Fara í efni

SJÓN ER SÖGU RÍKARI


Ég minnist þess þegar Vinstrihreyfingin grænt framboð efndi til hópferðar á Kárahnjúkasvæðið áður en heimild hafði verið veitt fyrir því að virkja þar. Það sem við, sem andæfðum þessum áformum, því miður vissum eða grunaði sterklega var að ákvörðun um virkjun hefði í reynd verið tekin bæði hjá ríkisstjórn og Landsvirkjun. Það skyldi virkjað hvað sem tautaði og raulaði. Á þessu ferðalagi okkar sáum við fjölda þungavinnuvéla að verki. Skýringin var sögð sú að verið væri að rannsaka svæðið. Hverju barni mátti þó vera ljóst að um var að ræða mun umfangsmeiri framkvæmdir en svo að einvörðungu gæti verið um rannsóknarvinnu að ræða. Þetta flaug mér í hug þegar ég sá í dag plakat með myndum og spurningum frá nátturuverndar- og umhverfissamtökunum Sól á Suðurlandi. Á plakatinu má sjá framkvæmdir við Þjórsá sem bera það með sér að virkjunarvinnan þar sé að hefjast af fullum krafti enda þótt tilskilin leyfi séu ekki fyrir hendi. Sjón er sögu ríkari.