Fara í efni

VISTARBANDIÐ (kemur það aftur?)

Vistarbandið var kvöð um að allt jarðnæðislaust fólk skyldi vera í vinnumennsku. Ef karl og kona réðu ekki eigin búi urðu þau að vera vinnuhjú á heimili bónda og eiga þar grið. Venjan var sú að fólk réði sig í ársvist í senn og skyldi skipta um heimili og vinnu á vinnuhjúaskildaga sem lengst af var á krossmessu á vor 3. maí, en fluttist yfir á 14. maí árið 1700 þegar tímatalinu var breytt.

Saga

Lágmarksstærð búa var þrjú kúgildi samkvæmt Píningsdómi frá árinu 1490. Ef einstaklingur réð ekki yfir slíkri eign þá varð hann að gerast vinnuhjú. Þessi lög voru enn þá í gildi á 18. öld og giltu í reynd áfram langt fram á 19. öld.

Ef húsbóndi stóð ekki við skyldur sínar við vinnuhjú þá mátti kæra hann fyrir hreppstjóra en vinnuhjú máttu þó ekki yfirgefa bæinn nema með leyfi bónda. Hvorki vinnuhjú né bændur máttu fara frá byggðalagi sínu nema þau fengju skriflegt leyfi prests eða veraldlegra yfirvalda.

Stefnir auðvaldið  að upptöku vistarbandsins  ?

Þessi spurning verður æ áleitnari eftir því sem vandræði fólks við kaup eða leigu á húsnæði aukast.

Líkja má fólki sem ekki hefur efni á að kaupa húsnæði við jarðnæðislaust fólk á árum áður,  það var neytt í  vinnumennsku hjá bændum gegn húsaskjóli og fæði.

Fyrirtæki eins og Vísir í Grindavík hafa keypt heilu blokkirnar undir starfsfólk sem var flutt frá Húsavík, þegar fiskvinnsla var þar lögð niður. IKEA hyggst reisa nýjar íbúðir fyrir starfsmenn sína , kísilverið á Bakka við Húsavík er að reisa íbúðir þar fyrir starfsmenn og svo mætti eflaust lengi telja. Hver er hin raunverulega hugsun bak við þessar aðgerðir fyrirtækjanna ?

Nú spyr eflaust einhver. Af hverju er maðurinn að velta þessari spurningu fyrir sér ?

Því er til að svara, að ef við skoðum lög númer 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þá sjáum við þetta í  1.gr.  Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.

Hvað kemur þetta húsnæðismálunum við kynni einhver að spyrja.

Þá er því til að svara að í 3.grein laganna stendur eftirfarandi.

3. gr. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skv. 2. gr. skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. [ laga nr. 90/2003, um tekjuskatt]. 1) Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga.

Í lögum nr 28/1930 segir. 1. gr. Verkkaup skal greitt með gjaldgengum peningum starfsmönnum öllum og daglaunamönnum við verslanir, verksmiðjur og náma, hásetum og öðrum starfsmönnum á skipum, sem á fiskveiðar ganga, síldveiðar eða hvalveiðar, hvort sem eru seglskip, mótorbátar eða gufuskip, nema verkkaupið sé hluti af aflanum sjálfum, svo og starfsmönnum og daglaunamönnum þeim, er á landi vinna hverja þá vinnu, er af útgerð skipanna leiðir, og má eigi greiða kaupið með skuldajöfnuði, nema svo hafi áður verið sérstaklega um samið.
Sama er og, ef verk er unnið í ákvæðisvinnu við einhverja þessa atvinnugrein.

Vinnuveitandi sem einnig á húsnæði sem hann leigir starfsmönnum, hefur semsagt hengingartak á þeim.

