Fara í efni

ÞAR SEM ALLIR VERÐA BÆNDUR

Sæll Ögmundur.
Þegar ég var við nám í Bandaríkjunum fyrir rúmlega 35 árum naut einn prófessorinn þess að segja okkur tuttugu ára gamla sögu af kosningabaráttu Lyndons B. Johnsons frá því hann fyrsta sinni barðist fyrir sæti í Öldungadeild Bandaríkjaþings.
1948 var útlitið svart og litlar líkur á að LBJ hefði það í kosningum. Bæði hann og kosningastjórinn hefðu þurft að bryðja gleðipillur til að sjá heiminn í réttu ljósi svo illa var komið fyrir þeim félögum. Við þessar myrku aðstæður fékk Lyndon hugmynd. Hann bað kosningastjórann að boða til blaðamannafundar þegar ekkert var í fréttum og ásaka þar svínabóndann, andstæðing sinn, og gagnrýna fyrir að riðlast reglulega á kvikfénaði sínum. Kosningastjóranum ofbauð og sagði að þetta gætu þeir ekki gert vegna þess að ásökunin væri röng og ósiðleg. - Auðvitað er þetta lygi", hvæsti Lyndon, "en látum helvítið hafna þessu."
Lyndon vann kosningarnar og varð mestur valdamaður í Bandaríkjunum næstu tvo áratugina. Þetta rifja ég upp nú Ögmundur vegna þess að Kastljós sjónvarpsins verður í huga mér æ meiri Lyndon og meira áberandi nú eftir að meðreiðarsveinn þessa hugarfósturs útvarpsstjóra, DV, er hætt að koma út nema um helgar. Morgunblaðið virðist að vísu hafa tekið upp sérstakt samband við þáttinn og stjórann og siglir í þeim skilningi sama sjó og DV fyrr. Ekki leiðum að líkjast, en ógnvekjandi framtíðarsýn ef þessi tvö fyrirtæki ná saman eins og stefnt er að. Bræðralag þetta hefur verið áberandi síðustu dagana vegna baugsmála.
Nú er ég ekki baugskona að öðru leyti en því að ég hef jafnan keypt inn þar sem matvara er seld á lægstu verðinu og mér er alveg ókunnugt um hvort Jóhannes í Bónus, eða drengurinn, eru svindlarar. Það verða þeir að minnsta kosti ekki að lögum fyrr en þeir hafa verið dæmdir. Dótturina kannast ég við af góðu einu. Mér sýnist hins vegar óþreyja kastljóssstjórenda og Morgunblaðs vera slík að það er ekki nóg að ásaka, helst virðast menn vilja dæma líka. Og þegar Morgunblaðsstjórar beina Kastljósi sínu í ákveðinn farveg getur orðið til banvæn blanda. Ekki fyrir þann sem heldur um kastarann heldur hinn sem lendir í brennipunkti undirmála og hefnigirni.
Í kvöld var Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, svældur út og látinn svara fyrir réttarhöld Kastljóssins, rétt eins og hann hefði sett upp sjóið sjálfur líkt og Jón Óttar Ragnarsson gerði á Hótel Íslandi fyrir tuttugu árum í allt öðru samhengi. Þarna lét Gestur gabba sig og tapaði, enda uppleggið, vopnin og verjurnar, ákveðnar af öðrum ósýnilegum, sem þó talaði lögmanninn inn á að koma fram í þættinum. Ríkisútvarpið var eitt sinn fjölmiðill sem rökstyðja mátti að stæði undir nafni, en ríkisútvarpið eins og það er rekið nú er að mínum dómi að verða eins og skæri í höndum óvita. Það er nánast gefið að hann slasar bæði sig og aðra svo klaufalega sem hann beitir tólunum sem menn og konur fengu honum og eftir er að kvitta fyrir. Í þessu ljósi er ekki víst að þeir stjórnmálamenn sem þágu kynningarboð útvarpsstjóra í haust þægju þau nú, en þeir ættu kannski að segja frá þeim nú. Ég veit ekki með þig Ögmundur en mér stendur ógn af því sem ég hef séð til samstarfs sjónvarpsins og Morgunblaðsins undanfarna daga. Jafnvel Gestir í sjónvarpssal fá ekki rönd við reist. Í þessu sambandi verða allir svínabændur.
Kv.
Ólína