Þegar blautligur húsgangur verður að vinstrigrænni þjóðrembu
Ekki verður á fyrrverandi framsóknarmenn og núverandi flokksbræður þína logið Ögmundur. Nú hafa þeir kumpánar Jón Bisnes og Ormur á Kögunarhóli tekið gamlan húsgang úr hreppunum og snúið honum upp í níð um flokk Jónasar frá Hriflu eða Gunnar á hólmanum. Húsganginn kenndi fóstra mín mér þegar kynhvötin var að vakna hjá mér og ég hálf skammaðist mín fyrir draumfarir mínar. Þennan kviðling sagði hún hafa gengið mann fram af manni í hreppnum okkar og ungum piltum ævinlega sagður til að gera þeim grein fyrir að þessar heimsóknir í æsandi draumalönd væru öllum náttúruleg. 
Húsgangurinn fer hér á eftir og síðan birti ég vísur þeirra Orms og Jóns og sér þá hver heilvita maður að þeir hafa hafa afskræmt þennan blautliga húsgang all verulega. 
  
Í drauminum fagra ég dáleiddur sá 
Drottningu sem kynhvötin eigi fær flúið 
Flaggstöngin stælt af þrútinni þrá 
Þursinn öskrar og svo er allt er búið 
Þjóðremba Orms: 
Í hólminum fagra ég heillaður sá, 
þar sem hetjan forðum lét aftur snúið, 
í tunglskini fugla, fífur og strá 
og fagurt himinhvel gimsteinum búið. 
Vinstragrænt bull Jóns: 
Nú er landstólpi fallinn í dauðadá 
og dóminn hinsta fær enginn flúið. 
Hann er nú sem lítill steinn eða strá, 
stríðið er tapað og senn er það búið. 
Fróði á Rofabarði