Fara í efni

STJARNA FRAMSÓKNAR SKÍN NÚ SKÆRT, SKORTIR EKKI LEIÐTOGAEFNIN...

Þingflokkur okkar framsóknarmanna landaði miklum happafeng nú á dögunum. Á ég þar að sjálfsögðu við arftaka Árna Magnússonar, Guðjón Ólaf Jónsson hæstaréttarlögmann með meiru. Ég hef fylgst með vasklegri framgöngu Guðjóns Ólafs í flokknum til margra ára og skynjaði fljótt að þar færi um grösug túnin einn af líklegum framtíðarleiðtogum okkar. Og fleiri málsmetandi menn eru sama sinnis. Þar á meðal er einn af ekki minna kalíberi en sjálfur Guðjón inn við beinið. Sá er auðvitað enginn annar en Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra og án efa girnilegasti krónprins flokksins nú um stundir, og þar á ofan bráðum borgarfulltrúi og kannski borgarstjóri líka ef Guð og Sjálfstæðisflokkurinn lofa. Björn þekkir nýja þingmanninn okkar eins og lófana á sér og lýsir ferli hans og mannkostum svo á heimasíðu sinni:

“Guðjón Ólafur … er vel kynntur innan flokksins og utan og … sannkölluð hamhleypa til allra verka. Guðjón Ólafur ber einna stærsta ábyrgð á því að ég gekk til liðs við Framsóknarflokkinn á sínum tíma og hefur margvíslega reynslu af flokksstarfinu; sem aðstoðarmaður ráðherra, varaþingmaður, formaður kjördæmissambands, formaður Sambands ungra framsóknarmanna og framkvæmdastjóri þingflokksins. Ekki verður því annað sagt að þar komi inn á hið pólitíska svið fullmótaður stjórnmálamaður sem þegar verður litið á sem þungavigtarmann.”

Allt er þetta drengilega mælt og dæmigert fyrir andrúmsloftið í flokki þar sem eindrægni og samhugur ríkir, þar sem menn reyna eftir mætti að sjá eigin kosti í öðrum - í flokki þar sem engir kújónar lúra á bak við tjöldin og bíða færis að vega að flokkssystkinum sínum. Ég tek heils hugar undir orð Björns Inga en langar þó að bæta örlitlu við sem mér hefur fundist einkenna pólitíska framgöngu Guðjóns Ólafs frá upphafi. Hann hefur jafnan verið afar rökfastur og málefnalegur og aldrei látið slá sig út af því ábyrga lagi þótt hart hafi verið að honum sótt með alls kyns skítkasti og neðanbeltishöggum pólitískra andstæðinga. Þessir eiginleikar skipta að sönnu ómældu máli fyrir kjörþokkann og svo spillir heldur ekki fyrir sá góðlátlegi húmor sem Guðjón hefur til að bera - og sem hefur fleygt vinsældum hans hátt á loft og langt yfir allar hefðbundnar flokksgirðingar. Það er ósk okkar framsóknarmanna allra, og vafalaust margra fleiri, að stjarna Guðjóns Ólafs megi skína sem allra skærast um ókomin ár.
Með fyrirfram þökk fyrir góðfúslega birtingu,

Smiður Jónsson