Fara í efni

SPURT UM LÍFEYRIS-FORRÉTTINDIN

Sæll Ögmundur.
Formaður allsherjarnefndar segir í 24-stundum, að óski nefndarmenn ekki eftir því að eftirlaunafrumvarp Valgerðar Bjarnadóttur verði tekið fyrir, þá muni það daga uppi. Áríðandi spurning mín er þessi: Mun þingflokkur VG sjá til þess að málið verði tekið fyrir í allherjarnefnd? Í nefndinni situr Atli Gíslason fyrir hönd VG. Þar situr einnig Ellert B. Schram, einn flutningsmanna frumvarpsins. Líka Jón Magnússon fyrir frjálslynda, sem hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við áfnám lífeyrisforréttindanna. Þar situr og Siv Friðleifsdóttir, sem sagst hefur áhugasöm um afnám lífeyrisforréttindanna. Með öðrum orðum: Mun þingflokkur VG eiga frumkvæði að því að taka höndum saman við ofangreinda nefndarmenn þannig málið fáist rætt í allsherjarnefnd, en dagi ekki uppi?
Hjörtur Hjartarson

Heill og sæll. Valgerður Bjarnadóttir hefur vakið rækilega athygli á málinu og ég hef tekið undir með henni. Málið er einfalt og þarfnast engrar nánari skoðunar ef mönnum er á annað borð alvara að vilja afnema forréttindin. Aðrar breytingar á frumvarpinu en að afnema það yrðu bara til málamynda. Eitt máttu vita Hjörtur, ég mun ekki láta mitt eftir liggja að reyna að fá frumvarpið afgeitt nú í vor. Ég veit að Valgerði Bjarnadóttur er fullkomin alvara en nú er að vita hvort öðrum sem gagnrýnt hafa frumvarpið er alvara. Það kemur flljótlega í ljós.
Kv.
Ögmundur