Fara í efni

LÝÐRÆÐIÐ FYRIR BORÐ BORIÐ

Þau tíðindi áttu sér stað á fundi Orkuveitunnar í gær að lögð var fram tillaga um að breyta fyrirtækinu úr sameignarfélagi í hlutafélag. Það er með stökustu ólíkindum að málið skuli bera að með þessum hætti. Viljinn kemur fram hjá meirihlutanum í stjórn en hefur aldrei komið fram hjá eigendum, - kjörnum fulltrúum. Um málið hefur ekki verið fjallað í borgarstjórn Reykjavíkur, hjá Akranesbæ eða Borgarbyggð. Það var ekki rætt á aðalfundi og ekki á eigendafundi nú í vor. Í töllögunni er verið að leggja til breytingar á grundvelli fyrirtækisins, rekstrarformi þess og þróunarmöguleikum. Slíkar ákvarðanir á að taka á grundvelli umræðu þeirra sem eru til þess kjörnir. Með þessari framgöngu er lýðræðið að engu haft enda þjónar það ekki markmiðum meirihlutans.

Lengi hefur legið fyrir að vilji frjálshyggjumanna og sterkra afla innan Sjálfstæðisflokksins að einkavæða allt sem hægt er, selja samfélagslegar eigur í hendur auðmanna og peningavaldsins. Því liggur fyrir að tillagan um hlutafélagavæðingu Orkuveitunnar verður skoðuð í því samhengi, - hér er um að ræða fyrsta skrefið í átt til einkavæðingar fyrirtækisins.

Þegar samfélagslegar eigur eru seldar, er dregið úr lýðræðislegu aðhaldi, möguleiki almennings til að hafa áhrif rýrnar og hagsmunir peninga og markaðar eru settir ofar hagsmunum samfélagsins í heild. Slíkur er leiðangur meirihlutans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur með borgarstjórann í Reykjavík í broddi fylkingar.