Fara í efni

"ÞEGAR BYSSURNAR ERU ÞAGNAÐAR"


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
, utanríkisráðherra og  formaður Samfylkingarinnar telur það vera sérstakt keppikefli að hnýta Ísland enn fastar inn í hernaðarbandalagið NAT'Ó. Þetta kom fram í ræðu sem hún flutti í fyrradag á ráðstefnu í tengslum við "NATO- og friðarsamstarfsæfinguna Northern Challenge 2007", svo vitnað sé í opinbert orðalag.  

Í frásögn af ráðstefnunni í Morgunblaðinu í gær kemur fram að Ingibjörg Sólrún vill að fram fari "ógnarmat" fyrir Ísland. Þá vill hún virkari þátttöku í hernaðarbandalaginu en verið hefur til þessa:
""Fram til þessa hefur Ísland verið meira og minna þiggjandi í varnarsamstarfi vestrænna ríkja," sagði Ingibjörg og benti á að sá tími væri nú liðinn, nú þyrfti Ísland að axla ábyrgð. "Ég hef nýtt tímann frá því að ný ríkisstjórn tók við til að undirbúa gerð vandaðs, faglegs ógnarmats fyrir Ísland. Slíkt mat hefur skort, það er löngu tímabært og allar áætlanir um viðbúnað eru að mínu mati ófullnægjandi án slíkrar undirstöðu."
Ingibjörg sagði jafnframt að beita þyrfti lýðræðislegri vinnubrögðum en hingað til þegar kæmi að þjóðaröryggi og efla þyrfti umræðuna til að ná sátt um þessa sameiginlegu hagsmuni þjóðarinnar... "Þó Ísland sé hvorki stórt né fjölmennt ríki fríar það okkur ekki frá ábyrgð til þátttöku í alþjóðapólitísku samstarfi. [...] Við eigum að hafa metnað og þor til þess að láta rödd okkar heyrast."
Ingibjörg nefndi rekstur loftvarnakerfisins sem dæmi um sjálfstæða þátttöku Íslands í málefnum NATO, auk aukinna afskipta í friðargæslumálum. Þó yrði það aldrei hlutverk Íslands að taka að sér "harðar varnir", né að stofna íslenskan her, enda væri það ónauðsynlegt og í andstöðu við íslenska hefð. Það væri frekar á færi Íslendinga að senda sérfræðinga til verka þegar byssurnar væru þagnaðar, til að vinna að friðaruppbyggingu."

Við þetta vakna ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi er það harla mótsagnakennt hjá ráðherranum að segja þörf vera á ógnarmati– væntanlega til að við sjáum hvað við þurfum að gera til að tryggja öryggi okkar -  en læsa sig jafnframt í ákveðnar niðurstöður áður en slíkt mat fer fram. Hið sama gildir um allt tal um hina lýðræðislegu umræðu sem fram þurfi að fara. Hvers vegna fer hún ekki fram áður en ákvarðanir eru teknar? Er það þetta sem menn kalla umræðustjórnmál, að segja eitt en gera annað?
Formaður Samfylkingarinnar segir að við þurfum "að hafa metnað og þor til þess að láta rödd okkar heyrast. Sammála, en hvar? Eigum við ekki að hafa metnað og þor til að standa utan hernaðarbandalags ríkustu hernaðarvelda heimsins og eigum við ekki að hafa metnað og þor til að tala máli hins undirokaða og kúgaða, tala máli réttlætis og frelsis? Eða finnst Ingibjörgu Sólrúnu og samherjum hennar í Samfylkingunni ef til vill þeir  Bush og Blair, sem stýrt hafa NATÓ undanfarin ár, hafa verið sérstakir málsvarar réttætis og frelsis? Er það kannski frelsisher sem er að verki í Írak og Afganistan? Íslendingar voru sendir til Íraks og Afganistan eftir að byssurnar voru þagnaðar svo enn sé vísað sé til orða utanríkisráðherrans. Á þetta að verða hlutskipti Íslands, að verða hreinsunrdeild árásarherja NATÓ, þeirra sem stunda hinar hörðu varnir?
Skyldi stjórnarmeirihlutinn á Íslandi halda að ekki sé verk að vinna í þróunar- og hjálparstarfi í heiminum nema þar sem NATÓ hefur herjað? Þess má geta að Írak væri án efa eitt ríkasta land heims ef landið hefði ekki sætt viðskiptabanni í rúman áratug, sem leiddi mörg hundruð þúsund manns til dauða og eyðilagði allt innra stoðkerfi landsins og þar með möguleika þjóðarinnar til að verða sjálfsbjarga. Í kjölfarið fylgdi sem kunnugt er innrás til að tryggja erlendum olíurisum auðævi landsins. Er það að axla ábyrgð að tengja land vort og þjóð enn fastar aðilum sem fremja slík glæpaverk gegn mannkyni?