Fara í efni

Þeir vita hvað þeir gera

Í pistli sem er mjög við hæfi að birta 1.maí, á baráttudegi verkalýðsins, veltir Ólína fyrir sér (sjá Spurt og svarað hér á síðunni) samhenginu á milli skattatillagna Sjálfsæðisflokksins og fyrirsjáanlegra útgjaldaaukningar heimilanna. Ólína segir m.a.: "30 milljarðarnir sem Sjálfstæðisflokkurinn segist ætla að skilja eftir hjá  kjósendum svarar til alls rekstrarkostnaðar Landspítalans, alls kostnaðar við heilsugæzluna í landinu og alls kostnaðar Tryggingastofnunar ríkisins við læknishjálp á einkastofum sérfræðilækna á ársgrundvelli. Núna er mest af þessari þjónustu greitt úr sameiginlegum sjóði, en hver á að greiða þegar vantar 30 milljarða í ríkissjóð? Á barnafjölskyldan að greiða fullu verði þjónustu sérfræðilæknanna vegna veikra barna? Eiga kjarnafjölskyldurnar að snapa saman fyrir liðskiptaaðgerð fyrir ömmuna, eða hjartaskurðinn afans? Eiga vinir og vandamenn að koma sér saman um hvernig þeir skipta með sér kostnaðinum við erfiða geðlæknismeðferð vinkonunnar? Hver á greiða milljónirnar sem erfið lyfjameðferð krabbameinssjúkrar móður kostar?" Það er ekki nema von að spurt sé og skyldi glæpur Framsóknar ekki einmitt vera sá að vita nákvæmlega að hverju hann gengur í væntanlegum áframhaldandi faðmlögum með Sjálfstæðisflokknum. Ef menn í alvöru vilja snúa þessari þróun við þá þykir mér sýnt hverja beri að kjósa.