Fara í efni

ÞEGAR HIN ÞÖGLA BARÁTTA FÆR ANDLIT

Fyrir fáeinum dögum hlýddi ég á Eduardo Grutzky flytja fyrirlestur um mannréttindamál í Norræna húsinu í Reykjavík. Eduardo er fæddur í Argentínu árið 1956. Þegar hann var 18 ára gamall hnepptu þarlend stjórnvöld hann í fangelsi. Sakarefnið var að reyna að stofna samtök námsmanna. Í fangelsi var honum haldið í 7 ár án réttarhalda. Þar sætti hann pyntingum og illri meferð. Var hann nær dauða en lífi þegar honum loks var sleppt úr haldi. En hvers vegna losnaði Eduardo Grutzky úr fangelsi? Og hvers vegna skyldi hann hafa fengið læknishjálp í fangelsi þegar hann var kominn í lífshættu af innvortis blæðingum vegna pyntinganna? Hann segist hafa fengið staðfest að það hafi verið vegna þrýstings íslenskra Amnesty félaga.

Það var merkilegt að heyra Eduardo Grutzky nefna nöfn Íslendinganna í fréttatíma í útvarpi, þar á meðal nafn Önnu Atladóttur. Þetta endurtók hann á fyrirlestri sínum í Norræna húsinu. Mér fannst þar með þrotlaus barátta Önnu Atladóttur og félaga hennar í Amnesty International fá andlit, verða okkur sýnileg. Við vorum minnt á að þetta gerist ekki af sjálfu sér heldur fyrir tilstilli einstaklinga sem leggja fram krafta sína af fullkominni óeigingirni. Þessar þakkir Eduardos glöddu mig ósegjanlega, einfaldlega vegna þess að mér þykja þær vera svo verðskuldaðar. Það er alltof sjaldan að þakkað sé þögult starf baráttufólksins sem aldrei sofnar á verðinum heldur vakir yfir þeim sem eru beittir kúgun og ofbeldi. Fyrir fanga sem er einn og yfirgefinn, hrjáður eftir illa meðferð, stundum hroðalegar pyntingar hlýtur Amnesty fólkið að taka á sig mynd frelsandi engla. Það var augljóst að Eduardo Grutzky vildi þakka fyrir sig.

Í fyrirlestri sínum í Norræna húsinu kom Eduardo víða við, talaði minnst um sjálfan sig. Meira um aðra. Hann talaði gegn hvers kyns fordómum, hinu "myrka" í trúarbrögðum og menningu. Hann var maður Upplýsingarinnar, líkt og Wafa Sultan, arab-amerískur sálfræðingur sem býr í Los Angeles í Bandaríkjunum. Eduardo sýndi okkur brot úr sjónvarpsviðtali við hana. þetta viðtal sýndi kröftuga konu. Mér fannst áhrifaríkt þegar hún sagði við trúaðan Araba sem fordæmdi hana og sakaði hana um trúvillu, að hann mætti trúa því sem hann sjálfur vildi, þess vegna mætti hann sín vegna trúa á stokka og steina, "svo lengi sem þú hendir þeim ekki í mig."
Sjá viðtal: http://switch3.castup.net/cunet/gm.asp?ai=214&ar=1050wmv&ak=nul

Erindi Eduardos mun lifa með mér því margt sem hann sagði verður mér til umhugsunar. Hann er nú búsettur í Svíþjóð og vinnur þar að mannréttindamálum. Hann stendur meðal annarra að þessari heimasíðu: http://www.almaeuropa.org/index.htm

Sjá frétt á heimasíðu Amnesty International: http://amnesty.is/frettir/nr/356