnulausu vopnasendingum til Úkraínu eru eingöngu repúblikanar, enginn demókrati. Á Íslandi hallast ekki á með hægri og „vinstri“ í stuðningi við stríðið. Og VG er t.d. ekki lengur þögull meðreiðarsveinn meðstjórnarflokka sinna í utanríkismálum heldur er flokkurinn ákafur stuðningsmaður heimsvaldastefnu NATO ekkert síður en Samfylkingin.

Stríðsáróðurinn felst í því að lýsa stríðinu einfaldlega sem frelsisstríði Úkraínu gegn hinni ólöglegu innrás Rússa. Innrásin er útmáluð þannig það veki næga ógn meðal vestrænna áhorfenda til að þeir gefi stuðning sinn við stríðsreksturinn. Myndin af innrásinni getur verið meira sönn eða minna. En lygin felst í því að sleppa skipulega öllum þeim efnivið sem BNA og NATO hafa í aðdragandanum dregið, og halda áfram að draga, til þessa mikla báls – og breytti strax innrás Rússa í staðgengilsstríð milli BNA/NATO og Rússlands. Í öðru lagi er stríðsáróðurinn sá að stríðið við Rússa gangi ljómandi vel og hægt sé að sigra þá með meiri hernaðaraðstoð. Í þriðja lagi felst hann í að stimpla allar aðrar skýringar á stríðinu en bara brjálæði Pútíns sem „pútínisma“.

Stríðsáróðurinn er samt ekki nóg. Það þarf að tryggja að óviðeigandi orðræða komist ekki af stað. Hún verður að vera einhliða. Þess vegna er nauðsynlegt að taka af andmælendum bæði hljóðnemann og ræðustólinn. 

Þróun nýs alræðis er runnin undan rifjum heimsvaldasinna, sú þróun er einfaldlega hluti af vígvæðingu heimsvaldastefnunnar. Í þeirri vígvæðingu er opin og lýðræðisleg umræða mjög til trafala, jafnvel ómöguleg.

Alræðið sem nálgast í áföngum felur í sér bein völd hins yfirþjóðlega fjármálaauðvalds, og víðgvæðingu vestrænnar heimsvaldastefnu. Áhlaup þess að undanförnu beinast umfram allt að tjáningarfrelsinu, að afnema opna og lýðræðislega samfélagsumræðu. Þannig halda Vesturlönd upp á umrætt 100 ára afmæli.

Greinin birtist einnig á neistar.is: https://neistar.is/greinar/fasisminn-100-ara-hvar-er-hann-nu/