Fara í efni

ÞJÓÐ, VALD OG ÁBYRGÐ

Í dag er fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá lýðveldisstofnun. Það er mikilvægt að þjóðin taki hana alvarlega. Fólk á ekki hlusta á orð forystumanna ríkisstjórnarinnar sem hafa af dónaskap og yfirlæti kallað þennan atburð marklausan skrípaleik. Maður hefði seint trúað að heyra slík orð af vinstri væng stjórnmálanna - frá því fólki sem mest hefur talað fyrir virkara lýðræði og kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um stór mál.

Við skulum ekki heldur hlusta á hrunverjana í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki því þeir segja eitt en meina allt annað og verra. Við eigum þvert á móti að standa saman í dag á eigin forsendum - standa saman um það að mæta kjörstað og taka afstöðu.

Á kjörstað tökum við afstöðu til hagsmuna þjóðarinnar og til framtíðarinnar. Ég hef hafnað Icesave - lögunum. Mín niðurstaða er sú að ríkisstjórnin hafi gert mistök, hún hafi í flýti og taugaveiklun samið af sér; bæði gagnvart líðandi stund og ekki síður framtíðinni.

Þrátt fyrir þessi mistök styð ég áfram núverandi ríkisstjórn. Ráðherrar og stjórnarþingmenn verða hins vegar að læra að viðurkenna mistök og það er lýðræðisleg skylda þeirra að sýna bæði kjósendum sínum og þjóðinni allri virðingu. Þeir geta ekki og mega ekki koma fram við fólkið eins og rumpulýður peningavaldsins hefur gert á undanförnum árum.

Ríkisstjórn VG og Samfylkingar verður að hysja upp um sig brækurnar. Hún verður að brjóta niður siðlaust peningavaldið sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höfðu stríðalið. Réttkjörnir fulltrúar verða aftur að öðlast sinn fyrri sess.  Það gengur ekki lengi að ráðherrar yppti öxlum yfir valdaleysi sínu þegar hver stórglæpamaðurinn á fætur öðrum hrifsar aftur til sín fyrirtækjaþýfi sitt með brellum og hótunum.

Ríkisstjórnin verður að efna loforð sín um opið og gagnsætt þjóðfélag. Enn er dregið fyrir alla glugga. Þjóðin treystir ekki slíkum vinnubrögðum mikið lengur.

Enn bíður almenningur eftir skjaldborginni margfrægu. Stundum finnst manni eins og stjórnmálamenn þekki ekki aðstæður fólks - að veruleiki þeirra sé allt annar. Mörg heimili eiga við mikinn skuldavanda að stríða. Á þessum vanda þarf að taka á varanlegan hátt en draga ekki hrun þessara heimila á langinn.

Þá ber félagshyggjustjórn skylda til að standa vörð um velferðarkerfið. Í heilbrigðis- og menntamálum er niðurskurður allt of brattur og það gildir á fleiri sviðum. Þessa stefnu þarfa að endurskoða - ef ekki í samráði við AGS á stjórnin sjálf að grípa til eigin ráða.

Loks hvet ég alla aðila innan VG að taka höndum saman til góðra verka. Þeirri útilokunaraðferð sem Ögmundur Jónasson og félagar hafa verið beittir verður að linna.
Þorkell Gunnarsson