Fara í efni

STÖNDUM VÖRÐ UM BARÁTTUFÓLK VERKALÝÐSINS

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) hefur birt árlega skýrslu sína um mannréttindabrot og ofsóknir á hendur verkalýðshreyfingunni í heiminum. Skýrslan tekur til 138 landa og kemur í ljós að verkalýðshreyfingin og forsvarsfólk hennar sætir sífellt meiri ofsóknum ár frá ári. Þannig voru 115 baráttumenn verkalýðsfélaga myrtir á árinu 2005 en 144 á árinu 2006.

Verst er ástandið í Kolombíu. Stjórnvöld þar í landi staðhæfa að ástandið fari batnandi. „Það er lygi“ segir í skýrslu ITUC. Á síðasta ári hafi  78 baráttumenn verkalýðshreyfingarinnar í landinu verið myrtir, átta fleiri en árið áður. Þá eru ótaldir allir þeir sem sættu ofsóknum og hótunum eða „hurfu“ sporlaust.

Í öðrum löndum er ástandið víða einnig slæmt og eru þar einkum nefnd lönd í Asíu og Afríku. Þannig voru 33 baráttumenn í verkalýðshreyfingunni á Filippseyjum myrtir á síðasta ári. Nepal er einnig tilgreint sérstaklega í skýrslunni sem dæmi um land þar sem verkalýðshreyfingin á erfitt uppdráttar.

Á meðal þróaðra iðnríkja eru nokkur lönd nefnd sérstaklega hvað varðar tilraunir til að hefta starf vekalýðsfélaga með því að setja lagalegar hömlur á félagslega kjarasamninga, verkafallsrétt og jafnvel réttinn til að mynda verkalýðssamtök. Í þessu sambandi er vísað til Bandaríkjanna þar sem Vinnumálastofnunin ( National Labour Relations Board) sendi frá sér túlkun og skilgreiningu á lögum sem í reynd „..svipti milljónir launamanna réttinum til að skipuleggja sig í verkalýðsfélögum.“

Ástralía er einnig nefnd í þessu sambandi.

Víða um austanverða Evrópu á sjálfstæð verkalýðshreyfing verulega undir högg að sækja og gætir tilrauna stjórnvalda til að hamla gegn starfsemi hennar.

Þá er vísað til þess í skýrslu ITUC að víða sé baráttufólki úr verkalýðshreyfingunni haldið í fangelsum og eru Kína, Burma og Kúba sérstaklega nefnd í því sambandi.
Í formálsorðum að skýrslunni segir Guy Ryder, aðaritari ITUC, að þrátt fyrir hrikalegt ástand víða í heiminum kveiki baráttufólkið von í brjósti. Nefnir hann m.a. hetjulega baráttu verkalýðshreyfingarinnar í Kolumbíu og Zimbabwe. Hann ákallar hina fjölþjóðlegu hreyfingu launafólks að gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma hinum ofsóttu til varnar. Hann segir að ITUC hafi beitt sér eins og samtökin hafi megnað á síðustu mánuðum ekki síst í Guineu. Í allsherjarverkfalli þar í landi í júní í fyrra felldu öryggissveitir 30 mótmælendur og særðu 1700. „Þetta var þó aðeins til marks um það sem koma skyldi“, segir í skýrslu ITUC, „því í aðgerðum öryggissveita gegn verkafólki í janúar og febrúar á þessu ári hafi 137 verið drepnir og 1700 særðir.“


Ég tek undir með Guy Ryder, aðalritara ITUC, um nauðsyn þess að standa vörð um baráttufólk fyrir réttindum launafólks hvarvetna sem að því er sótt. Takist að kveða verkalýðsbaráttuna niður eru mannréttindi samfélagsins alls í húfi. Ég hvet íslenska fjölmiðla til þess að beina sjónum að mannréttindamálum í ríkari mæli en þeir gera og þá einnig að stöðu verkalýðshreyfingarinnar ekki síst í þeim löndum þar sem íslenskt „útrásarfólk“ er á ferð. Það kann að vera góðra gjalda vert í einhverjum tilvikum að færa út kvíar á Balkanskaga og í Kína, svo dæmi séu tekin. En þá skyldu menn hafa í huga að hagnaður á kostnað mannréttinda er verri en enginn. Slíkur hagnaður á engan rétt á sér. Sú skylda hvílir á talsmönnum Íslands hvar sem þeir fara að halda fána mannréttinda hátt á loft.