Fara í efni

Þegar fólk hættir að þora í læknisskoðun

Hér á landi var nýlega stödd Suzanne Gordon, þekktur bandarískur blaðamaður , sem um áratugaskeið hefur rannsakað bandaríska heilbrigðiskerfið. Hún var hér í boði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og flutti fyrirlestra. Hún ræddi einnig við Svavar Knút Kristinsson, blaðamann á Morgunblaðinu. Í því viðtali var margt athyglisvert sagt. Suzanne Gordon sagði m.a. að meira en helmingur einkagjaldþrota í Bandaríkjunum væri vegna heilbrigðiskostnaðar. Sex hundruð þúsund manns yrðu gjaldþrota af þessum sökum árlega: “Fólk þorir ekki að fara í læknisskoðun þegar því líður illa af ótta við kostnaðinn og vegna þess að það er ekki nógu vel tryggt og endar á því að vera lagt inn á spítala löngu seinna, með sjúkdóm sem hefði verið hægt að grípa snemma og koma í veg fyrir mikinn skaða. Það er svo mikið af fólki sem verður veikt að óþörfu vegna þess að það kostar svo mikið að fara ótryggður til læknis.” Morgunblaðið hefur eftir Suzanne Gordon að gallar kunni að vera á íslenska heilbrigðiskerfinu en hægt væri “að færa það allt yfir til Bandaríkjanna og spara gríðarlega fjármuni auk þess sem það myndi auka velmegun og hamingju til muna, enda sé almenn og frí heilbrigðisþjónusta nokkuð sem Norðurlöndin geti verið stolt af.” Orðrétt segir Suzanne Gordon síðan: “Allt það sem Bandaríkjamenn hafa verið hræddir með þegar sósíalistagrýlan er dregin fram í umræðum um ríkisrekið heilbrigðiskerfi hefur löngu komið fram í einkarekna heilbrigðiskerfinu og vel það.”