Fara í efni

Þjóð í þrengingum - Arafat allur. Ræða á samstöðufundi

Ræða ÖJ á samstöðufundi með Palestínumönnum í Borgarleikhúsi 15/11 2004

Gamall Cherokee indíáni var einhverju sinni að gefa barnabörnum sínum heilræði. Hann sagði þeim að innra með sér væru tveir úlfar sem berðust upp á líf og dauða. Annar væri úlfur óttans, reiðinnar, öfundar, eftirsjár, græðgi, minnimáttarkenndar, sjálfsvorkunnar, lyga, hroka og haturs. Hinn væri úlfur gleðinnar, ástúðar, gjafmildi, vinsemdar, væntumþykju, hógværðar og sáttfýsi. Sams konar barátta er háð innra með ykkur og sérhverjum manni, sagði gamli indíáninn við barnabörn sín. Hvor úlfurinn vinnur, spurði þá eitt barnið. Sá úlfurinn lifir sem ég fóðra, svaraði gamli maðurinn að bragði.

 Yasser Arafat lifði í heimi þar sem úlfur hatursins var alltaf vel nærður. Í slíkum heimi er sá afreksmaður sem hefur þrek til að gerast boðberi sáttfýsi. Slíkur maður var Yasser Arafat.

 Arafat var innan við tvítugt þegar Ísraelsríki var stofnað árið 1948 á rúmlega helmingi lands þáverandi Palestínu. Eftir harðvítug átök á næstu misserum héldu Palestínumenn aðeins fimmtungi lands síns. Og enn var að þeim þrengt í styrjöldum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Og nú - í upphafi 21. aldarinnar - rís hinn illræmdi aðskilnaðarmúr á Vesturbakkanum. Mörg hundruð kílómetra fangelsismúr sem er ætlað að loka heila þjóð inni. Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu er reistur af verkfræðilegri nákvæmni.

Þegar nasistar murkuðu lífið úr milljónum gyðinga á valdatíma sínum í Þýskalandi var það  ekki aðeins fjöldi fórnarlambanna sem vakti ugg og hrylling í brjóstum manna heldur einnig sú yfirvegun sem lá að baki voðaverkunum, verkfræðivinnan við hönnun útrýmingarbúðanna og allt skipulag að baki ódæðunum.

Í ritgerð sinni, "The Banality of Evil", fjallar Edward S. Herman um það sem hann kallar normaliseringu, að gera illskuna gjaldgenga. Það krefjist normaliseringar að framkvæma illvirki á skipulegan hátt. Yfirleitt skipti menn með sér verkum við að gera hið ógerlega gerlegt og hið ótrúlega trúlegt. Einn aðilinn drepi og brútaliseri, annar vinni að bættri tækni, betra drápsgasi, langvinnari loga, napalmi sem læsi sig betur inn í húðina, sprengjuflísum sem erfiðara sé að ná út úr holdi. Þetta sé verkefni sérfræðinga og tæknimanna. Fjölmiðlarnir geri síðan verk þeirra eðlileg, normalíseri þau.

Fræðimaðurinn og fréttamaðurinn John Pilger skrifaði magnaða grein í breska tímaritið New Statesman í vikunni sem leið. Hann gagnrýnir þar harðlega starfssystkin sín í fjölmiðlastétt. Pilger vitnar í frásagnir almennra fjölmiðla af atburðum sem nú eiga sér stað í Fallujah í Írak, hvernig fjölmiðlarnir lýsi umsátrinu, hve árásin á borgina sé hættuleg, gífurlega hættuleg – fyrir árásárliðið! Hitt gleymist aftur eða öllu heldur því sé gleymt, það sé þagað í hel, að í borginni  - að í Fallujah - er að finna venjulegt fólk! Og gagnvart því er nú verið að fremja hryllilega stríðsglæpi.

Hlutskipti Palestínumanna, saga þeirra - milljóna kvenna, karla og barna - hefur undanfarna áratugi verið þyrnum stráð. Í allt of ríkum mæli hefur sú saga verið normalíseruð - fölsuð. Ef aðeins að við vissum – ef aðeins að við öll vissum það sem gerst hefur, þá hefði heimurinn aldrei umborið það ofbeldi sem Palestínumenn hafa verið beittir. 

Ég hef aldrei búið í flóttamannabúðum. En úr fjarlægð hef ég, eins og við öll, fylgst með hlutskipti þess fólks sem hrakið er brott frá heimkynnum sínum og hefur mátt búa við erfið kjör, öryggisleysi og óvissu um framtíðina.

Sem fréttamaður fylgdist ég úr fjarlægð með því þegar árásin var gerð á flóttamannabúðir Palestínumannna í Sabra og Shattila í Líbanon árið 1982. Í skjóli myrkurs, þegar fólkið var í fastasvefni, fóru vopnaðar sveitir inn í búðirnar og  á hárréttu augnabliki - allt  skipulagt af verkfræðilegri nákvæmni  - hófu þyrlur Ísraelshers sig til flugs og lýstu með sterkum ljóskösturum niður í þröngar göturnar svo morðingjarnir gætu athafnað sig betur.