Samkvæmt þessu virðist það svo, (ég veit um dæmi þar sem þetta er gert) að vinnuveitandi sem einnig á húsnæði sem launamaðurinn býr í, getur skuldajafnað launum á móti leigu, sleppt því að greiða 8,5% mótframlag í lífeyrissjóð  sem  verður brátt 11,5% og 1,68% í mótframlag til stéttarfélsgs (sjúkra og orlofssjóðir) . Hér getur verið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða, og við skulum taka eitt dæmi.

Laun alls. 500.000 kr. 11,5% mótframlag í lífeyrissjóð og 1,68% í stéttarfélagsgjöld eru 65900 kr

Leigi þessi aðili 35 milljón króna eign atvinnurekandans þá lítur dæmið svona út.

Laun alls. 500.000 kr mínus leiga 200000 kr þá eru eftir 300000 kr.

300000 kr *13,18% =39540  Mismunur 65900-39540 = 26360 * 12 mán =316320 kr á hvern starfsmann sem leigir.

Hvernig liti dæmið út hjá manni með 300 þúsund króna lágmarkslaunin?

Í þessu dæmi hefur atvinnurekandinn 2.400.000 í tekjur af sinni eign í leigutekjur , frá þeirri upphæð er hægt að draga allskonar rekstrarkostnað nánast eftir hugmyndaflugi hvers og eins, svo þar fyrir uran greiðir atvinnurekandinn einungis 20% tekjuskatt á HAGNAÐ af þessari útleigu sinni.Þarna verður launamaðurinn af réttindum í lífeyrissjóði, sjúkrasjóði og fleira, en vinnuveitandinn stingur peninmgum sem með réttu tilheyra launamanninum í sinn eigin  vasa. ?Lífeyrisréttindi, sjúkrasjóðsréttindi , atvinnuleysistryggingaréttindi og réttindi í stéttarfélögum skerðast mjög verulega. GEÐSLEGT ?

Þessi launamaður fengi út úr lífeyrissjóði við starfslok miðað við 500000 kr laun og greiðslu iðgjalds af því um 280000 kr á mánuði, en ef greitt væri af 300000 í lífeyrissjóðinn (eftir skuldajöfnun húsaleigu) fengu hann 168000. Mismunur upp á 112000 kr á mánuði. Svipað gilti ef þessi launamaður missti starfsorkuna einhvern tíma á starfsferli sínum. 112000*12 mán = 1344000 kr á ári.

Þetta þýddi einnig að í stað þess að eiga rétt á greiðslum úr sjúkrasjóði stéttarfélaga sem er 80% af launum, hjá sumum félögum í 4 mánuði, en mun lengur hjá öðrum, í stað þess að fá 400000 kr í þann mánaðarfjölda sem viðkomandi stéttarfélag greiðir, fengi hann 240000 kr, mismunur er 160000 kr á mánuði.

Af þessu má sjá að um verulega fjármuni er að ræða ,alltaf kemur launamaðurinn út með skertan hlut  og komum við því  þá aftur að þeirri spurningu.

Stefnir auðvaldið að upptöku vistarbandsins ?

Svarið er einfalt. JÁ ÞAÐ GERIR ÞAÐ.

Hver tapar á þessu ?

Að sjálfsögðu launamaðurinn, enda er það hugsun auðvaldsins að græða sem mest, með sem allra minnstum tilkostnaði, sama hvernig farið er að því.

Ég sé ekki betur en hér sé komið fram mál sem varðar alla launþega þessa lands, á auðvaldið að ráða því hvort þú hefur vinnu og húsnæði, því væntanlega verða leigusamningarnir BEINTENGDIR ráðningarsamningum starfsmanna hjá viðkomandi fyrirtækjum.

Fái starfsmaðurinn uppsögn á vinnu, er það líka uppsögn á húsnæði.

Er það þetta sem við viljum?

Ég segi NEI.

Sé ekki betur en hér sé málefni sem ASÍ, BSRB,BHM og önnur launþegasamtök verði að taka upp og skoða mjög rækilega.Skerðing réttinda launamanna er ekki það sem við þurfum eða viljum.
Sveinn Elías Hansson