Fara í efni

TEKIÐ UNDIR MEÐ 1. MAÍ RÆÐU

Góði Ögmundur....
Ég var að lesa 1. maí ræðu þína sem þú fluttir  í Vestmannaeyjum!
Þessi ræða þín var stórkostleg tímamótaræða. Ögmundur, ég hreifst mjög við lesturinn í orðsins fyllstu merkingu !
Þú ferð nákvæmlega og faglega af þekkingu en jafnframt af drengilegu innrætti út í baráttuna sem þjóðin verður að heyja ef hún ætlar ekki að svíkja arfleifð forfeðra okkar svo og niðja sína um alla framtíð!
Nú er bara að minna stöðugt á staðreyndirnar í þinni merkilegu ræðu, en láta ekki við það sitja.  Það verður að framkvæma "verklega" þar sem nauðsyn krefur!  Þú notar orð Helga Guðmundssonar réttilega til að minna okkur á BARÁTTU forvera okkar, að réttlætisbarátta  og félagshyggja íslenska þjóðfélagsins gegn samviskulausu óþjóðlegu auðvaldinu og einkagræðgi, kallar á hugrekki og baráttu! 

Helgi bendir á eins og þú sjálfur hefur margoft gert, ásamt öðru góðu þjóðlegu fólki, að það verður ekki spornað gegn auðvaldinu á Íslandi frekar en annarsstaðar í heiminum án baráttu.  Né verða eignir þjóðarinnar endurheimtar úr krumlum auðvaldsins, nema með baráttu, já mjög líklega harðri baráttu!  Það má minna fólk á að allt það sem einhvers er virði, kallar á mismunandi baráttu, að allt sem við njótum í dag, tók baráttu forveranna. Þá erum við ekki aðeins að ræða um ritað og talað mál, þó af rökfestu sé, því ef það dugar ekki þá verður að berjast með limum og líkama. Það verður að láta kné fylgja kviði eins og forverar vorir þurftu að gera svo við gætum eignast velferðarþjónustu, sjúkrahús, elliheimili, bústaði fyrir þá fátæku, banka, hitaveitu, kaldavatnsveitu, eimskip, skóla, vegakerfi, o.s.f.v. fyrir alla ásamt síma og orkuverum til að þjóna sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar!

Auðvitað tekur það baráttu í dag sem áður, þegar satt að segja sjálf tilvera íslensku þjóðarinnar er í húfi, en fyrir tilverunni verður að berjast upp á líf og dauða!  Sú barátta er framundan!  Í húfi eru siðað samfélag og boðleg lífskilyrði fyrir þjóðina. Þetta verður aðeins tryggt með samvinnu, félagshyggju og mannlegri umhyggju sem við berum hvert fyrir öðru án kvarða peninganna. Ég tel reyndar að annað og meira sé í húfi: Sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur íslensku þjóðarinnar. Hvort á hér að ráða alþjóðlegt auðvald eða frjáls fullvalda þjóð í sínu eigin í föðurlandi, Íslandi? Ekki velkist ég í vafa um svarið og ég finn að það gerir þú ekki heldur!

Nú þarf að búast til alvöru baráttu!  Sjálftökufólkið og auðvaldið mun ekki láta illa fenginn feng af hendi fyrr en í fulla hnefana. Einnig munu þessi öfl ekki hætta iðju átakalaust. Þessi mannskapur mun eins langt upp á dekk og honum leyfist.  En ekkert er öflugara en almenigur, sameinuð verkalýðshreyfingin. Ef hún aðeins vill þá mun hún SIGRAST Á ÞRJÓTUNUM!  

Nú mun reyna á í hvaða fylkingu foringjar Samfylkingarinnar munu skipa sér í.  Mun það verða í þjóðlega fylkingu verkalýðshreyfingarinnar og félagshyggjufólks, eða mun Samfylkingin áfram að þjóna auðvaldinu almenningi og íslensku þjóðinni til höfuðs?

Baráttukveðjur,
Úlfur