Fara í efni

SUMIR SÉRHAGSMUNIR MEIRA SÉR EN AÐRIR

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 31/10.01/11.
Allir sem fást við stjórnmál, fjalla um hagsmuni í starfi sínu, hagsmuni skattgreiðenda, hagsmuni sjúklinga, fatlaðs fólks, fjárfesta, launafólks, atvinnurekenda, meðlagsgreiðenda, fjármagnseigenda, landbúnaðar, sjávarútvegs, stóriðju, smáiðnaðar, lántakenda, byggingariðnaðar, lista og menningar, námsfólks,öryrkja, aldraðra, íþróttafólks, barnafólks, fjármálakerfisins, lífeyrissjóða,…

Þessir hagsmunir skarast iðulega við persónulega hagsmuni stjórnmálamannanna sjálfra. Augljóst er að þingmenn og bæjarfulltrúar greiða skatta, kaupa bensín á bílinn, aka á vegunum, nota heilbrigðisþjónustuna og borga af húsnæðis- og námslánum.

Um þessa skörun er ekkert nema gott eitt að segja. Varla vildum við þingmenn eða bæjarfulltrúa sem væru geymdir í formalíni, með öllu ótengdir umhverfi sínu; með reglustiku eina að vopni en öllu sem útaf stæði væri skotið til úrlausnar hjá Samkeppnisstofnun eða ESA í Brussel. Ekki heillar sú sýn. Betra að vettvangur ákvarðana sé lifandi og vel tengdur lýðræðislegum naflastrengjum út í þjóðfélagið.

Það þýðir ekki sátt við sérhagsmunapot. En ef við gefum okkur að stjórnmálamenn séu ekki beint eða óbeint á mála hjá hagsmunaöflum, sem þýddi að utanaðkomandi hagsmunir væru tengdir ofan í vasa þeirra, þá er vandséð að þeir megi ekki tala máli tiltekinna hagsmuna.

En þá þurfa líka öll hagsmunatengsl stjórnmálamanna að vera sýnileg og gagnrýnir fjölmiðlar til staðar að varpa ljósi á pólitísk markmið sem kynnu að vera annarleg.

Á nýafstöðnu þingi Sjálfstæðisflokksins fóru tengsl forstjóra Mjólkursamsölunnar við landbúnað ekki á milli mála. Starf hans hjá MS  hefur vafalaust veitt honum innsýn í íslenskan landbúnaðarheim og með hliðsjón af þeirri vitneskju leyfði hann sér að efast um að íslenskur landbúnaður stæðist afnám allra verndartolla, nokkuð sem kveikir á okkur sem er umhugað um að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu.

En fyrir þetta fékk þessi landsfundarfulltrúi og sjálfstæðismaður til margra ára, bágt. Virtur vefmiðill sagði að það væri ekki oft sem maður sæi “jafn tæra hagsmunabaráttu…í hinu pólitíska starfi miðju.”

Þetta var semsagt hlutskipti ræðumanns á landsfundi stjórnmálaflokks í almennri umræðu um landbúnað: Afgreiddur sem ómarktækur. Viðkomandi var þó merktur í bak og fyrir, tengslin við landbúnaðarframleiðslu öllum augljós. Það er meira en sagt verður um ýmsa sem ég trúi að hafi einnig setið þennan landsfund og tjáðu sig án efa um sín hugðarefni, allt frá verðtryggingu og verndartollum til banns við áfengissölu ríkisins. Horfi ég þá til dæmis til þeirra sem tengjast Bónus, Högum, Granda, Félagi fjárfesta og N1.

Hvernig skyldi standa á því að nú um stundir er landbúnaður sagður meira sér en aðrir sérhagsmunir? Gæti það verið vegna þess að sterkir hagsmunir í innflutningsverslun vilji verndina sem hann nýtur feiga, að ógleymdu áhugafólkinu um Evrópusambandið, sem finnst ekkert eins hallærislegt og að vilja verja íslenskan landbúnað, hvað þá að verjast dýrasjúkdómum frá meginlandi Evrópu?