Ég fylgdist einnig með því úr fjarlægð þegar Sharon, sem stýrði fjöldamorðunum 1982 og er núverandi forsætisráðherra Ísraels, fór fylktu liði á Musterishæðina í Jerúsalem, að Al Aksa moskunni til að ögra Palestínumönnum. Og þegar unglingar í þeirra röðum gripu til steinvölunnar voru þyrlur komnar í loftið, vopnaðar vélbyssum sem beitt var á fólkið. Intifada – uppreisnin sem staðið hefur undanfarin 4 ár - var hafin; kölluð fram og haldið við með morðum, stöðugu áreiti; og eins og fyrri daginn, allt skipulagt af verkfræðilegri nákvæmni.

Þessi nákvæmnisvinna rann fyrst upp fyrir mér fyrir alvöru þegar ég hlýddi einhverju sinni á fyrirlestur Sveins Rúnars Haukssonar læknis, formanns Félagsins Íslands Palestínu, þar sem hann lýsti upphafi árásar Ísraelshers á Ramallah. Hvar skyldi fyrst hafa verið borið niður? Hvar skyldi vígvélum og stórskotaliði Ísraelshers fyrst hafa verið beitt? Gegn lögreglustöðvum? Nei. Fyrst var ráðist á Hagstofuna og tryggingastofnun; tölvukerfið sem var undirstaða alls skipulags Palestínumanna, alls innra samhjálpar- og stoðkerfis þeirra - það var fyrst eyðilagt – það var fyrst sprengt í loft upp.

Þessi frásögn varð mér umhugsunarefni og þá ekki síður frásagnir hugsjónafólksins sem héðan hefur farið til að sinna hjálparstarfi í Palestínu á undanförnum misserum. Eva Líf Einarsdóttir skrifaði á heimasíðu Félagsins Ísland Palestína 17. janúar s.l. Ég drep niður í frásögn hennar:  „Því lengri tíma sem ég dvel hér, því meira er ég að kynnast fólki, fólki sem er búið að upplifa hluti sem eru okkur svo fjarlægir…maður hefur fylgst með atburðum í fjölmiðlum en þegar maður er staddur hér þá finnst mér eins og ég sé virkilega að skilja (og þó ekki) hvaða hörmungar eru í gangi …..Ímyndaðu þér að í kringum alla Reykjavík séu eftirlitsstöðvar hermanna … að þú sem býrð í Kópavogi mátt ekki fara að heimsækja ættingja þína í Reykjavík.… að í fyrrasumar þurftir þú og fjölskyldan þín að híma heima í 30 daga með lítinn sem engan mat, og að horfa á sjónvarpið (nokkuð sem) er engin dægradvöl því það eina sem þú sérð eru myndir af fólki, börnum sem þú jafnvel þekkir, dáið eða sært…

Ímyndaðu þér að þú þurfir að fara út í búð, þú og maðurinn þinn með tveggja mánaða barn og þið eruð stoppuð, úti er myrkur og hermennirnir segja manninum að koma út og labba með þeim fyrir horn … þar afklæða þeir manninn og láta hann liggja á jörðinni í 3-4 tíma … þú og barnið bíðið í bílnum og vitið ekki neitt … og svo sleppa þeir honum, hlæjandi...

Ímyndaðu þér að hermenn ráðist inn á heimili þar sem móðir og börn eru heima...hermennirnir taka níu ára barn inn á klósett, setja það ofan í baðkarið, sprauta köldu vatni yfir það um leið og byssum er beint að höfði barnsins en þeir vilja vita hvar faðirinn er… sem barnið veit ekki… hermennirnir fara síðan og segjast koma fljótlega aftur og gera það sama…Þetta er eitthvað sem á beinan eða óbeinan hátt hefur hent fólkið sem ég bý hjá hér í Ramallah …

Sara Roy er baráttukona fyrir mannréttindum. Hún hefur gerst öflugur málsvari Palestínumanna. Sara Roy er prófessor við Harvard háskólann í Bandaríkjunum. Hún er gyðingur, afkomandi fórnarlamba nasista. Fyrr á þessu ári hélt hún fyrirlestur um ofbeldi og hernám. Hún staðnæmdist við niðurlæginguna; hún fjallaði um niðurlæginguna þegar henni er beitt sem vopni.

