Fara í efni

TEKIÐ UNDIR VARNAÐARORÐ HELGA GUÐMUNDSSONAR

Ekki er séð fyrir endann á samningaviðræðum ASÍ og SA um nýtt áfallatryggingakerfi. Enda þótt viðræðurnar taki einvörðungu til fólks á samningssviði þessara aðila er líklegt að þegar fram líða stundir muni sú spurning gerast áleitin gagnvart öðrum samningsaðilum hvort þeir fari inn á svipaðar brautir. Þá er ljóst að þær kerfisbreytringar sem lagðar eru til mundu kalla á umfangsmiklar lagabreytingar þar sem um er að ræða tilfærslu á verkefnum frá almannatryggingum til sjúkra- áfallasjóða verkalýðshreyfingarinnar. Helgi Guðmundsson, til margra ára framámaður í verkalýðshreyfingunni og ritstjóri Þjóðviljans um árabil, fjallar um þessi málefni í grein hér á síðunni. Bendir hann á að þetta myndi kalla á víðtækar “...breytingar á velferðarkerfinu, þ.m.t. að færa hluta þess frá almannatryggingum yfir til” verkalýðshreyfingarinnar. Slíkt yrði “naumast gert nema í samvinnu við ríksvald og Alþingi.”

Sigursteinn Mássson, formaður Öryrkjabandalagsins hefur gagnrýnt ASÍ og SA mjög harðlega fyrir að semja sín í milli um hluti sem eigi að vera á hendi löggjafans og heldur hann því jafnframt fram að um sé að ræða alvarlega aðför að kjörum öryrkja og jafnvel samfélagslega rekinni velferðarþjónustu. Helgi Guðmundsson segir á hinn bóginn fyrir því “mörg fordæmi að aðilar vinnumarkaðarins semji við ríkisvaldið um tilteknar lagabreytingar, til að bæta kjör launafólks eða bótaþega. Það ætti eins að vera hægt nú eins og áður. Á hinn bóginn þarf örugglega að fara varlega í að færa einhvern hluta almannatryggingakerfisins yfir til aðila vinnumarkaðarins. Megin hugsun almannatrygginga byggir á því að ríki og sveitarfélög tryggi þegnunum lágmarkstekjur til að lifa af.”

Niðurstaða Helga Guðmundssonar er sú að ASÍ og SA beri að hægja á ferðinni. Helgi segir :”Gæti ekki verið skynsamlegt að taka þessar miklu breytingar í skrefum á nokkrum árum, byrja á því að stórefla starfs- og endurhæfingu og sjá hvort á þann hátt dragi ekki úr nýgengi örorku, taka til dæmis í þetta verkefni fimm ár og meta stöðuna að þeim loknum.”

Að öllu samanlögðu hallast ég að þessu sjónarmiði Helga Guðmundssonar. Það er ekkert sem á að þurfa að koma í veg fyrir að átak verði gert í endurhæfingu öryrkja við núverandi kerfi. Í það verkefni þarf að ráðast tafarlaust. Um það eru allir sammála. Síðan er það einnig mitt sjónarmið að ekki eigi að ráðast í djúpstæðar kerfisbreytingar sem snerta kjör öryrkja í ósætti við heildarsamtök þeirra.

Grein Helga Guðmundssonar í heild sinni er HÉR