Fara í efni

STRÍÐ EÐA FRIÐUR

 

Kæru samlandar.

Á hvaða leið erum við Íslendingar?

Það virðist blasa við því miður, að stefnt sé að aukinni þátttöku landsins í því hernaðarbrölti sem tröllríður heiminum.

Þjóðirnar hervæðast nú sem aldrei fyrr og vopnin sem bjóðast á markaði stríðstóla verða stöðugt öflugri og mannskæðari eftir því sem tækni og vísindum fleygir fram.

Væntingar af hagnaði af vopnasölu aukast og enginn þarf að taka ábyrgð á eyðileggingunni og þeirri mergð mannslífa, manna, kvenna og barna, sem liggja í valnum eða á sundurtættum búsvæðum.

Hvernig í ósköpunum stendur á þessu?

Getur það tengst þeirri lífseigu fullyrðingu að þetta ástand sé óhjákvæmilegt, að maðurinn sé í eðli sínu sjálfselskur og árásargjarn og þess vegna muni stríð fylgja honum um ókomna tíð.

En hverjar eru afleiðingarnar af slíkum þankagangi?

Það virðist einsýnt að afleiðingin sé að viljinn til að snúa sér að útrýmingu styrjalda lamist í trú á að slíkt sé tilgangslaust.

Þessi lífseiga fullyrðing, að þetta ástand sé óhjákvæmilegt, er í algerri andstöðu við það sem manni var kennt í bernsku um dyggðir og gildi sem tengjast okkar andlega lífi. Þau gildi eru því miður á undanhaldi fyrir taumlausri efnishyggju, sem elur af sér viljann til stríðs og hugsunina um stríðsgróða, og það að leggja undir sig lönd og álfur.

Ég tel að staðhæfingunni um að maðurinn sé sjálfselskur og árásargjarn, hafi í raun verið alfarið hafnað með Sevilla yfirlýsingunni, - yfirlýsingu sem tengdist alþjóðlega friðarárinu 1986 og bar yfirskriftina; Sevilla yfirlýsingin um ofbeldi (Sevilla Statement on Violence).

Að yfirlýsingunni stóðu 20 alþjóðlegir vísinda og fræðimenn og draga má niðurstöðuna saman í fimm grundvallar atriði sem styðja höfnun þessarar staðhæfingar.

  1. Það er vísindalega rangt að halda því fram að við höfum tekið í arf frá forfeðrum okkar tilhneigingu til að heyja stríð.
  2. Það er vísindalega rangt að halda því fram að stríð eða önnur ofbeldishegðun sé erfðafræðilega forrituð inn í okkar mannlega eðli.
  3. Það er vísindalega rangt að halda því fram að í framvindu mannlegrar þróunar hafi árásargjörn hegðun orðið ofaná fremur en annarskonar hegðun.
  4. Það er vísindalega rangt að halda því fram að maðurinn hafi ofbeldisfullan heila (violent brain)
  5. Það er vísindalega rangt að halda því fram að stríð orsakist af eðlishvöt eða einhverri annarri viðvarandi hvöt.

Yfirlýsingunni lýkur þannig: “Rétt eins og stríð hefjast í hugum manna, þá hefst friður einnig í hugum okkar. Sama tegundin og fann upp stríð er fær um að finna upp frið. Ábyrgðin liggur hjá hverju og einu okkar.

Árið tvö þúsund og ellefu 25 árum eftir að Sevilla yfirlýsingin var samþykkt, kom saman í Róm enn fjölmennari hópur vísinda og fræðimanna til að meta hvort eitthvað það hefði komið fram á þessum árum sem kallaði á breytingu á yfirlýsingunni frá 1986. Niðurstaðan varð að ekki þyrfti að breyta stafkrók.

Í ljósi þess, sem hér hefur komið fram legg ég til að íslensk stjórnvöld hefjist handa við að flytja Ísland yfir í hóp hlutlausra ríkja og taki þar með mikilvægt skref á vegferð mannkynsins til heimsfriðar.

The Seville Statement on Violence Preparing the ground for the constructing of peace disseminated by the decision of the General Conference of Unesco at its twenty-fifth session Paris, 16 November 1989, edited with commentary by David Adams UNESCO 1991

Höfundur er lyfjafræðingur.

Grein Böðvars Jónssonar birtist áður í Heimildinni: https://heimildin.is/grein/21555/