Fara í efni

SVANHILDUR HALLDÓRSDÓTTIR: VERKSTÝRÐI AF VELVILD


Á rúmlega tveggja áratuga göngu minni undir fána BSRB hef ég kynnst mörgu góðu fólki. Á skrifstofu bandalagsins hefur jafnan verið starfandi einvalalið. Ekki verður fallið í þá freistni að telja upp frábært samstarfsfólkið og færa því þakkir hvort sem það er Guðbjörg Jónsdóttir, fjármálastjóri lengst af mínum tíma, sem áður hafði verið starfandi hjá Leikfélagi Reykjavíkur, eða aðrir. Þegar ég spurði um álit á Guðbjörgu hjá Leikfélaginu við ráðningu hennar, varð löng þögn í símanum, síðan andvarp, æ, er hún að fara frá okkur! Frekar þurfti ekki vitnanna við. Ég gæti tíundað mannkosti margra góðra einstaklinga sem starfað hafa fyrir BSRB á formannstíma mínum.

En við Svanhildi Halldórsdóttur staðnæmist ég. Hún verður hluti fyrir heild eins og sagt var í Rómaveldi til forna. Svanhildur Halldórsdóttir var framkvæmdastjóri BSRB mestalla formannstíð mína, að undanskildum síðustu árunum þegar Helga Jónsdóttir kom í hennar stað til að sýna okkur fram á að lífið á sér verðugt framhald!

Svanhildur Halldórsdóttir hafði lag á því að hefja allt sem hún kom nálægt upp á æðra plan. Það gerði hún með frábærum tökum sínum á íslensku máli, skilningi sínum og þekkingu á sögunni og einstakri háttvísi og hlýju. Hún verkstýrði af velvild fákunnandi formanni í upphafi formannsferils og var alla tíð með afbrigðum fundvís á viskuorð sem hæfðu líðandi stundu. Þegar hugsað er til slíks samferðarfólks verður maður auðmjúkur og þakklátur.