Fara í efni

ÞARF NÝJAN FLOKK UM ÞJÓÐAREIGN Á AUÐLINDUM

Árið 2010 verður ár umbreytinga í íslensku þjóðfélagi,ár hins almenna launþega. Launþeginn sem hefur stritað fyrir óðalsbændur, kaupmenn, hermangara og kvótaeigendur frá upphafi byggðar hefur nefnilega fengið sig fullsaddan! Í fyrra vor settist svokallaður vinstriarmur fjórflokksins að völdum og óneitanlega kveikti vonir í brjósti fólks um alvöru breytingar og gagnsæi í verkum stjórnvalda, óhætt er að halda því fram að þær vonir urðu að engu nema vonbrigðum í besta falli og nægir að nefna í því sambandi þann mikla tíma og fjármuni sem varið hefur verið í Esb umsókn (í óþökk þjóðarinnar) og tilraunir til að samþykkja icesave (í óþökk þjóðarinnar).
Ég vil leggja fram þá tillögu að stofnaður verði nýr stjórnmálaflokkur, nýtt afl sem hefur það að leiðarljósi að færa auðlindir Íslands á ný til fólksins,að það verði rukkað sanngjarnt verð fyrir notkun þeirra (álverin), að Ísland verði í fararbroddi í þróun lýðræðis með beinni kosningu á ráðherrum, hæstaréttardómurum og þingmönnum (sem mætti fækka um helming eða svo) og að þjóðaratkvæðagreiðslum yrði gert hátt undir höfði.
Stjórnmálaflokkur þessi myndi fá mikinn meðbyr í seglin veit ég og jafnvel færi hann yfir 50 % fylgi. Gott fólk verður þó að veljast við stjórn, fólk með reynslu og góða sögu. Þú Ögmundur hefur sýnt að þú stendur í lappirnar gegn ágangi auðvaldsins og ert mitt fyrsta val sem skipstjóri þessa fleys, sem og margra annara þykist ég vita. Gamla og mannvonda hugsunin um "mig og mína fyrst og fremst" er orðin fullreynd og ónothæf og óásættanleg á þessu landi okkar og kominn tími á alvöru breytingar.
Með kærri kveðju frá byltingarsinna,
Gunnar Freyr Hilmarsson