Fara í efni

SPURNING TIL MORGUNBLAÐSINS: HVAÐ VARÐ UM UMRÆÐUNA UM STÓRIÐJU?

Birtist í Morgunblaðinu 26.05.05
Síðastliðið sumar kom fram tillaga í leiðara Morgunblaðsins þess efnis að efnt yrði til víðtækrar umræðu í þjóðfélaginu um framtíðarstefnu í atvinnumálum og þá með sérstöku tilliti til nýtingar orkuauðlinda landsins. Þess yrði freistað að leita sátta milli gagnstæðra sjónarmiða. Þetta þótti mér góð tillaga en ennþá brýnni er hún nú orðin í ljósi nýjustu yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar varðandi  stóriðjuáform. Að því marki sem þessi umræða hefur farið fram hefur hún farið of hljótt og ekki náð nógu víða. Náttúruvaktin hefur efnt til umræðu og þannig staðið sína vakt og samtök og einstaklingar hafa vissulega lagt sitt af mörkum.

Menn færi rök fyrir máli sínu

Ekkert virðist hins vegar hrína á ríkisstjórninni og forráðamönnum sumra sveitarfélaga sem virðast eiga sér þann draum æðstan að fá álver í byggðarlagið. Ekki þykja mér fjölmiðlar almennt láta slíka menn svara hvers vegna þeir telji að skattborgarinn eigi að opna pyngjur sínar fyrir slíkri fjárfestingu. Fjárfestingin kemur nefnilega þaðan og ekki af himnum ofan.
Áform ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum eru enn stórskornari en þau hafa nokkru sinni verið. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra fullyrðir í fjölmiðlum að tekið verði jákvætt í beiðni Alcoa um að reisa álver á Norðurlandi þegar framkvæmdum lýkur fyrir austan. Undirrituð hefur verið yfirlýsing um undirbúning álvers í Helguvík auk þess sem Alcan hefur í hyggju að stækka enn álverið í Straumsvík. Hömlulaus útþensla stóriðju blasir því við og er kynt undir þessari þróun af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Þingflokkur VG ályktar

Í yfirlýsingu sem þingflokkur VG sendi frá sér kveður við svipaðan tón og í Morgunblaðsleiðaranum sem vitnað var til. Þingflokkurinn hvetur landsmenn til að staldra við og spyrja grundavallarspurninga: "Eru Íslendingar tilbúnir að færa ótakmarkaðar fórnir fyrir frekari uppbyggingu stóriðju í landinu? Ætla landsmenn að fórna enn fleiri náttúruperlum fyrir orkusölu til mengandi þungaiðnaðar?  Hvar ætla landsmenn að fá orku fyrir vaxandi orkuþörf íslenskra heimila og almenns atvinnulífs á komandi árum? Hvað með vetnisvæðingu Íslands þegar búið verður að binda orku í samningum til áratuga við erlend stóriðjufyrirtæki? Er ekki eftirsóknarverðara að byggja íslenskt atvinnulíf upp á fjölbreytni í stað einsleitrar stóriðju með stórfelldum neikvæðum áhrifum á annað atvinnulíf eins og dæmin sanna? Eru Íslendingar tilbúnir að afhenda orkuauðlindir sínar áfram á útsöluverði?"

Ríkisstjórnin hefur aldrei reiknað þjóðhagslegan ávinning

Við þessar spurningar má bæta fjölmörgum öðrum. Skyldu menn til dæmis hafa gert sér grein fyrir því að á vegum ríkisstjórnarinnar hafa aldrei farið fram útreikningar á því hver virðisauki fyrir þjóðfélagið kann að vera af stóriðjunni? Eftir slíkum útreikningum hef ég marg oft auglýst á Alþingi en jafnan komið að tómum kofanum. Er ekki löngu tímabært að stjórnvöld svari því skýrt og undanbragðalaust hver sé ávinningur af stóriðjunni fyrir samfélagið? Enginn deilir um að verið er að færa miklar náttúrufórnir á altari stóriðjunnar. Sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem tekur ákvörðun um slíkar fórnir.
Ég minnist þess að hlýða á fyrirlestur Ásgeirs Jónssonar, hagfræðings við Háskóla íslands um þjóðhagslega arðsemi af stóriðju bæði fyrr og nú. Málflutningurinn var öfgalaus og málefnalegur. Fyrirlesari var hvorki með né móti stóriðju, kvaðst telja að við sumar aðstæður ætti hún við, aðrar ekki. Fram kom að árið 1999 hefði Landsvirkjun selt 66% af framleiddri raforku til stóriðju en aðeins 38% af tekjunum komu þaðan. Einnig kom fram að arðsemi eiginfjár Landsvirkjunar árin 1998 -2003 hafi verið 2,9% sem er minni en verðbólga. Með öðrum orðum arðsemin var minni en engin! Við þetta rifjast upp fyrir mér yfirlýsingar þeirra Landsvirkjunarmanna  þess efnis að væru þeir hlutafélag á markaði hefðu þeir aldrei mælt með Kárahnjúkavirkjun!
Ef þessi er raunin, arðsemi virkjunarframkvæmda sé ekki fyrir hendi, hljótum við að vilja vita hver sé þá meintur ávinningur að öðru leyti.

Útflutningsverðmæti, atvinnusköpun?

Mér virðist ríkisstjórnin einblína á tvennt, álið sem útflutningsverðmæti og síðan þá atvinnusköpun sem tengist stóriðjunni.
Hvað fyrra atriðið snertir skoða stjórnvöld álið fyrst og fremst sem hlutfall í útflutningi  en láta hins vegar undir höfuð leggjast að spyrja hvert arðurinn renni. Við skulum ekki gleyma því að eigendur álfyrirtækjanna eru erlendir.
Varðandi atvinnusköpun þá er að koma á daginn að þessi tegund atvinnuuppbyggingar mun reiða sig á aðflutt erlent vinnuafl í ríkari mæli en aðrir valkostir sem bjóðast. Þá hefur ekki nægilega verið hugað að afleiðingunum fyrir annan atvinnurekstur, svokölluðum ruðningsáhrifum. Spurningin snýst nefnilega um valkosti: Stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar þar sem stefnt er að því að álframleiðsla verði yfir 40% af útflutningi eða fjölbreytilegri atvinnuflóru. Ríkið fjárfestir í stóriðju en styður ekki sem skyldi við lítil og meðalstór sprotafyrirtæki sem eru víða að reyna að hasla sér völl við erfiðar aðstæður vegna ruðningsáhrifa stóriðjunnar, lítið fjármagn og háa vexti.

Holur hægri hljómur

Hlálegast finnst mér þó að heyra gallharða hægri sinnaða frjálshyggjumenn óskapast yfir afskiptum ríkisins af atvinnurekstri og niðurgreiðslum til landbúnaðar. Þetta eru sömu aðilar og lagt hafa blessun sína yfir stórfelldustu ríkisafskipti Íslandssögunnar, því Kárahnjúkavirkjun er að sjálfsögðu ríkisframkvæmd, eru reiðbúnir að niðurgreiða raforku til erlendra auðhringa, veita þeim skattfríðindi umfram íslensk fyrirtæki og fórna hagsmunum íslensks atvinnureksturs í þeirra þágu.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt til öflugan valkost í atvinnumálum þjóðarinnar, sem byggir á hugviti og þekkingu, þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi. Þingflokkur VG leggur til að öllum viðræðum vegna frekari stóriðjuframkvæmda verði frestað fram yfir næstu Alþingiskosningar svo að þjóðinni gefist færi á almennri umræðu áður en frekari óafturkræf skref yrðu tekin.