Hún sagði frá því á áhrifaríkan hátt þegar hún fyrst varð vitni að því í Palestínu þegar fólk var skipulega brotið niður: Ísraelskir hermenn voru á vappi. Eftir götunni kemur gamall maður með asna. Lítill drengur skokkar við hliðina á afa sínum glaður í bragði. Hermennnirnir skipa þeim að stoppa. Asninn er með gular tennur, segja hermenninrnir hlæjandi við gamla manninn. Burstar þú ekki tennurnar í honum? Gamli maðurinn er hræddur. Litla drengnum er órótt. Spurningin er endurtekin, nú ógnandi. Þú vanrækir líka að halda rassinum á asnanum hreinum. Kysstu asnann að aftan. Gamli maðurinn hikar. En þegar hermennirnir öskra á hann lætur hann undan og krýpur á kné aftur fyrir asnann og framkvæmir það sem honum er skipað. Drengurinn er nú hágrátandi. Tárin streyma niður vanga gamla mannsins. Hermennirnir ganga hlæjandi á brott. Þeir höfðu náð takmarki sínu, segir Sara Roy, að niðurlægja gamla manninn og okkur öll sem safnast höfðum saman til að fylgjast með því sem þarna gerðist. Við stóðum öll þögul og forðuðumst að líta hvert á annað. Litli drengurinn horfði skilningsvana og í örvæntingu á afa sinn – fyrirmynd sína í lífinu. Gamli maðurinn hreyfði sig ekki. Hann bara stóð þarna, niðurlægður, niðurbrotinn. 

Eina leiðin til að skilja Yasser Arafat er að skipta út nafninu Arafat fyrir baráttu palestínsku þjóðarinnar. Öll gagnrýni á Arafat er gagnrýni á þessa baráttu. Hann fæddist inn í baráttuna fyrir frelsi og dó umkringdur óvinum. Undir lokin var litið á hann sem þránd í götu friðarsamninga. Þrátt fyrir að hann hafi verið tilbúinn að gefa eftir mun meira land en margir Palestínumenn gátu sætt sig við, þá var hann aldrei tilbúinn til að semja um að falla frá réttinum til að snúa aftur frá flóttamannabúðunum. Þessi réttur var honum meira virði en frelsi strax, þar sem hann taldi að það yrði hægt að byggja upp pólitíska baráttu síðar, ef fólk aðeins fengi "að snúa aftur".

 Mörgum er í fersku minni þegar einn nefndarmanna í norsku friðarverðlaunanefndinni sem veitti Arafat, Rabin og Peres nóbelsverðlaun, sagði af sér þar sem hann treysti sér ekki til að veita hryðjuverkamanni friðarverðlaun. Og þeir sem veita siðferðileg heilsufarsvottorð, einsog til dæmis Ariel Sharon og George Bush hafa gagnrýnt hann fyrir að vera hryðjuverkamaður.

 Stríð eru hryðjuverk, og kennisetningin um gott stríð er versta hryðjuverkið af öllum. Hin góðu stríð Blairs og Bush er hugmyndafræðileg skemmdarstarfsemi sem á eftir að hafa hræðilegar afleiðingar á næstu árum og áratugum. Eina stríðið sem er skiljanlegt er varnarstríð, sem gerir það samt sem áður ekki að góðu stríði þótt hægt sé að skilja það og réttlæta út frá hinu mannlega hlutskipti.

 Yasser þýðir hinn áhyggjulausi á arabísku. Það verður seint sagt að áhyggjuleysi lýsi hans ævistarfi. Hann tókst á hendur áhyggjur erfiðustu baráttu síðari tíma. Honum tókst að koma á dagskrá baráttu þjóðar sem átti að útrýma og þar með var heimurinn vakinn til umhugsunar, ekki bara um Palestínumenn heldur einnig Kúrda og Tíbeta og alla þá sem þurfa að berjast gegn “The Good Guys” í vondum stríðum.

 Arafat átti sína útgáfu af sögunni af úlfunum. Þegar hann flutti Sameinuðu þjóðunum sína fyrstu ræðu árið 1974, sagði hann: Ég stend hér vopnaður byssu frelsisbaráttumanns í annarri hendi og ólívutrésgrein í hinni. Ég segi við ykkur kæru meðbræður hvora viljið þið hjálpa mér að velja.

 Þarna vorum við spurð hvorn úlfinn við vildum - heimsbyggðin, hið margrómaða alþjóðasamfélag – hvorn úlfinn vildum við fóðra. Ef við ætlum að bera ábyrgð á stjórnarfari í Írak og Afganistan, Ruanda og Fílabeinsströndinni og Suður-Afríku og Kóreu og Zimbabwe, hljótum við ekki líka að þurfa að svara spurningu Arafats? Og hvernig höfum við svarað spurningu hans með verkum okkar?

Og aftur að orðum Evu Lífar Einarsdóttur. Hún sagði að ástandið í Palestínu skynjuðum við ekki til fulls af fréttaflutningi. Ástandið væri hræðilegra en við gætum gert okkur í hugarlund, og það mun ekki batna, segir hún" … fyrr en þessum mannréttindabrotum, drápum og viðbjóði linnir! Þótt ótrúlegt sé þá getur ein venjuleg manneskja eins og ég gert mikið fyrir palestínska fólkið, það finn ég, við úti í heimi gefum þeim von með okkar stuðningi ...“

Og einmitt það erum við að gera hér í kvöld.

Það er rétt að hvert og eitt okkar ber ábyrgð.
Við berum öll ábyrgð.
Það skiptir máli að við látum til okkar taka - í okkur heyra.
Það skiptir líka máli ef við gerum það ekki.

Það er okkar að velja.