Fara í efni

ÞEGAR EITTHVAÐ VERÐUR AÐ ENGU OG EKKERT AÐ EINHVERJU

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 01/02.04.23.
Einhverjir kunna að hafa heyrt söguna af manninum sem kom á hótel og vildi gista þar í viku, sagðist geta borgað fyrirfram en vildi engu að síður líta á svítuna. Hann skrifaði ávísun og lét hótelhaldaranum í hendur. Sá beið hins vegar ekki boðanna og hljóp út til kjötkaupmannsins til að borga honum skuld hótelsins við hann upp á svipaða upphæð. Sá var heldur betur feginn að fá einmitt þessa upphæð greidda því hún var nákvæmlega það sem uppá vantaði til þess að hann gæti greitt svínabóndanum það sem hann skuldaði honum. Svínabóndinn var ekki heldur skuldlaus maður þannig að einnig hann gerði upp við lánardrottin sinn sem átti svo aftur eftir að borga fyrir vikudvöl á hóteli bæjarins þar sem hann hafði verið gestur í tilefni stórafmælis. Nú var kjörið að greiða þá skuld upp. Hann kom því færandi hendi með ávísunina góðu til hótelstjórans og gerði upp við hann. En varla hafði þessi skuldunautur losað sig úr skuldaklafanum og gengið andvarpandi af feginleik á braut þegar hótelgesturinn tilvonandi kom að máli við hóteleigandann og sagði að sér hefði snúist hugur, hann væri hættur við að gista og vildi ávísun sína tilbaka. Við því var að sjálfsögðu orðið.

En hver varð þá niðurstaðan? Hún var sú að eitthvað hafði orðið að engu, þótt í reynd ekkert hefði gerst. Skuldirnar sem stofnað hafði verið til voru þó allar til í raunveruleikanum, hótelið hafði fengið kjöt til neyslu fyrir gesti sína sem væntanlega höfðu borgað fyrir sig og sömuleiðis hafði kjötkaupmaðurinn fengið kjötið frá bóndanum og þannig koll af kolli. Á bak við gjaldmiðilinn, ávísunina góðu, sem nú gekk á milli aðila, höfðu með öðrum orðum verið raunveruleg verðmæti. Samt var þarna pláss fyrir hókus pókus.

Þessi skondna saga kom upp í hugann við lestur nýútkominnar bókar Andrésar Magnússonar, Hvernig virkar fjármálakerfið? Sú bók barst mér í hendur nánast fyrir tilviljun. Hvorki hafði ég séð hana auglýsta né um hana fjallað í fjölmiðlum sem er reyndar umhugsunarvert um bók sem vekur jafn krefjandi grundvallarspurningar um kerfi sem við öll byggjum afkomu okkar á. En höfundur þarf engu að kvíða því að litlar líkur eru á að bók hans úreldist í bráð. Í henni er greint frá breytingum sem hafa átt sér stað og eru að eiga sér stað í þjóðfélaginu; breytingum sem nánast engar umræður eru um þótt illar afleiðingar þeirra séu okkur öllum sýnilegar. Það sem um er að ræða er hvernig peningar eru búnir til úr engu – hafa engin verðmæti á bak við sig – en enda áður en yfir lýkur í vösum fárra útvalinna og veita þeim bæði velsæld og völd, allt á kostnað almennings.

Spurt er: Hvernig stendur á því að verðmætin í samfélaginu safnast í stöðugt ríkari mæli á hendur fárra; að þrátt fyrir allar framfarir í byggingariðnaði fækkar þeim hlutfallslega sem tekst að eignast eigið húsnæði og hvers vegna liggur smáatvinnurekstur nánast alls staðar undir fallöxi fjárfesta? Hvernig fer peningavaldið í heiminum – ekki bara hér á landi heldur um víða veröld – að því að ná undir sig sífellt fleiri auðlindum sem við viljum væntanlega flest að séu í höndum alls samfélagsins?

Jú, allt þetta, segir Andrés Magnússon í bók sinni, skýrist af því að einkabankar og fjárfestar ráði orðið fjármálakerfinu og hafi þar með öðlast vald til að prenta peninga, hreinlega búa þá til með því að skrá þá sem tölur í tölvukerfum sínum og nota síðan í eigin þágu til að komast yfir eignir, raunveruleg verðmæti í hagkerfinu. Raddir í þessa veru hafa áður heyrst, einnig hér á landi og minnist ég þar sérstaklega málflutnings Frosta Sigurjónssonar á Alþingi þegar hann sat þar fyrir fáeinum árum. En fá hlustuðum við á orð hans og ekki nóg til að við reyndum að grafast fyrir um sannleiksgildi þeirra.

Eftir lestur bókar Andrésar Magnússonar hljótum við þó öll að skynja hve knýjandi það er að hugsa og reyna að skilja. Og ef fjármálaráðuneytið, Seðlabankinn og háskólarnir eru ósammála þá hljótum við að þurfa að heyra röksemdirnar. Allir þeir sem kunna að móðgast við þessa umræðu eða þykir að sér vegið, hvort sem er í þessari bók eða öðrum bókum um þær eðlisbreytingar sem eru að eiga sér stað í fjármálaheiminum, verða að hefja sig yfir sjálfa sig og samsinna eða mótmæla, með öðrum orðum, rökræða. Um er að ræða grundvallarkerfisbreytingar sem eru miklu stærri en persónur og leikendur. Það er verið að stela heiminum fyrir framan nefið á okkur, hvorki meira né minna.

Skopsöguna hér í upphafi rakti ég til að hrista upp í vanahugsun og minna á að ekki er alltaf allt sem ætlað er og sýnist.

En ef það er svo að fjármálaheimurinn byggi á sjónhverfingum og að í þeim heimi sé allt gert til að villa um fyrir almenningi þá er ljóst að verkefnið er að afhjúpa felubrögðin