Fara í efni

ÞÁ MUNU DAGARNIR LIT SÍNUM GLATA

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 04.05.14.
Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, má fara að hugsa sinn gang. Og reyndar öll þau sem leggja upp úr „sögu dagana" en Árna nefni ég sérstaklega vegna fróðlegra og skemmtilegra bóka hans og rannsókna á sögu merkis- og hátíðisdaga, innlendra og alþjóðlegra.

Ástæðan fyrir því að menn kunni að þurfa að hugsa sinn gang, er tillaga sem nú svífur yfir vötnum á Alþingi um að leggja niður hefðbundna hátíðisdaga og skjóta þeim sem frídögum að næsta helgarfríi því við fáum best notið þeirra í samfellu við annað frí.

Auðvitað má segja að þetta kæmi ekki að sök að því leyti, að margir hátíðisdagar hafa fyrir löngu glatað upphaflegri merkingu sinni, alla vega í dagatalinu en jafnvel einnig að öðru leyti.

Þjóð sem var háðari veðurguðnunum en við erum nú, með góðum húsakosti fyrir menn og skepnur og fær í flestan sjó í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, lagði meira upp úr því að rýna í samspil dagsetninga og veðurfars, svo dæmi sé tekið. Þannig  mun það hafa tíðkast að setja vatn út fyrir hús aðfaranótt sumardagsins fyrsta til að sjá hvort saman frysi vetur og sumar því þannig þóttust menn komnir með vísbendingar um sumarið.  Væru þessir dagar hreyfðir mikið til má ætla að gömlum náttúrurýnum þætti þar með  kompásinn  úr lagi færður.

Ljóst er að þýðing daganna í vitund þjóðarinnar tekur breytingum í áranna og aldanna rás. Þannig segir Árni Björnsson frá því í riti sínu, Sögu dagnna, að rannsóknir hafi leitt í ljós að um aldamótin 1900 hafi sumardagurinn fyrsti hvarvetna á landinu verið talinn mikill „hátíðis og veitingadagur" og gengið víðast hvar „næst jólum og nýári að fyrirferð." Þetta er liðin tíð en þó ekki að öllu leyti, alla vega ekki í mínum huga. En spurning er hvort máli skipti þótt sumardeginum fyrsta væri hnikað til þannig að hann félli að komandi helgi. Svari hver fyrir sig.

Það gerði ég að kvöldi dags 30. apríl. Þá barst mér fyrirspurn um það hvort ég gæti fellt mig við að gera hátíðisdagana hreyfanlega á framangreindan hátt. Ég sat þá við tölvu og var að hugleiða ávarp sem ég ætlaði að flytja morguninn eftir. Tilefnið var 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Sá dagur væri haldinn 1. maí en ekki 2. maí, svaraði ég að bragði. Það væri dagurinn sem tengdi heiminn saman, „strönd við strönd" eins og segir í Nallanum.

Eitthvað finnst mér rangt við það að rífa alla sögulega merkingu innan úr hátíðardögum - gleyma því hvers vega þeir urðu til - en horfa bara til hins, hve gott frí þeir gefa. Er ekki hætt við því að þar með glati dagarnir lit sínum?