Fara í efni

Spánýjar upplýsingar frá Sturlu

Bæjarstjórinn á Siglufirði og samgönguráðherra sátu á rökstólum í Kastljósi Sjónvarps í kvöld og fjölluðu um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fresta Siglufjarðargöngum. Látum þá ákvörðun liggja á milli hluta. Gleymum því líka að ríkisstjórnin skuli farin að svíkja kosningaloforð sín í gríð og erg, aðeins fáeinum vikum eftir kosningar. Staðnæmumst hins vegar við þær skýringar sem hún gefur á kosningasvikum sínum. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra upplýsti í fyrrenfndum þætti að ríkisstjórnin hefði fyrir satt að svo mikil spenna væri fyrirsjáanleg á vinnumarkaði vegna virkjana- og stóriðjuframkvæmda á Austurlandi að sérstök ástæða væri til að draga hið snarasta úr opinberum framkvæmdum annars staðar. "Var þetta ekki vitað fyrir tveimur mánuðum í aðdraganda kosninga", spurði þá kastlýsingur samgönguráðherrann." Ekki kvað Sturla það vera rétt. Þetta væru spánýjar upplýsingar frá greiningardeildum bankanna og nú kæmi það í hlut ríkisstjórnarinnar að bergðast við breyttum aðstæðum.
Þetta hlýtur að vera alveg hárrétt hjá ríkisstjórninni og sérstök ástæða til að þakka Sturlu Böðvarssyni alveg sérstaklega fyrir að vekja athygli á þessum gerbreyttu og ófyrirsjáanlegu aðstæðum. Ég held að í maíbyrjun hafi engan órað fyrir því hvað myndi gerast þegar byrjað yrði að pumpa nokkur hundruð milljörðum inn í hagkerfið, allra síst greiningardeildum bankanna. Þar hljóta menn að hafa komið alveg af fjöllum þegar leið á sumar. Sagnfræðingar sem færu yfir umræðu um efnahagsmál síðasta misserið eða svo myndu allir án efa staðfesta að samgönguráðherrann fer með rétt mál. Það væri athugandi fyrir einhvern sagnfræðinemann að taka þetta sem verkefni í rannsóknarritgerð. Eftir á að hyggja held ég þó að betra væri að siðfræðingur færi í málið. Fyrir siðfræðing væri þetta verðugt verkefni.