Fara í efni

ÞAÐ ER ÓÞÆGILEGA STUTT Í ÞJÓÐMENINGAR-HÚSIÐ

Sæll Ögmundur.

Fyrsta maí myndin frá Moskvu líður mér aldrei úr minni. Fyrst marsjérandi hermenn, svo gljáfægðir vörubílar, yfirbyggðir með eldflaugum, svo ógurlegir að ég hálfmissti málið, og að endingu öldungarnir, ráðstjórnin sjálf, sem höfðu raðað sér upp langsum eftir grafhýsi Leníns, eða var það grafhýsi Stalíns?

Og alltaf var þetta eins. Þar kom í fréttinni, þegar morðtólin voru komin framhjá og skóhljóð gæsagangsmannanna fjarlægðust, að þetta gamla sett, allt karlmenn, fór allt í einu að kyssa og kjassa hver annan. Fyrst á vinstri vanga og svo þann hægri. Oftast féllust þeir í faðma. Sumir áttu að vísu svolítið erfitt með faðmlögin, enda þéttir á velli og betur haldnir en sú alþýða sem var þvinguð til að fagna fyrsta maí á moskvutorgi.

Þetta var hálfóþægilegt, án þess að ég þyrfti að líta undan, enda Brésnef og Moskva blessunarlega langt í burtu. En í dag var ég minnt á þennan Brésnefs tíma í íslenskum fréttum og mér varð um og ó.

Hópur manna hafði raðað sér langsum meðfram vegg í Þjóðmenningarhúsinu. Þetta var gert til að tryggja stöðugleika og koma þeirri þjóð úr kreppunni, sem var hvergi nærri. Uppstilltir töluðu þeir til þjóðarinnar gegnum sjónvarpslinsurnar. Allir á sama máli, enda sórust þeir í fóstbræðralag, og fólkið heima horfði.

En svo tóku þau brésnef á það.

Allt í einu stóð Vilhjálmur Egilsson upp og kyssti forsætisráðherrann og faðmaði. Svo kyssti hún Gylfa forseta Arnbjörnsson, hann kyssti Vilhjálm, Jóhanna kyssti starfandi formann BSRB, hann kyssti Vilhjálm og svo föðmuðust allir og kysstust. Þegar forseti ASÍ kyssti Helga Magnússon í Hörpu-Sjöfn setti að mér ónotatilfinningu, ekki ósvipaða því sem ég hafði áður fundið fyrir á fyrsta maí fyrir mörgum árum, og nú þurfti ég að líta undan, eða réttar sagt framhjá sjónvarpinu. Það var einhvern veginn talsvert styttra í Þjóðmenningarhúsið, en upp á grafhýsi Leníns. Eða var grafhýsið Stalíns?

Ólína