Fara í efni

ÞARF AÐ SKIPTA UM STJÓRNVÖLD

Sæll Ögmundur !
Við fórum hjónin á útifundinn til að mótmæla ástandinu og því hvernig ráðamenn landsins eru búnir að klúðra fyrir okkur hlutunum. Það sem var hins vegar undarlegt við þessi mótmæli var að þau reyndust bara snúast um einn mann, hann Davíð Oddsson og að allt byggði á því að koma honum út úr Seðlabankanum. Við ætluðum að fara og mótmæla ríkisstjórninni og þeim sem við héldum að bæru nú ábyrðina á þessu, en þá var ekkert minnst á það. Það er náttúrulega alveg ljóst að Davíð og þeir í Seðlabankanum er með í þessu veseni og auðvitað var Davíð lengi forsætisráðherra og var að einkavæða og svoleiðis meðan hann var beinlínis í pólitíkinni. En við fórum nú heim hjónin dálítið hugsi yfir því hvort hann væri eini skúrkurinn sem þyrfti að losna við úr því ekkert var minnst á hina eins og forsætisráðherran og þarna viðskiptaráðherrann sem er með bankamálin og þetta ónýta eftirlit. Vinnufélagi minn sagði að þetta væri bara Samfylkingin að hefna sín á Davíð og reyna að draga sviðsljósið frá ríkisstjórninni til að reiðin í fólkinu beindist ekki þangað því það væri svo auðvelt að benda á Davíð. Við erum nú ekki reynslufólk í svona brellum en ef þetta er rétt er þá ekki verið að misnota fólk? Mér finnst þú alltaf réttsýnn í svona málum Ögmundur og því ákváðum við að skrifa þér og spyrja þig um þetta. Við skoðum skrifin hjá þér stundum í tölvu dóttur okkar sem er í háskólanum. Það er flest gott sem er skrifað hjá þér. Ólína sem oft skrifar er stundum dálítið skapvond en óneitanlega glöggskyggn. En er nokkur von um að þetta batni fljótlega því fólk er orðið mjög kvíðafullt og óánægt og finnst að það þurfi að skipta um stjórnvöld.
Jens og Guðrún