Fara í efni

SPURT OG SVARAÐ

Í Morgunblaðsgrein 30. Mars spyrð þú: "hvers konar þjóðfélag íslenskir kapítalistar hafa verið að þróa hér með offorsi, tilætlunarsemi, frekju og takmarkalausri græðgi" Nú hefur þú verið í forsvari fyrir launasamtök sem hafa gert skýlausa kröfu um menntun verði metin til verðleika, að prófgráða stýri launataxta en eiginlegur afrakstur komi hvergi nærri. Hvernig samrýmist krafan um hækkun lægstu launa við kröfuna um aukið launabil?
Arnar Sigurðsson

Sæll Arnar og þakka þér fyrir bréfið. Tenging launa og menntunar hefur aldrei verið ofarlega á mínu kröfuspjaldi og reyndar aldrei yfirhöfuð. Innan BSRB þar sem ég var formaður í langan tíma komu slíkar kröfur fram hjá einhverjum hópum en það eru háskólamennirnir í BHM sem hafa haldi þessum kröfum á lofti. ALDREI ég! Ég hef hins vegar talað máli millitekjuhópa auk þeirra lægstu því ég hef viljað varðveita taxtalaunakerfið ekki semja bara um lágmarkslaun og svo tæki frumskógurinn við. Ég hef hins vegar viljað að samið yrði um lágmark og þá einnig hámark og talað um einn á móti þremur í því sambandi. Ef hinir hæstu hækkuðu myndu hinir lægstu hækka sjálfkrafa að sama skapi. Þetta hef ég kallað varnarvísitölu láglaunafólks. 
Ögmundur Jónasson