Fara í efni

STAÐHÆFT, SPURT OG SVARAÐ UM KLÁM

Sæll Ögmundur, umræða er alltaf góð en ekki fengum við að sjá mikið af henni áður en þú settir í gang teimi til að gera frumvarp að lögum til að banna klám. Eg vil geta farið á netið og keypt mér klám eða hvaða efni sem er án þess að þú eða einhverjir aðrir séu að reyna að hafa vit fyrir mér. Það sem er bannað finnur sér farveg á einn eða annan hátt og þá þar sem ógerningur er að fylgjast með þvi og oftar en ekki verður það öfgafyllra ef eitthvað er. Það sem þú ert að gera er að búa til meiri glæpi og óreiðu og spennu í þjóðfélaginu. Komdu í veg fyrir að börn komist í klám en það gerir þú ekki með því að banna bara og vona það besta. Finndu leið til að leysa vandamál en ekki búa til ný og stærri. Eg þarf ekki á þinni leiðsögn um hvað er gott fyrir mig að horfa á eða lesa eða hlusta á.
Kveðja,
Bjarni Tryggva

Þakka þér bréfið Bjarni. En ekki er það rétt hjá þér að ekki hafi verið efnt til umræðu um þessi efni. Það hefur verið gert með skipulegum hætti undanfarin tvö ár af minni hálfu. Og hvað nú? Nefnd hefur verið falið að setja fram drög að frumvarpi um skilgreiningar á klámi. Klám er bannað samkvæmt núgildandi lögum. En hvað er klám? Eitt er víst að það hefur ekkert með bert fólk og kynlíf að gera. Það tengist miklu fremur ofbeldi. Síðan eiga þessi frumvarpsdrög eftir að fara í umræðu utan þings og innan en að sjálfsögðu hefur Alþingi löggjafarvaldið og þar ræður meirihluti. Hitt eru svo úrræði sem grípa má til á netinu. Hvað það varðar er ég að setja niður starfshóp sem kanni hvaða úrræða er hægt að grípa til svo framleiðendur á ofbeldisklámi hafi ekki eins greiðan aðgang að börnunum okkar og raun ber vitni. Þetta finnst mér sjálfsagt mál að skoða. Ofbeldisiðnaðurinn kann sér engin siðgæsimörk og ef þér finnst frelsið snúast um að greiaða götu framleiðenda á obeldisefni, og það sé frelsisskerðing að setja þeim skorður, þá erum við einfadlega ósammála.
Þú segist vilja geta keypt þér klám. Telur þú að börn og allar þær konur sem notaðar eru í ofbeldismyndum geri það almennt af fúsum og frjálsum vilja? Finnst þér þá líka rangt að banna vörur sem eru búnar til af barnaþrælum?
En ég sé að þú ert sammála mér um að vilja verja börnin og þar eigum við snertiflöt sem mér finnst að eigi að vera þungamiðjan í þessari umræðu og út frá þeirri forsendu getum við þróað umræðuna áfram. Og þarna virðast flestir vera sammála. 
Ögmundur